fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Heiðrún segir himin og haf á viðmóti lækna í dag og þegar hún var í yfirþyngd – „Það var búið að ákveða að ég væri letingi“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 10. febrúar 2023 13:28

Heiðrún Finnsdóttir. Mynd/Instagram

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þjálfarinn Heiðrún Finnsdóttir segir að það sé mikill munur að leita sér læknisaðstoðar í dag, nú þegar hún er talin vera grönn og í formi, en þegar hún var í yfirþyngd.

Heiðrún er tveggja barna móðir og bæði stundar og þjálfar CrossFit.

Fyrir tæpum áratug var Heiðrún í yfirþyngd og hún segir að það er allt annað að leita sér læknisaðstoðar í dag en þá. Hún segir að hún fær allt öðruvísi viðmót frá læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki og það sé raunverulega hlustað á vanda hennar og reynt að finna lausn á honum.

Heiðrún tekur það skýrt fram að hún getur aðeins talað út frá eigin reynslu og er að lýsa sinni upplifun af heilbrigðiskerfinu og hvernig það er að vera í yfirþyngd.

„Það er skemmtilegra að mæta í eftirlit í dag. Ég er 158 cm og var þyngst 110 kíló. Ég var rosalega feit og því fylgir ákveðin…“ segir Heiðrún og hikar aðeins en ákveður síðan að láta slag standa. „Ókei, ég ætla ekki að pæla í pólitískum rétttrúnaði heldur segja bara mína sögu. Þetta er bara mín reynsla.“

Allt annað viðmót

„Eitt af því fyrsta sem ég tek eftir í dag er allt öðruvísi viðmót læknisins. Það er komið betur fram við mig, samskipti eru miklu opnari og þægilegri. Það er einhvern veginn fasið, ég er miklu velkomnari inn á heilbrigðisstofnanir heldur en þegar ég var feit,“ segir Heiðrún.

„Svo er það tilgangur læknaheimsóknarinnar. Það er allt annað að fara til læknis núna og segja: „Mér er illt í öxlinni, mér er illt í úlnliðnum.“ Mér er oft illt í úlnliðnum og er mjög viðkvæm fyrir áreiti þar. Þegar ég var að leita mér hjálpar með það þegar ég var í yfirþyngd þá var hann aldrei skoðaður heldur fékk ég þau svör að ég þyrfti að létta mig. Verkurinn væri vegna álags vegna fitu,“ segir Heiðrún.

Hana verkjar enn reglulega í úlnliðinn – þrátt fyrir að vera léttari – en núna þegar hún fer til læknis er hún skoðuð, mynduð og fær beiðni til sjúkraþjálfara.

Neitað um getnaðarvörn

Heiðrún leitaði til kvensjúkdómalæknis til að fá getnaðarvörn fyrir um átta til níu árum. Hún gekk út frá lækninum með enga getnaðarvörn, ranga greiningu á PCOS og fyrirmæli um að grenna sig.

„Ég labbaði þarna inn, ég var feit og lágvaxin, og hann horfði á mig og sagði við mig: „Þú ert örugglega með PCOS“,“ segir Heiðrún og tekur það fram að hún hafi ekki verið með og er ekki með PCOS.

„Svo fórum við yfir söguna mína og ég labbaði rangeygð út úr tímanum hjá honum með engan lyfseðil fyrir getnaðarvörn. Því þá „myndi ég þyngjast meira.“ Og ég fékk bara tilvísun að fara að borða eftir lágum sykurstuðli og átti að létta mig. Að sjálfsögðu skipti ég um kvensjúkdómalækni.“

Í dag þegar hún fer til kvensjúkdómalæknis er hún spurð hvort hún sé á getnaðarvörn og þegar Heiðrún svarar neitandi er henni boðin pillan eða lykkjan.

„Þannig þegar ég var feit neitaði læknirinn að setja mig á getnaðarvörn því það væri hætta á því að ég myndi þyngjast meira. En núna er mér boðið hana án þess að spyrja um hana,“ segir hún.

Vildi gera breytingar

„En við skulum samt ekkert reyna að fela það eða gleyma því að lífsstílssjúkdómar eru til í alvörunni. Þetta er í alvörunni vandamál. Ég var greind með vefjagigt áður en öll önnur gigt var útilokuð. Ég fékk þar með fyrstu og held ég einu lífsstílssjúkdómsgreininguna. Það var ekkert annað skoðað. Í kjölfarið var ég sett í alls konar kassa. Ég var sett í sjúkraþjálfun og endurhæfingu og látin fara í „gönguskóla.“ Shit, hvað þetta var niðurlægjandi. Ég átti að læra að „labba upp á nýtt“ til að vernda hnén á mér. Það sýður á mér,“ segir hún.

Í endurhæfingunni langaði Heiðrúnu að gera lífsstílsbreytingar til lífstíðar. „Ég sagði sjúkraþjálfurum og læknum að mig langaði að læra að ganga á höndum en var sagt að vera með raunhæfar væntingar, ég væri of þung og of gömul og þetta væri ekki fyrir fólk eins og mig,“ segir Heiðrún sem hefur svo sannarlega sýnt að þeir höfðu rangt fyrir sér.

Heiðrún fer létt með það að ganga á höndum í dag.

„Þegar ég var feit þá kom ég alls staðar að lokuðum dyrum. Það var búið að ákveða að ég væri letingi sem væri aldrei að fara að gera einhverjar breytingar,“ segir hún.

„Málið er, það er eins og læknar og sjúkraþjálfarar hafi ekki trú á að feitt fólk geti verið með sjálfsaga og sjálfstjórn, að við séum bara með krónískt vandamál sem verður bara leyst með magaermi, sykursýkislyfjum eða stífri megrun.“

Orð hennar í dag hafa meira vægi

„Mín reynsla er sú að þegar ég var feit var ekki það sem ég sagði ekki jafn mikilvægt og það sem ég segi í dag. Það var ekki hlustað jafn mikið á mig og allt skrifað á offituna. Það er eins og það sé búið að ákveða að allt sem er að þér er af því að þú ert feitur,“ segir Heiðrún og bætir við að hún sé ekkert að ýkja þegar hún segir að viðmótið í dag sé allt annað.

„Þú ert svo sjúkdómsvæddur þegar þú ert feitur og mikið af heilbrigðisstarfsfólki er búið að ákveða að þú verður alltaf sjúklingur. Í dag þegar ég mæti til lækna þá er þetta ekkert vandamál. Það er enginn að segja mér að mér sé illt í úlnliðnum af því að ég er feit. Þegar ég mæti til lækna núna verð ég alltaf jafn hissa hversu velkomin ég er. Læknarnir eru tilbúnir að finna lausn á erindi mínu.“

Fylgstu með Heiðrúnu á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 13 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?