Ljóðabókin Urðarflétta eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur er sigurvegari í keppninni um fegurstu ástarjátninguna í útgefnum verkum ársins 2022.
Bókin var tilnefnd sem fegursta ástarjátningin frá móður til barns, en í raun hefði mátt kalla hana ástarjátningu til móðurhlutverksins sjálfs. Ljóðmælandi er móðir sem elskar börnin sín, en líka dóttir sem elskar formæður sínar. Þetta fléttast saman við ástina á hinni mestu móður, náttúrunni. Moldinni sem nærir og blómunum sem þar spretta. Því má með sanni segja að Urðarflétta sé risavaxin ástarjátning – og vel að Sparibollanum komin, segir um verðlaunabókina.
Bókaútgáfan Króníka og Sparibollinn – bókmenntaverðlaun standa að verðlaununum, sem er árviss viðurkenning til fegurstu ástarlýsingarinnar í íslenskum bókmenntum. Lýsingin má standa stök eða vera hluti af stærra verki. Hún má ná til andlegrar ástar og líkamlegrar. Ástar milli karla, kvenna, barna, dýra, ættingja, vina, skipa, flugvéla, fólksflutningabifreiða og svo framvegis.
Urðarflétta er önnur ljóðabók Ragnheiðar, sem er rithöfundur og sviðslistakona. Fyrsta ljóðabók hennar, Sítrónur og náttmyrkur, kom út haustið 2019. Ragnheiður Harpa er ein Svikaskálda og hefur ásamt þeim gefið út ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd, Ég er fagnaðarsöngur og Nú sker ég netin mín. Skáldsaga Svikaskálda, Olía, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2021.