Hún er gift NFL-stjörnunni Patrick Mahomes, sem er álitinn besti leikmaður deildarinnar. Hann spilar með Kansas City Chiefs, sem vann Ofurskálina á sunnudaginn síðastliðinn.
Brittany eyddi nokkrum mánuðum í Mosfellsbæ sumarið 2017 og spilaði með knattspyrnuliði Aftureldingar. Patrick var þá lítið þekktur en er í dag einn launahæsti og besti leikmaður NFL-deildarinnar. Hún er nú einn eigandi kvennaliðsins Kansas City Current.
Internetið elskar Patrick en hatar eiginkonu hans. BuzzFeed fór yfir málið.
Eftir sigurinn á sunnudaginn hljóp Brittany út á völl til að fagna með eiginmanni sínum. Hún birti myndband af því á Instagram og mátti heyra hana öskra: „Okkur tókst þetta!“ Í annarri færslu mátti sjá hana fagna með eiginmanninum og dóttur þeirra.
Það tók ekki langan tíma fyrir netverja að bregðast við á Twitter.
„Úff, við eigum eftir að þurfa að hlusta á Brittany Mahomes í marga mánuði núna, er það ekki?“ sagði einn netverji.
„83% þeirra sem hata Chiefs gera það vegna Brittany og það er skiljanlegt,“ sagði annar.
„Það er frábært að Chiefs vann, en heimurinn tapar því Brittany Mahomes mun núna aldrei halda kjafti. Hún er óþolandi,“ sagði netverji.
Brittany og Patrick hafa verið saman síðan í framhaldsskóla og eiga saman tvö börn. Þau giftust í fyrra.
Hún heldur sig að mestu úr sviðsljósinu þar til NFL-deildin byrjar. Þá byrjar hún að deila villt og galið færslum um lið eiginmannsins á samfélagsmiðlum og er í kjölfarið höfð að háði og spotti.
Myndbönd um Brittany hafa farið á dreifingu um til dæmis TikTok og Twitter. Í einu þeirra þykist önnur kona vera hún og aðspurð af hverju það hati svona margir Chiefs vegna hennar, svarar hún: „Þetta er frábær spurning. Það er vegna þess að ég er svo pirrandi.“
Það virðist enginn skortur vera á ljótum athugasemdum um rödd hennar, persónuleika, klæðnað og útlit, bæði frá konum og körlum.
BuzzFeed setur fram þá kenningu að ástæðan sé vegna þess að Brittany er ekki eins og hinar eiginkonur NFL-stjarnanna, sem sitja brosandi við hliðarlínuna og segja ekkert. Hún fagnar með látum þegar Chiefs vinna og kvartar jafn hátt þegar þeir tapa.
Fyrrverandi knattspyrnukonan er mjög virk á Instagram þegar Chiefs keppa, hún tístir stundum leiki í beinni, öskrar á dómarana og fagnar sigrum. Myndband þar sem hún opnaði kampavínsflösku og skvetti á áhorfendur fyrir neðan hana, í vetrarkulda, var harðlega gagnrýnt. Gagnrýnin varð svo heiftarleg og til að reyna að snúa almenningsáliti bjó hún til „Team Brittany“ boli og allur ágóði fór til góðgerðasamtaka sem berjast gegn einelti. Það féll ekki vel í kramið hjá netverjum sem gagnrýndu hana enn frekar.
Myndir af henni hafa orðið að jarmi (e. meme) en hún lætur það ekki á sig fá og heldur áfram að vera hún sjálf.
Is that Brittany Mahomes screaming in the background of this flag football game?? #ProBowlGames #ProBowl pic.twitter.com/u48rfDHxyN
— Tracy Cowley (@tcgoldrush) February 5, 2023