Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra bregður á leik í myndbandi sem Sjálfstæðisflokkurinn birti á Facebook-síðu sinni í dag.
„Það er nú eins gott að hafa allt með sér, maður á ekki sakna einhvers þegar maður er kominn af stað. Það er miður vetur og mér dettur í hug til dæmis, ég ætla ekki að láta mér verða kalt á tánum,“ segir Bjarni og nær sér í ullarsokka í fataskápinn heima hjá sér og inniskó.
Bjarni er þó ekki á leið til að vitja nýrra ævintýra með nesti og nýja skó eins og segir í ævintýrunum, heldur hefst hringferð þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins í dag. Fyrsta stopp er Grundartangi, Borgarnes og Snæfellsnes.
„Þóra, veistu hvar taskan er?,“ spyr Bjarni eiginkonu sína, Þóru Margréti Baldvinsdóttur, áður en hann heldur inn í geymslu og sækir hringferðartösku Sjálfstæðisflokksins. Bjarni segir töskuna hafa fylgt flokknum frá upphafi og eldri formenn og forystumenn flokksins ferðast með töskuna um allt land.