fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

„Ég var bara orðinn alveg fastur í líkamanum og tárin láku og það var bara hringt beint í sjúkrabíl“

Fókus
Fimmtudaginn 16. febrúar 2023 14:00

Vilhjálmur Andri Einarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Andri Einarsson gjörbreytti lífi sínu með kælingu og öndun. Vilhjálmur, sem segir sögu sína í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segist hafa verið algjörlega kominn á botninn þegar hann náði loks að spyrna sér til baka.

„Það lenda allir í einhverju og fólk á alls konar áföll og erfiðleika á bakinu. Svo er alltaf spurningin hvað fólk gerir við það. Ég hafði orðið fyrir mænuskaða þegar ég var ungur og var kominn á stað þar sem ég var stanslaust verkjaður. Svo var ég orðinn þunglyndur og kvíðin og var líka búinn að bæta á mig 30 kílóum. Ég var bara að telja töflur til að láta ofan í mig og það var meira og minna það sem ég var að gera. Ég varð hægt og rólega verri og verri og í raun var ég bara aldrei í neinu jafnvægi. Svoleiðis ástand tekur rosalegan toll, að vera stanslaust að slökkva elda og reyna bara að vera í lagi. Ég var búinn að fara á það sem ég hélt að væri botninn nokkrum sinnum, kominn með sjálfsvígshugsanir og vildi bara enda þetta. Ég reyndi það meira að segja, en ég tók bara sem betur fer ekki nógu mikið af töflum,“ segir hann.

Taugakerfið tók í taumana

Vilhjálmur segir að ferlið hafi byrjað þegar taugakerfi hans tók hreinlega í taumana eftir að hann hafði kýlt inni líkamlegan og andlegan sársauka um árabil.

„Ég endaði upp á spítala eftir að ég hafði séð að ég var alltaf að gretta andlitið á mér og kominn með stöðuga kippi í líkamann. Það var búið að vera í gangi í heila viku, en ég vildi ekki tala um það og lokaði það bara inni. Svo er komið fólk í matarboð heim til okkar þegar ég fer inn í herbergi. Svo kemur þáverandi konan mín að mér þar sem ég var bara orðinn alveg fastur í líkamanum og tárin láku og það var bara hringt beint í sjúkrabíl. Ég man að þeir gátu ekki einu sinni losað mig þegar þeir komu af því að líkaminn var svo svakalega stífur og fastur. Svo byrja kippirnir aftur inni í sjúkrabílnum og svo var það ástand áfram inni á spítala í nokkra daga á eftir. Það vissi enginn hvað var að mér, þó að ég hafi flakkað á milli deilda inni á spítalanum. Ég var á endanum kallaður „kipparinn“ af fólkinu sem starfaði á spítalanum. Alltaf þegar það kom nýr starfsmaður þurfti að vara viðkomandi við að ég ætti það til að kippast mjög mikið.“

Varð fyrir slysi í æsku

Eftir að hafa verið 10 daga á spítalanum var Villhjálmur sendur á Grensásdeild, þar sem kom í ljós að hann var með skemmd í mænutaglinu eftir slys sem hann varð fyrir í æsku.

„Það tók frábært starfsfólk við mér á Grensás og ég var mjög þakklátur að komast þangað. En eftir tímann þar byrjuðu öll lyfin. Fyrst verkjalyf út af verkjunum, svo lyf út af taugaskaðanum, út af blöðrunni, síðan lyf við ADHD og kvíða. Lyf til að geta sofnað og lyf til að geta vaknað og svo framvegis. Þetta hjálpaði allt aðeins tímabundið, en á endanum var ég bara orðinn mjög skrýtinn og í raun vildi ég bara alls ekki lifa lengur,“ segir hann.

Ísmaðurinn

Það sem breytti öllu hjá Vilhjálmi var þegar hann kynntist hugmyndafræði Ísmannsins Wim Hof og fór að stunda kælingu á líkamanum og reglulegar öndunaræfingar til að hafa áhrif á taugakerfið.

„Ég byrjaði að horfa á myndbönd af honum fyrst og keypti mér 10 vikna námskeið þar sem var talað um kaldar sturtur og fleira. Ég var á þeim stað þar sem ég átti erfitt með að kveikja á sturtu, hvað þá meira en það. Öndunaræfingar hélt ég að væru bara fyrir skrýtið fólk í yoga-buxum og munka, en ég ákvað samt að gefa þessu séns. Það var eitthvað sem gerðist þegar ég byrjaði að fara í kuldann og ekki síst þegar ég byrjaði að taka öndunaræfingarnar. Vellíðanin sem ég fann gaf mér einhvern neista. Á sama tíma fór ég líka í Primal hjá Einari Carli og þeim sem eru þar og eitt leiddi af öðru. Það voru allir búnir að vera að reyna að gefa mér alls konar ráð, en það þýddi ekki neitt fyrr en þarna. Ég ákvað að henda öllum lyfjunum, sem var allt of bratt, þannig að ég þurfti að fara í gegnum 3 vikur af algjöru helvíti í að losna við þau og fara í gegnum fráhvörfin. En þarna varð ekki aftur snúið og batinn var byrjaður og kom hratt,“ segir hann.

Kuldi alla daga

Vilhjálmur Andri fór upp frá þessu í kuldann alla daga og ákvað að fara alla leiðþ

„Ég fann svo mikinn bata strax að ég fór bara „all in“ í þetta. Áhrifin á boðefnakerfið og það hvernig bólgurnar byrjuðu að fara í kuldanum gaf mér svo mikið að ég fór alla leið. Ég var í kuldanum á hverjum degi og gerði öndunaræfingar og þegar bólgurnar byrjuðu að fara og dópamínið að koma upp batnaði skapið og kvíðinn og þunglyndið fóru að lagast. Þetta gerðist í raun ótrúlega hratt. Á aðeins 3-4 vikum fór ég frá því að vilja ekki vera til yfir í að vilja vera til og lifa lífinu lifandi. Ég fór auðvitað mjög hart inn í þetta, af því að örvæntingin var orðin svo mikil, en þarna náði ég að snúa lífi mínu gjörsamlega við,“ segir hann.

Eftir að hafa farið til Póllands í þjálfun hjá Wim Hof fór Vilhjálmur sjálfur að starfa við að aðstoða fólk við kuldaþjálfun og öndun og það er nú aðalstarf hans.

„Lykilatriðið er að nota bæði öndunina og kuldann sem kennara. Spegla það sem er í gangi innra með manni, leyfa því að koma upp á yfirborðið og mæta því. Þú sigrar ekki kuldann á hnefanum, en þegar þú nærð að slaka fyrir alvöru á ofan í köldu vatni byrja ótrúlegir hlutir að gerast. Það að ná að stýra taugakerfinu inni í áreiti eins og kulda er hægt að yfirfæra á erfiðar aðstæður í daglegu lífi. Svo er öndunin í raun grunnurinn að öllu í kerfinu okkar. Öndunin okkar breytist við áreiti og það hefur áhrif á allt og hjá mörgum er öndunin bara meira og minna alltaf í ólagi. Með því að ná að stýra taugakerfinu betur getum við haft áhrif á allt í lífinu.”

Þáttinn með Vilhjálmi Andra og alla aðra Podcastþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á: https://solvitryggva.is

Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent er á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram