BAFTA verðlaunin voru haldin hátíðlega í 76. skiptið síðastliðið sunnudagskvöld. Þýska kvikmyndin Im Westen nichts Neues bar sigur úr býtum en myndin var tilnefnd til fjórtán verðlauna og vann til sjö, meðal annars fyrir bestu leikstjórn og sem besta myndin. Cate Blanchet var valin besta leikkonan og Austin Butler besti leikarinn.
Verðlaunahátíðin gekk ekki áfallalaust fyrir sig en þar áttu sér stað stór mistök þegar Carey Mulligan var kynnt sem besta leikkonan í aukahlutverki, þegar raunverulegur sigurvegari var Kerry Condon. Sem betur fer var útsendingu BBC seinkað um hálftíma þannig áhorfendur heima í stofu urðu ekki varir við klúðrið.
Carey Mulligan var tilnefnd fyrir leik sinn í kvikmyndinni She Said og Kerry Condon fyrir The Banshees of Inisherin.
Bandaríski leikarinn Troy Kotsur kynnti verðlaunin ásamt túlki. Hann var valinn besti leikarinn í aukahlutverki í fyrra fyrir leik sinn í CODA og varð um leið fyrsti heyrnarlausi leikarinn til að vinna til BAFTA verðlauna.
Túlkurinn kynnti óvart Mulligan sem sigurvegara við fagnaðarlæti áhorfenda í sal. Nokkrum sekúndum seinna sagði túlkurinn skyndilega: „Kerry Condon… Kerry Condon. Þetta er slæmt.“ Erlendir miðlar greina frá því að þetta hafi verið mjög vandræðaleg stund.
Það er ekki vitað á þessu stigi hvort Troy Kotsur hafi gert mistök eða túlkurinn en þar sem útsending BBC var 30 mínútum á eftir rauntíma var hægt að klippa það út, en það fór ekki framhjá áhorfendum heima í stofu að það væri eitthvað vandræðalegt í loftinu þegar Kerry Condon kom á svið til að taka á móti verðlaununum.
Í samtali við The Mirror sagði Condon um atvikið: „Þeir sögðu Carey Mulligan og ég var alveg: „Guð minn góður, hvað í fjandanum?“ En mér er sama, ég bara vann þetta. Ég er svo hissa, ég trúi ekki að ég hafi unnið. Ég mun horfa á þessi verðlaun sem eftir er ævi minnar.“
Til allrar hamingju var misskilningurinn leiðréttur áður en Mulligan fór á svið til að taka á móti verðlaununum. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem rangur sigurvegari er kynntur en margir muna eftir því þegar La La Land var kynnt sem besta myndin á Óskarsverðlaunum árið 2017.
Framleiðendur, leikarar og leikstjóri myndarinnar voru komin næstum tvær mínútur inn í þakkaræðuna þegar það kom í ljós að kvikmyndin Moonlight hafi verið raunverulegur sigurvegari.
Það sem gerðist var að Warren Beatty og Faye Dunaway, sem kynntu verðlaunaflokkinn, fengu vitlaust umslag. Þau fengu umslagið fyrir bestu leikkonuna í aðalhlutverki, sem Emma Stone hlaut fyrr um kvöldið fyrir leik sinn í La La Land.