Yfirplöggari aldamótakynslóðarinnar Jón Gunnar Geirdal er gestur nýjasta þáttar af Einmitt hlaðvarpi Einars Bárðarsonar. Þeir félagar Jón Gunnar og Einar tala um plöggbransann af mikilli þekkingu um leið og þeir þræða slóðir nýrra ævintýra Jóns Gunnars í handritsgerð og framleiðslu fyrir sjónvarp þar sem Jón hefur verið að geta sér gott orð. Jón þekkir líka sorgina en hann missti Ölmu yngri systur sína fyrir rúmlega tveimur árum úr krabbameini. Missirinn markaði djúp spor í líf allrar fjölskyldu Jóns.
Ný þáttaröð um óstyrkan skólastjóra
Það ráku einhverjir upp stór augu þegar Laddi og Jón Gunnar leiddu saman hesta sína fyrir nokkrum árum og framleiddu ásamt fleirum þáttaröð sem fékk nafnið Jarðarförin mín. Þáttaröðin fjallar á tregafyndinn hátt um það sem erfiður vel miðaldra karl telur vera sínu síðustu daga. Frumlegt handrit og skemmtileg frásögn hitti íslenska áhorfendur vel og þáttaröðin sló í gegn. Nú er Jón ásamt fleirum að vinna að nýrri seríu sem snýst um taugaóstyrka skólastýru sem fellur fyrir nýja tónlistarkennaranum Sumarliða, en hægt er að lesa á milli línanna í samtali Einars og Jóns.
Aldamóta poppmaskína á teikniborðinu
Það hefur vakið mikla athygli og þá sérstaklega í tónlistarbransanum að Jón ásamt fleirum er með á teikniborðinu sjónvarpsseríu um hljómsveit sem slær í gegn um síðustu aldamót. Hljómsveitin er hugarburður framleiðendanna en sviðsmynd hennar er raunveruleikinn eða óraunveruleikinn í kringum aldamótin. Hin ímyndaða hljómsveit er að slá í gegn og hasla sér völl í samkeppni við landsþekktar hljómsveitir og í keppninni um frægð og frama. Einhvers konar sambland af Vaktarseríunum og Með allt á hreinu.
Henni fannst gott að standa í storminum
Alma, yngri systir Jóns, lést úr krabbameini fyrir rúmlega tveimur árum. Alma hafði tekist á við átröskun, búlemíu, fíknisjúkdóma, andleg veikindi og síðasta baráttan var krabbamein sem var hennar hinsti slagur. Hún tók oft skrítnar ákvarðanir að fjölskyldunni fannst, nánast stýrði inn í storminn og stóð þar dansandi eins og Jón orðar það. „Við vorum alla tíð mjög samrýmd og ég tók hlutverkið stóri bróðir mjög alvarlega. “
Við vildum bara meiri tíma með litlu systur
Barátta Ölmu síðustu mánuðina var erfið. „Ég var of mikið oft að pirra mig,“ segir Jón. „Við vorum ekki alltaf sammála systkinin. Hún reykti og drakk Coke alveg inn í hið endalausa.“
Jón talar um það hvernig það fór illa í hann en svo þegar hann horfði betur á stöðuna þá var það Alma sem var að ráðstafa sínum síðustu dögum. „En þetta var bara óöryggi í okkur fjölskyldunni og systkinunum. Við vildum bara meiri tíma með litlu systur.“