Markaðsmaðurinn Valgeir Magnússon, sem lengi gekk undir nafninu Valli Sport, lofar í hástert Ástráð Haraldsson, settan ríkissáttasemjara í deilu SA og Eflingar. Ástráður náði að höggva á hinn harða hnút í deilunni með nýrri miðlunartillögu sem borin verður undir atkvæði félagsmanna í báðum félögum.
Valgeir er þó ekki að hrósa sáttasemjaranum fyrir þetta heldur fyrir það hvernig hann hafi deilt heiðrinum af þessu afreki með öðrum. Vísar hann þar til stórskemmtilegrar ljósmyndar sem ljósmyndari Morgunblaðsins tók í kjölfar kynningarfundar um miðlunartillöguna, þar sem Ástráður smellti kossi á fréttamann Stöðvar, Heimir Má Pétursson, sem vakið hefur athygli fyrir afar skelegga og greinargóða umfjöllun um vinnudeiluna, og þótti mörgum sem Heimir væri kominn áleiðis í að sætta deiluaðila í umræðuþættinum Hringborðið fyrir skömmu.
Valgeir telur að með þessu tiltæki hafi Ástráður verið að deila heiðrinum af lausn kjaradeilunnar, í stað þess að eigna sér athyglina við þessi tímamót. Gefum Valgeiri orðið:
„Í stjórnun er sú týpa sem stækkar fólk í kringum sig og gefur fólki kredit fyrir sitt innlegg mun æskilegri en sú sem eignar sér heiðurinn og talar um sjálfa sig út í eitt. Persónulega hef ég margoft lent í þeim pytti að hefja setningar á „Ég….. “ eða segja sérstaklega frá mínum þætti í verkefnum og gleyma af gefa fólki heiðurinn sem það á skilið. Það er mikill lærdómur að leggja egóið til hliðar og átta sig á styrknum sem felst í því að gefa öðrum sviðsljósið og passa sig á að muna eftir þætti annarra í því að hlutir gangi vel. Því það er sjaldnast þannig að verk gangi vel vegna eins einstaklings. Yfirleitt er niðurstaðan góð vegna samspils og aðkomu margra einstaklinga. Þess vegna er mikilvægt að muna eftir þeim sem leggja lóð sín á vogarskálarnar. Þannig aukast líkurnar á því að aukin gæði skapist í framtíðinni. Það er fátt eins svekkjandi og að vita sinn þátt í verkefni og heyra svo einhvern tala opinberlega eða á fundi um verkefnið eins og hann eða hún hafi gert allt ein(n).“
Valgeir segist hafa verið illilega minntur á að hann væri á rangri leið fyrir nokkrum árum þegar hann var uppnefndur Valli Gort. Hafi þetta orðið til þess að hann varð meðvitaður um eigin sjálfhverfu og tók að vara sig á slíkum tilhneigingum í fari sínu. Valgeir segir að kossinn sem Ástráður smellti á fréttamanninn sýni hve stór einstaklingur Ástráður sé:
„Að sjá Ástráð Haraldsson, settan ríkissáttasemjara, kyssa Heimi Pétursson fréttamann fyrir hans innlegg í að sættir náðust í deilu Eflingar og SA er klárt merki um hversu stór einstaklingur Ástráður er. Vel gert.“