„Í janúar ákvað ég að láta drauminn rætast og það kom aldrei hik hjá mér í þetta skipti. Ég leitaði mér aðstoðar og nýtti mér sambönd mín og loks í mars urðu Viðburðaþjónar til. Ég hef fengið ótrúlegar viðtökur og þetta hefur byrjað svo sannarlega vel, ég er í raun bara ennþá að læra og það er alls ekki sjálfsagt að geta unnið við það sem manni finnst skemmtilegt og fólkið sem ég hef kynnst og vinn með í þessum bransa er frábært,“ segir Valdís Ósk Ottesen, eigandi viðburðafyrirtækisins Viðburðaþjónar.
„Viðburðurinn þinn á að vera dýrmæt minning og upplifun. Það er ekkert verra en að sjá til dæmis þegar brúðhjón ná ekki að njóta í sínu brúðkaupi því þjónustan er ekki til staðar eða er léleg, og brúðhjónin eru orðin þjónar í sinum eigin viðburði, það er glatað. Viðburðaþjónar sjá um skipulag, stýringu og þjónustu í þínum viðburði að hluta eða öllu leyti, allt eftir þínum óskum, og gera hann þannig að dýrmætri minningu og upplifun.“
Móðir Valdísar Óskar, Elín Margrét Jóhannsdóttir, er framreiðslumaður með meistaragráðu og segir Valdís Ósk móður sína hafa komið sér inn í bransann. „Enda er mamma mín stærsta fyrirmynd í lífinu og bransanum. Mamma hefur unnið við þetta í mörg ár og höfum við unnið mikið saman og ég er mögulega með besta kennarann mér við hlið í þessum bransa,“ segir Valdís Ósk.
„Fyrir nokkrum árum fékk ég hugmynd um að stofna mitt eigið fyrirtæki sem tengdist þessu, skreyta, aðstoða fólk og leyfa fólki að njóta í sínum viðburðum. En alltaf fannst mér þetta voða fáránlegt og þetta starf væri bara eitthvað sem væri í útlöndum, eins og svona „Wedding planner, en aldrei fann ég rétta orðið fyrir starfið á íslensku og skaut hugmyndina því alltaf niður. Þangað til ég var farin að vinna mikið við að taka að mér viðburði og finna starfsfólk við viðburði, þá ákvað ég loksins að hafa trú á þessari hugmynd minni og lét vaða.“
Fráfall bróðurins mikið áfall
Valdís Ósk er fædd 1991 og verður 32 ára á árinu, hún er fædd og uppalin í Seljahverfinu í Breiðholti. Í dag er hún gift Sveini Andra og eiga þau þrjá syni: Alexander Helga, fæddur 2013, Þórhall Stefán, fæddur 2020 og Mikael Mána, fæddur 2022. Hundarnir Gucci og Perla tilheyra einnig fjölskyldunni. Áhugamálin eru hundarækt, hestar, ferðalög og viðburðahald.
„Ég byrjaði ung að vinna og þegar ég hugsa til baka hef ég alltaf unnið við störf sem tengjast þjónustu eins og til dæmis hjá Rúmfatalagernum, Íshestum og Krónunni, ég vann svo í Orkuveitu Reykjavíkur og fór þaðan á samning hjá Perlunni,“ segir Valdís Ósk, sem útskrifaðist sem framreiðslumaður frá Menntaskólanum í Kópavogi í desember 2016.
„Það tók mig smá tíma að klára námið þar sem ég átti elsta strákinn minn í janúar 2013 og svo missti ég bróðir minn Helga Rafn í nóvember 2013 sama ár og þá breyttist allt lífið. Helgi Rafn hafði barist við hjartveiki í tvö ár áður en hann lést.Ég var alltaf föst á því að klára námið, en vissi að ég þyrfti samt að taka það á mínum hraða, og með frábæru fólki og skólanum tókst það sem ég er ævinlega þakklát fyrir. Að fara í gegnum svona áfall í lífinu var alls ekki auðvelt, það varð allt erfiðara einhvern veginn.“
Aðspurð um hvort starfið sé ekki frekar ófjölskylduvænt hvað vinnutíma varðar svarar Valdís Ósk játandi. „Þetta er ekki fjölskylduvænn tími enda mikið um helgar- og kvöldvinnu, en við hjónin erum svakalega gott teymi og skipuleggjum okkur vel. Það er ein regla á heimilinu að sunnudagar eru fjölskyldudagur og frídagur, þá fá allir að koma með hugmyndir að samverustund og við gerum það sem við skipulögðum og endum góðan fjölskyldudag á góðum sunnudagsmat, stundum pylsum, en þá er það eitt af fáum skiptum sem ég fæ ekki að ráða. Mér finnst líka stundum bara voða næs að renna til tengdó í sunnudagsmat og fá dekur.
Vinnutíminn getur alveg tekið á ég viðurkenni það og tekið á alla þegar þessar tarnir koma en maðurinn minn og strákarnir mínir eru mitt helsta klappstýrulið og erum við dugleg að hvetja hvort annað áfram í vinnu og áhugamálum,“ segir Valdís Ósk.
