Davíð Sigurgeirsson tónlistarmaður lenti í þeirri óheppilegri reynslu að lokast inni á endurvinnslustöð Sorpu og ekki komast ferða sinna.
Kristín Sif Björgvinsdóttir útvarpskona hringdi í Davíð í beinni í morgun í þættinum Ísland vaknar á K100 til að fá að heyra söguna.
Davíð hefur undanfarið verið að standsetja húsið sitt og hefur verið duglegur að deila frá ferlinu í Story á Instagram. Hann er því nokkuð tíður gestur á Sorpu þessa dagana en það vildi svo óheppilega til að hann varð næstum því næturgestur þar í gærkvöldi þegar hann lokaðist inni á einni endurvinnslustöð Sorpu.
„Þetta var frekar grillað móment,“ sagði hann um atvikið á K100.
„Ég var svolítið lengi [á Sorpu] og þegar ég sneri mér við þá sá ég að það var enginn á staðnum lengur,“ sagði hann við hlátrasköll Kristínar og Þrastar, sem var að leysa Þór Bæring af í morgun.
„Svo fór ég að leita að starfsmanni og það var enginn starfsmaður. Ég var bara einn þarna eftir.“
Davíð reyndi að hringja í þjónustunúmer Sorpu, en enginn svaraði þar sem þetta var utan þjónustutíma. Hann náði síðan í Öryggismiðstöðina, sem betur fer því síminn var að verða batteríslaus.
Um 40 mínútum seinna var honum bjargað en á meðan hann beið fékk hann símtal frá starfsmanni Sorpu. „Hún sagði: „Hæ, ég heiti Steina og hringi frá Sorpu“ og svo búmm, ég varð batteríslaus.“
Kristín og Þröstur sprungu úr hlátri og viðurkennir Davíð að hann hafi bara haft gaman af þessu.
Það er ennþá hægt að skoða myndböndin í Story á Instagram hjá Davíð.