Óskarsverðlaunaleikarinn Kevin Spacey stendur nú í ströngu, en hann svarar nú fyrir meint kynferðisbrot fyrir dómstól í Bretlandi, en ákæruliðir í málinu eru tólf talsins. Kevin neitar sök í öllum liðum, en honum er meðal annars gert að sök að hafa nauðgað, áreitt og brotið gegn blygðunarsemi.
Ákæruvaldið hefur lýst Kevin sem „kynferðislegum kúgara“ sem hafi ánægju af því að láta aðra upplifa óþægindi og vanmátt. Segir ákæruvaldið að Kevin sé maður sem brýtur kynferðislega gegn öðrum mönnum. Saksóknarinn Christine Agnew KC sagði við dóminn:
„Kevin Spacey Fowler er leikari; mörg ykkar vitið það þegar. Hann er gífurlega vel þekktur leikari sem hefur unnið til fjölda verðlauna. Hann er líka, líkt og ákæruvaldið heldur fram, maður sem brýtur kynferðislega gegn öðrum mönnum. Maður sem virðir ekki persónuleg mörk eða rými, maður sem virðist hafa ánægju af því að láta aðra upplifa sig sem vanmáttuga og líða óþægilega, kynferðislegur kúgari.“
Heldur ákæruvaldið því fram að Kevin hafi unun af því er aðrir bregðast við af reiði þegar þeir kæra sig ekki um viðreynslu hans. Hans uppáhalds leið til að brjóta af sér, sé að grípa aðra menn í klofið. Brotaþolar í málinu eru fjórir talsins, en saksóknari segir að Kevin hafi ítrekað káfað og þuklað á þolendum sínum og neitt þá til að handleika hans eigin kynfæri. Síðan hafi hann nauðgað einum þeirra með því að framkvæma munnmök á honum á meðan hann svaf.
Einn þolandinn segir að hann hafi sagt Kevin að snerta sig aldrei aftur eftir að leikarinn greip þéttingsfast um klof hans. Við þessu hafi leikarinn bara hlegið og svo tekið fram að það kveikti bara meira í honum að þolanda sinn reiðast.
Meint brot munu hafa átt sér stað yfir rúman áratug, en á þeim tíma hafi Kevin búið í Bretlandi. Kevin sagðist, í yfirheyrslum hjá lögreglu, ekki kannast við suma brotaþolana og hann hefði aldrei káfað á þeim. Hann tók þó fram að það væri mögulegt, og í raun líklegt, að hann hefði óheppilega reynt við einhvern án þess að muna eftir því.
Saksóknari beindi þeim orðum til kviðdóms að blindast ekki af frægð Kevins, það væri undir þeim komið að ákveða hvort brotaþolar væru að segja satt eða ekki og í þessu máli væri ákæruvaldið að halda því fram að Kevin hafi einmitt nýtt sér frægðina til að fremja brot sín, hann hafi notað vald sitt og áhrif til að komast upp með kynferðisbrot.
Verjandi Kevin sagði kviðdómi að í máli þessu muni þau heyra smá sannleika, smá hálf-sannleika og líka grófar ýkjur og mikið af bölvuðum lygum.