Mick Jagger, söngvari Rolling Stones, hefur trúlofað sig kærustu sinni, Melanie Hamrick. Melanie, sem er 36 ára gömul, sást með veglegan hring á fingri sínum á dögunum og herma heimildir erlendra miðla að rokkstjarnan, sem er 79 ára að aldri, hafi farið á skeljarnar nýlega.
Parið kynntist árið 2014 og eiga saman soninn Deveraux sem fæddist árið 2017. Hann var fyrsta barn Melanie en áttunda barn söngvarans, að því er best er vitað.
Þetta mun vera í þriðja skiptið sem Mick Jagger trúlofast. Hann bað Biöncu Perez Mora Macias og þau giftu sig síðan í kjölfarið árið 1971 en hjónabandinu lauk sjö árum síðar. Þá tók Jagger saman við fyrirsætuna Jerry Hall, fór á skeljarnar og héldu þau síðan óformlegt brúðkaup á Bali árið 1990. Sambandinu lauk svo níu árum síðar og þá var brúðkaupið í Balí úrskurðað ógilt.