Spjallþáttastjórnandinn vinsæli, James Corden, hefur sagt skilið við The Late Late Show og ekki nóg með það heldur hefur hann sagt skilið við Bandaríkin og er að flytja aftur í heimahagana í Bretlandi. Corden sagði ástæðuna vera nokkuð einfalda, hann vilji að börnin sín nái að vera börn í Bretlandi í kringum stórfjölskyldu sína fremur en að verja allri æskunni í Bandaríkjunum. Eins langaði Corden að geta verið meira til staðar fyrir fjölskylduna, enda hefur hann haft nóg að gera undanfarin ár í The Late Late Show.
Nú er þó komin fram önnur, öllu neikvæðari, kenning um hvers vegna Corden er hættur í loftinu. Er ástæðan sögð sú að hann hafi verið að tapa gífurlegu fé á ári hverju, enda hafi framleiðsla þáttanna verið gífurlega kostnaðarsöm.
Þættirnir koma úr smiðju CBS sjónvarpsstöðvarinnar, en nú hefur komið á daginn að þættir Corden kostuðu stöðina allt að 2,8 milljarða á ári. Þættirnir hafi kostað sjónvarpsstöðina um 9 milljarða á ári en aðeins skilað um 6,2 milljörðum – eða minna – í tekjur.
„Þetta var bara ekki sjálfbært,“ hefur DailyMail eftir ónefndum framleiðanda sem tók fram að staðan hafi verið orðin sú að CBS hafði hreinlega ekki efni á Corden lengur. Talsmaður Corden hefur þó neitað að tjá sig um málið en heimildarmenn úr herbúðum hans segja að CBS hafi þó reynt að halda í spjallþáttastjórnandann og þáttinn hans.
Segir að Corden hafi alltaf verið góður í að koma sjálfum sér á framfæri, þá einkum í jákvæðu samhengi, því sé ekki furða að hann hafi í engu minnst á gífurlegt tap þáttanna. Corden hafi grætt á því að hann hafi verið nokkuð þekktur leikari þegar hann tók að sér þættina og því hafi tengslanet hans verið viðamikið og auðvelt fyrir hann að landa stórum og gífurlega þekktum gestum. Corden hefur þó ekki verið óumdeildur. Þekkt varð þegar spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel kom í þáttinn til hans og bað Corden að nefna nöfn minnst tveggja tökumanna sem vinna við þáttinn. Því gat Corden ekki svarað. Hann var eins fyrir nokkru sakaður um dónaskap á veitingastað og kryddpían Mel B hefur lýst honum sem mesta skíthæl sem hún hafi hitt.
En nú telur DailyMail ljóst að Corden hafi hreinlega verið of dýr fyrir sjónvarpið og líklega hafi einhver hjá CBS orðið sár yfir tapinu.