Í nýjasta þætti Kalda pottsins frá sviðinu í Gömlu Borg fer Bíbí Ísabella Ólafsdóttir miðill á kostum. Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur, lýsti Bíbí fyrir nokkru með eftirfarandi hætti: „Sterk, furðuleg manneskja sem er sambland af öllu því yndislegasta sem ein manneskja getur haft“ en ljóst er að það hefur ekki breyst og Bíbí jafn sterk, furðuleg og yndisleg í dag og hún var þá. Hún ræddi við Mumma um örlagasögu sína og hvernig skyggnigáfan hefur fylgt henni í gegnum lífið.
Meðal annars greindi Bíbí frá því að fyrir þó nokkrum árum síðan, þegar yngsti sonur hennar var rétt um þriggja ára gamall. Hafi þau hjónin ætlað að mála heima hjá sér eftir að börnin fóru í háttinn. Þarna hafi Bíbí staðið með málningarrúllu þegar hún heyrði allt í einu það sem hljómaði eins og glaðlegur fylleríissöngur. Hafi Bíbí haft orð á því við mann sinn að það væri nú bara ágætt að heyra að fólk væri lifandi, þó svo þessi væru líklega vellifandi. Svo hélt hún áfram að mála.
Þá kom maður hennar að henni, tók í öxl hennar og fylgdi henni að svefnherbergi yngsta sonarins. Þar var sá stutti, sem á þeim tíma hafði takmarkaðan orðaforða, steinsofandi en söng samt hástöfum Þórsmerkurljóð.
„Þá er það þessi peyji, hann situr í rúminu sínu steinsofandi og syngur, Troddu þér nú inn í tjaldið hjá mér… “
Þetta hafi verið furðulegt þar sem drengurinn var í fyrsta lagi sofandi, í öðru lagi kunni hann ekki lagið og í þriðja lagi hafði hann ekki orðaforðann til að syngja það. Skýringuna fékk svo Bíbí þegar hún leit til hliðar og sá þar afa sonar síns, sem var látinn, sem stóð þarna inni í herberginu og söng og skemmti sér við lagið. Þarna var því skýringin á fylleríssöngnum komin.
Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima allskonar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi. Þættina má nálgast hér.