„Ég er líka ekki ein á bak við Viðburðaþjóna, ég er með frábært starfsfólk sem aðstoðar mig í þessu, án þeirra væri fyrirtækið ekki til. Þau eru alveg mögnuð og dýrmætar perlur sem ég dýrka, öll svo jákvæð og við vinnum öll svo vel saman.“
Stærsti persónulegi viðburður sem Valdís Ósk skipulagði var brúðkaup hennar og Sveins Andra og þar þurfti að taka tillit til ólíkra óska parsins. „Þegar ég gifti mig þá tók ég þetta alla leið, glimmer og silfur, maðurinn minn er alls ekki þessi karakter svo við þurftum að mætast á miðri leið með marga hluti. En hann þekkir mig vel og bjóst alveg við mér í glimmerkjól með kórónu. Elsti strákurinn okkar labbaði inn kirkjugólfið á undan mér með skilti sem stóð á „pabbi of seint að hlaupa, hún er að koma,“ og ég var á eftir í glimmerkjól með kórónu, hann hafði alls ekki rangt fyrir sér,“ segir Valdís Ósk og hlær.
Skemmtilegast að enginn viðburður er eins
Viðburðaþjónar taka að sér alla viðburði; ferming, erfidrykkja, afmæli, brúðkaup, veisla í heimahúsi, árshátíð, fundir og ráðstefnur.
View this post on Instagram
„Það sem er svo skemmtilegt við starfið er að enginn viðburður er eins. Sumir vilja hafa þema og þá hafa þau einmitt hugsað eitthvað sem þau myndu vilja hafa og það er einmitt svo skemmtilegt því fólk bara verður smá hissa hvað er hægt að frammkvæma. Ég þarf alveg stundum að halda af mér því ég er týpan sem fer með hlutina alla leið og elska þegar ég fæ að ýkja og tvista upp á hlutina og fólk tekur vel í það,“ segir Valdís Ósk.
Fyrir viku sá Valdís Ósk og hennar fólk um brúðkaupsveislu tónlistarkonunnar Gretu Salóme og Elvars Þórs og segist Valdís Ósk ánægð með að hafa verið treyst fyrir svo persónulegum viðburði og voru brúðhjónin í skýjunum með daginn og þjónustuna. Segist Valdís Óska hafa fengið góð viðbrögð eftir að fréttir voru birtar af brúðkaupinu.
Greta Salóme og Elvar Þór gift – Sjáðu myndir frá stóra deginum
En gerir fólk sér almennt grein fyrir mikilvægi góðrar þjónustu þegar kemur að viðburði?
„Almennt má segja að fólk spáir ekki mikið í því hvað það skiptir miklu máli að vera með góða þjónustu í sínum viðburði, sumir spá ekkert í þessu, margir eru á síðasta snúningi með skipulag, en svo eru líka aðrir sem spá mikið í skipulaginu,“ segir Valdís Ósk.
„Ég sé mikið um það að fólk vill helst bara bóka 1-2 þjóna í 100 manna viðburð, en vinnan bak við góða þjónustu er ekki bara að standa á bar og afgreiða drykki. Það þarf að hugsa um að hafa allt vel skipulagt, sjá um að hreinsa diska, glös og rusl af borðum og halda þeim snyrtilegum, sjá um að fylla á glös gesta ef óskað er eftir því, sjá um almennt hreinlæti í salnum, barnum og jafnvel salernum, sjá um uppvaskið. Tveir þjónar anna engan veginn svona viðburði. Þess vegna bendi ég alltaf á að þumalputtareglan er einn þjónn á hverja 25 gesti, en geta verið fleiri eftir umfanginu. Fólk tekur mis vel í þennan fjölda starfsfólks þegar ég nefni hann, en ég hef alltaf fengið þakkir fyrir það eftir frá fólki, sem ég hef mælt með að bæta við þjóni. Margir segja að þau hafi alveg vanmetið þörfina á þjónum við sinn viðburð.“
Beðin um að segja frá einu eftirminnilegu atviki hlær Valdís Ósk og rifjar upp neyðarlegt atvik frá þjónastarfinu í Perlunni: „Eftir á hlæ ég alltaf að þessu, ég var að læra í Perlunni og var að bera humarsúpu á fimm manna borð hringborð. Ég var með fjórar súpur á bakka og eina í hægri hendi. Þegar ég halla mér með fyrstu súpuna að gestinum þá átta ég mig á að bakkinn hallast auðvitað með og þannig lak humarsúpa niður allt bakið á manninum. Hann var ennþá í jakkanum og varð greinilega ekkert var við þetta, þannig að ég kláraði bara að bera súpuna á borðið. Og forðaðist svo þetta borð það sem eftir var kvöldsins,“ segir Valdís Ósk.
Finna má Viðburðaþjóna á Facebook og Instagram, og heimasíða er væntanleg á næstu dögum.
View this post on Instagram