Stóri dagurinn var að renna upp hjá parinu Casey og Alex, en eftir að hafa verið saman í sex ár, var brúðkaupsdagurinn framundan. Casey var spennt allt þar til hún fékk nafnlaust sms daginn fyrir brúðkaupsdaginn.
Casey var að skemmta sér á hótelherbergi með vinkonum sínum þegar síminn pípti, hún hélt að hún væri að fá heillaóskir vegna brúðkaupsins og opnaði skilaboðin frá ókunnugu símanúmeri þar sem stóð „Ég myndi ekki giftast honum, hvað með þig?“, og með var röð af skilaboðum af Messenger á milli unnusta hennar og annarrar konu.
Casey skrollaði í gegnum skilaboðin sem innihéldu einnig nokkrar sjálfur af unnusta hennar og konunni teknar dögum, jafnvel mánuðum áður.
„Líkami þinn er ótrúlegur og þú kannst að nota hann,“ stóð í einum skilaboðum frá unnustanum.
„Ég vildi óska að kærastan mín kynni helming af því sem þú kannt.“
„Ég hef aldrei upplifað svona tengingu áður.“
Sum skilaboðanna innihéldu skipulagningu helgarferða og annarra ferða á milli unnustans og hinnar konunnar.
Ákvað að sofa áður en hún tæki ákvörðun
Í fyrstu fékk Casey áfall og henni fannst heimurinn hrynja, en brúðkaup hennar var eftir aðeins nokkrar klukkustundir. Hún ákvað að reyna að sofa á þessu og taka ákvörðun daginn eftir. Daginn eftir sagði hún vinkonum sínum að hún hefði tekið ákvörðun, hún ætlaði að láta eins og ekkert væri og koma upp um unnustann fyrir framan vini þeirra og fjölskyldur.
Casey gekk upp að altarinu og lét á engu bera, þegar þangað kom sneri hún sér við, horfði á brúðkaupsgesti og byrjaði lesturinn: „Það verður ekkert brúðkaup í dag. Svo virðist sem Alex sé ekki sá sem ég hélt að hann væri.“
Viðstaddir voru orðlausir meðan Casey hélt áfram að lesa skilaboðin milli unnusta hennar og konunnar.
„Með hverju orði sem ég las varð Alex sífellt vandræðalegri. Ég leit að lokum upp og í augu hans og hann sagði ekki orð, heldur gekk út úr kirkjunni með svaramanninn á eftir sér. Fjölskylda hans horfði á eftir honum,“ segir Alex.
„Ég elska ykkur öll og eins hræðilegt og þetta er þá er ég fegin að þið eruð öll hérna. Það verður ekki brúðkaupsveisla í dag, en í staðinn verður hátíð heiðarleika, leitarinnar að hinni einu sönnu ást og fylgja hjarta þínu, jafnvel þegar það er erfitt.“
Nokkrir klöppuðu vandræðalega og aðrir kölluðu upp húrrahróp. Segir Casey að allir nema bræður Alex og tveir vina hans hafi mætt í veisluna og skemmt sér konunglega.