Grínistinn og spjallþáttastjórnandinn fyrrverandi lenti í hrottalegu slysi fyrir nokkru þar sem hann hlaut brunasár á andliti, höndum og handleggjum. Hann mætti til Kelly Clarkson í spjallþátt hennar og sýndi hversu vel sárin á andliti hans hafa gróið.
„Þetta er splunkunýtt andlit,“ sagði Jay í samtali við Kelly. „Þetta er ótrúlegt.“
Jay var að vinna við einn af fjölmörgu bílum sínum þegar hann fékk bensín yfir andlitið á sér og svo kviknaði í því.
Hann gerði þó grín að atvikinu og sagði: „Ég var að borða eldheitt Doritos og þegar ég beit í það þá kviknaði í andlitinu á mér.“
Hann sagði þó á alvarlegri nótunum að slysið hafi verið nokkuð alvarlegt og hafi hann hlotið þriðja stigs brunasár. Jay er þó ánægður með að ekki fór verr og hversu vel hann hefur náð sér, sérstaklega í andlitinu og gengur hann svo langt að segja að það sé jafnvel betra en áður og hann fái nú í annað sinn að teljast „nýtt andlit“ í grínheiminum.
„Þú gætir haldið að það væir rennilás hér eða eitthvað, en nei,“ sagði hann og benti á hökuna á sér.
Góður vinur Jay var á svæðinu þegar slysið átti sér stað og brást vinurinn, Dave Killackey, hárrétt við.
„Ég sagði við vin minn, ég sagði – Dave, ég er alelda. Og Dave segir – Okey. Og ég bæti þá við – Nei Dave. Það er kviknað í mér.“
Dave hafi svo gripið Jay, hoppað ofan á hann og kæft eldinn.
Jay þurfti í kjölfarið að verja 10 dögum á brunadeild sjúkrahúss í Los Angeles.