„Glöggt er gests augað“ er einn af þeim málsháttum sem er hverju orði sannari. Íslendingar hafa mikinn áhuga á því hvernig erlendir ferðamenn, ekki síst heimsfrægir, upplifa land og þjóð en hvað með þá sem ákveða að flytjast hingað og setjast hér að.
Í Facebook-hópnum vinsæla Foreigners in Iceland varpaði einn meðlimur fram þeirri spurningu um helgina hvað aðfluttum Íslendingum líkaði minnst við að búa hér nánast við heimskautsbaug.
Áhugavert er að skoða svörin sem voru afar fjölbreytt. Óhætt er að fullyrða að tvö málefni hafi þó verið vinsælust, verðið og veðrið. Aðfluttum Íslendingum finnst húsnæði og matvörur kosta allt of mikið hérlendis. Líklega má fullyrða að bornir og barnfæddir Íslendingar séu fullkomlega sammála þeim skoðunum.
Það sem vekur þó eflaust athygli margra er að íslenska heilbrigðiskerfið fékk útreið meðal þeirra sem að tjáðu sig í þræðinum. „Mjög slæmt, ég og margir samstarfsmenn mínir hoppa frekar upp í flugvél til Póllands til að fá þjónustu frekar en að bíða í tvær vikur og fá svo þá niðurstöðu að þú eigir bara að bíða heima þar til að þetta lagast,“ sagði pólsk kona í þræðinum.
Löng bið eftir tíma hjá lækni og erfiðleikar við að fá úrlausn mála sinna í heilbrigðiskerfinu var eitthvað sem margir minntust á.
Þá nefndu margir spillingu hérlendis og frændhygli sem gerði aðfluttum Íslendingum erfitt fyrir. Einn rússneskur maður tjáði sig þó að sagði að það vandamál væri ekki stórt hérlendis miðað við upplifun hans frá heimalandinu. Hann væri ánægður með að enginn trylltur einræðisherra héldi hér um stjórnartaumanna og að hér væri ekki stríð.
Þá nefndi ein að að íslenskir karlmenn væru ekki nægilega rómantískir en önnur svaraði því til að það væri mikill kostur. Íslenskir karlmenn kæmu sér strax að efninu og væru ekki með neina leiki.
Önnur pólsk kona minntist á að henni þætti skrýtið að þurfa að nefna það en Íslendingar væru gjarnir á að prumpa á almannafæri eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það kynni hún ekki að meta.
Margir voru þó á því að á Íslandi væri dásamlegt að búa og að vandamálin væru ekki stórvægileg. Grænmetið í íslenskum verslunum væri þó óboðlegt oft á tíðum og þá benti einn á að hér væri algjör skortur á ætum pylsum.