Sanna sagan á bak við eitt frægasta jarm eða meme á Internetinu hefur nú komið fram.
Um er að ræða mynd af ungum manni sem virðist vera að erfiða mikið og hefur vinsæla kenningin verið sú að maðurinn hafi verið að berjast við að halda inni prumpi þar sem hann sat við hliðina á huggulegri stúlku.
Nú er hið rétta komið í ljós. Maðurinn á myndinni hefur stigið fram. Michael McGee ræddi nýlega við BuzzFeed og útskýrði hvernig hann og vinur hans hafi verið þekktir í grunnskóla fyrir að vera hnyttnir. Það var vinur hans sem tók myndina frægu.
Vinur hans hafði tekið eftir því að Michael var með áberandi æð á enninu sem sást alltaf vel ef hann erfiðaði eða hló.
Þeir voru í algebru og þar var líka konan á myndinni. Amber, sem Michael var skotinn í. Vinur hans hafði þá vikið sér að honum og sagt: „Hey félagi, látu æðina þína sjást í smá stund og leyfðu mér að taka mynd.“
Michael varð við þessu, hélt niðri í sér andanum, spennti hálsinn og hausinn, allt svo æðin léti sjá sig. Michael segir að þetta hafi eflaust ekki verið sniðugt og líklega hafi súrefnisskorturinn drepið nokkrar heilasellur.
Amber rifjar upp að hún hafi litið á hann og furðað sig á athæfinu, sem og aðrir í bekknum. En fólk hafi þó haft gaman að og hlegið.
Síðan hafi vinurinn deilt myndinni á netinu og hún svo öðlast sitt eigið líf.
Nokkrum vikum síðar hafi Michael tekið eftir því að síminn hans hætti ekki að gefa frá sér hljóð. Hélt hann fyrst að það væri einhver bilun í gangi, en nei svo var ekki. Þetta voru allt ábendingar um að andlit hans væri núna orðið „trending“ á netinu.
„Á einni nóttu fór ég frá því að vera með 700 fylgjendur á Twitter í að hafa um 3 þúsund eða eitthvað þannig.“
Michael steig áður fram árið 2018 þar sem hann sagði í samtali við Unilad að hann vildi bara koma því á framfæri í eitt skiptið fyrir öll að hann hafi ekki verið með vindgang.
Önnur fyndin staðreynd sem hefur verið bent á er að í sama skóla og Michael gekk í á þessum tíma var kona sem líka varð að einu frægasta jarmi á netinu – Hún hefur verið kölluð oftengda kærastan, eða overly attached girlfriend.