Parið Jemma Schofield og Chris Watson eru búsett í Lancashire í Bretlandi þar sem þau starfa sem mjólkurbændur. Þar sem þau eru eigin herrar og dagarnir annasamir geta þau sjaldan tekið sér frí og hvað þá frí saman.
Þegar kom að því að skipuleggja brúðkaupið vildu þau nýta tækifærið, ferðast og giftast með óhefðbundnum hætti. Í viðtali við Insider segja þau að draumurinn hafi verið að gifta sig á Íslandi í landi elds og íss. „Þetta var bara alltaf Ísland,“ segir Schofield um draumabrúðkaupsáfangastað þeirra og bætir við að hún og Watson hafi viljað „eitthvað öðruvísi, ævintýri“.
Parið er eitt fjölmargra viðskiptavina Iceland Wedding Planner, sem sérhæfir sig í ævintýralegum athöfnum, og var það eigandinn Ann Peters sem sá um skipulagninguna í samráði við parið. Peters gefur ekki upp nákvæmar staðsetningar þeirra athafna sem hún skipuleggur til að halda staðsetningunni leynilegri, eins og segir í frétt Insider. Sumar athafnirnar fara fram með leyfi viðkomandi landeiganda.
Schofield og Watson kynntust fyrst í skóla þegar þau voru tíu ára. „Ég var svo ástfangin af honum að það er ekki einu sinni fyndið,“ sagði Schofield. „Ég sagði ömmu og afa að ég ætlaði að giftast þessum strák, en hann man ekki eftir mér úr skólanum.“
Eftir að skólanum lauk héldu þau í sitt hvora áttina, en hittumst á ný á þrítugsaldri þegar Watson gekk inn á bar þar sem Schofield vann sem barþjónn. Endaði kvöldið með að hún fór með honum heim og flutti ekki út aftur.
Þann 2. júní síðastliðinn skiptust þau á heitum inni á jökli, síðan var lautarferð við foss og myndataka í gljúfri og á ströndinni við Dyrhólaey. Parið er vant því að skíta sig aðeins út við bústörfin og fannst því ekkert tiltökumál að græja sig upp og leggja smá erfiði á sig fyrir athöfnina.
Brúðkaupsdagurinn hófst í Vík þar sem brúðhjónin klæddu sig í sparifötin og keyrðu með jeppa áleiðis að íshellinum, segir í frétt Insider að brúðkaupsstaðurinn sé íshellir inni í jökli staðsettur á afskekktu svæði þar sem engir malbikaðir vegir eða ferðamenn eru. Peters sá hellinn úr flugvél sem hún leigði síðasta sumar og heldur staðsetningu hans leyndri til að veita viðskiptavinum sínum einkarétt að honum. „Ég hef eytt dögum, klukkutímum, í gönguferðir, akandi, gert allt til að finna þetta svæði,“ sagði Peters við Insider. „Allt breytist því svæðið er lifandi.“
Peters og teymi hennar útveguðu hjónunum hjálma, reipi og annan nauðsynlegan búnað til að komast örugglega inn í hellinn. Brúðurin klæddi sig í stígvél, brúðguminn í vöðlur, bæði settu á sig mannbrodda og hjálma og gengu af stað. Óðu þau ár og klifruðu síðan inn í íshellinn í fullum skrúða. Lútherskur prestur sá um að gefa hjónin saman og eftir að hafa skipst á heitum skáluðu þau fyrir framtíðinni með sopa af íslensku brennivíni.
Næst tók við myndataka í íshellinum, hjá nálægum fossi þar sem hjónin fengu lautarferð með ávöxtum, makkarónum, kampavíni og öðru góðgæti, og að lokum var myndataka í nálægu gjúfri. Að lokum var ekið að ströndinni við Dyrhólaey þar sem meira var myndað, áður en brúðhjónunum var ekið aftur í Vík, þar sem þau skoluðu af sér rykið, skiptu um föt og borðuðu kvöldmat.
„Ég elskaði hverja mínútu,“ sagði Schofield um athöfnina.
Þeir sem vilja kynna sér þjónustu Iceland Wedding Planner geta skoðað heimasíðu þeirra hér.