Segja má að ástralskt samfélag sé í losti eftir að tilkynnt var um andlát einnar þekktustu sjónvarpsstjörnu landsins í morgun. Matreiðslumeistarinn Jock Zonfrillo fannst látinn á hóteli í Melbourne klukkan tvö um nótt á áströlskum tíma. Dánarorsök liggur ekki fyrir en lögreglan hefur greint frá því að talið sé að ekkert saknæmt hafi átt sér stað.
Zonfrillo, sem var 46 ára gamall, hafði komið að fjölda matreiðsluþátta í áströlsku sjónvarpi en stjarna hans sprakk út við frumsýningu þátttanna MasterChef. Þættirnir slógu gjörsamlega í gegn í Ástralíu og gerðu það að verkum að nafn hans var á allra vörum. Stjörnukokkurinn Gordon Ramsey var einn þeirra sem kom að þáttunum og hann var snöggur til að senda samúðarkveðjur til aðstandenda Zonfrillo.
Saddened by the devastating news of Jock Zonfrillo’s passing. I truly enjoyed the time we spent together on MasterChef in Australia. Sending all my love to Lauren and the family in this difficult time Gx
— Gordon Ramsay (@GordonRamsay) May 1, 2023
Frumsýna átti nýja seríu af matreiðsluþáttunum vinsælu á næstu dögum og var síðasta færsla Zonfrillo á samfélagsmiðla einmitt að minna á hana. Þáttaröðin hefur nú verið sett á ís og óvíst er hvort að hún muni nokkru sinni líta dagsins ljós.
Jock var upphaflega frá Bretlandseyjum, nánar tiltekið Skotlandi, og átti erfiða æsku. Fimmtán ára gamall var hann, að eigin sögn, heimiluslaus heróínfíkill en fékk þá tækifæri til að vinna á veitingastað við uppvask sem reyndist vera guðsgjöf.
Hann fann þar ástríðu sína, vann sig upp í sjálft eldhúsið og flutti svo búferlum til Ástralíu þar sem hann lét til sín taka í veitingageiranum. Ferlið var þó ekki samfelldur dans á rósum því árið 2007 var Zonfrillo úrskurðaður gjaldþrota og lögsóttur af undirmanni sínum sem hélt því fram að hann hafi kveikt í sér í eldhúsinu fyrir að vinna of hægt.
En Zonfrillo lét það ekki stöðva sig og sló að lokum í gegn þegar hann opnaði veitingastaðinn Orana sem fleytti honum síðan áfram í ástralskt sjónvarp.
Zonfrillo lætur eftir sig eiginkonu, Lauren, og fjögur börn.