fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Karl Filippus Artúr Georg

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 6. maí 2023 08:30

Karl III/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag, klukkan 10 að íslenskum tíma, í Westminster Abbey í London hefst krýningarathöfn Karls III konungs Bretlands. Hann mun þá verða með formlegum hætti krýndur konungur Bretlands og fjórtán annarra ríkja.

Það lá augljóslega skýrt fyrir frá upphafi hver örlög Karls yrðu þegar hann kom í heiminn í Buckingham-höll, 14. nóvember 1948. Hann var elsti sonur Elísabetar krónprinsessu og ætlað að erfa krúnuna eftir hennar dag. Eins og kunnugt er tók Karl við krúnunni við andlát móður sinnar 8. september 2022.

Eilítið öðruvísi konungsefni

Karl, sem á enskri tungu ber nafnið Charles Philip Arthur George, hlaut að sumu leyti öðruvísi uppeldi en fyrri erfingjar krúnunnar. Hann var fyrstur þeirra til að ganga í skóla með öðrum nemendum. Hluta skólagöngu sinnar var hann nemandi við heimavistarskólann Gordonstoun í Skotlandi. Faðir hans, Filippus, gekk í sama skóla og var mjög áhugasamur um að Karl fylgdi í fótspor sín.

Skólavistin í Skotlandi var Karli ekki auðveld framan af. Karl var að sögn lagður í einelti í skólanum og undi vistinni almennt illa. Hann hefur þó farið misjöfnum orðum um Gordonstoun. Karl hefur sagt að skólinn hafi verið full harðneskjulegur en einnig látið þau orð falla að þar hafi sjálfstraust hans orðið styrkara í sessi.

Í þessari upplifun Karls frá Gordonstoun, sem var ólík upplifun föður hans, kristallast persónuleiki hans ágætlega. Honum var lýst sem viðkvæmum og tilfinningaríkum dreng. Sagt er að það hafi sett mark sitt á hann fram til dagsins í dag. Fram hefur komið víða að foreldrar hans veittu honum ekki mikla ástúð og hlýju í uppeldinu.

Samband Karls við föður sinn var stirt en Filippusi þótti nauðsynlegt að Karl, sem ríkisarfi, væri harður af sér og ekki óþarflega viðkvæmur.

Karl setti annað nýtt fordæmi fyrir breska ríkisarfa þegar hann var fyrstur þeirra til að ljúka háskólanámi. Hann lauk BA-gráðu frá Cambridge-háskóla árið 1970.

Á undan sinni samtíð

Þegar Karl komst á fullorðinsár gerði hann fleira sem aðgreindi hann frá fyrri ríkisörfum. Á áttunda áratug síðustu aldar fór hann  að ræða mikilvægi umhverfisverndar opinberlega. Hann hóf, á níunda áratugnum, lífræna ræktun og setti árið 1990 á markað sínar eigin lífrænu vörur.

Á þessum tíma fór Karl einnig í vaxandi mæli að gagnrýna nútíma byggingarstíla og mæla fyrir því að aukin áhersla yrði lögð á sjálfbærni í borgarskipulagi.

Þessi áhugamál hans þótti ýmsu fólki bera vott um sérvisku. Hann var ekki sá eini sem taldi t.d. sjálfbærni og lífræna ræktun mikilvæga en slík umræðuefni voru nokkuð á jaðri samfélagslegrar umræðu bæði í Bretlandi og öðrum vestrænum ríkjum. Á 21. öld hefur hins vegar vitund um m.a. mikilvægi umhverfisverndar og heilsusamlegrar matvælaframleiðslu breiðst út um allan heim.

Að þessu leyti má því líklega segja að Karl hafi verið á undan sinni samtíð.

Karl í garði sínum, 1986/Getty

Ekki óumdeildur

Karl hefur þó ekki eingöngu gert eitthvað lofsvert. Vel þekkt er sú gagnrýni sem hann hefur hlotið fyrir framkomu sína gagnvart fyrri eiginkonu sinni, Díönu.

Á síðastliðnu ári sættu góðgerðarsamtök á vegum Karls lögreglurannsókn vegna ásakana um að fyrrum framkvæmdastjóri þeirra, sem var lengi einn af ráðgjöfum Karls, hefði beitt sér fyrir að kaupsýslumaður frá Saudi-Arabíu fengi breskan ríkisborgararétt gegn framlagi til samtakanna. Rannsóknin stendur enn yfir.

Samkvæmt nýlegri könnun Yougov segjast 55 prósent Breta líka vel við Karl. Móðir Karls var vinsælli og dáðari og ljóst er að hann mun eiga nokkuð verk fyrir höndum við að auka vinsældir sínar meðal almennings.

Eitthvað hefur borið á mótmælum í Bretlandi í aðdraganda krýningarinnar og umræða hefur farið vaxandi í a.m.k sumum þeirra ríkja, utan Bretlands, sem heyra enn undir bresku krúnuna um að tímabært sé orðið að slíta sig frá henni. Það er því ekki ómögulegt að Karl muni sjá konungdæmi sitt minnka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gullni piparsveinninn með ólæknandi krabbamein

Gullni piparsveinninn með ólæknandi krabbamein
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Smári eldaði hamborgarhrygg úr glöðum grís

Gunnar Smári eldaði hamborgarhrygg úr glöðum grís
Fókus
Fyrir 3 dögum

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum