„Þetta á eftir að koma sér mjög vel og gefur mér mikinn styrk til þess að klára þetta verkefni. Ég á ævilangan vin í honum Gísla og ykkur öllum fyrir þetta allt saman. Ég get ekki fundið réttu orðin núna,“ sagði Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir í viðtali við Skagafréttir í dag.
Gísli J Guðmundsson hárskeri setti af stað söfnun fyrir Helgu, en hún er í lyfjameðferð vegna krabbameins. Skagamenn tóku höndum saman og 2,1 milljón króna söfnuðust. Helga Ingibjörg hefur talað opinskátt um krabbameinið og er ein þeirra sem eru í auglýsingaherferð Krafts um þessar mundir, Kolluna upp fyrir okkur.
Gísli hét því að raka af sér hárið þegar söfnunin væri komin í 200 þúsund krónur og sá Helga Ingibjörg um að raka af honum hárið. Sigrún Ríkharðsdóttir og Ísólfur Haraldsson aðstoðuðu Gísla við kynningu á söfnunni. Sigrún hét því að raka af sér hárið þegar 1 milljón króna markinu væri náð og sá Carmen Llorens, samstarfsfélagi Gísla, um það.
„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Þetta eru allt saman einstakir karakterar sem hafa staðið að þessu, Gísli, Ísólfur og Sigrún. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þetta. Samt sem áður er ég lítil í mér en samt svo stór þegar ég finna að allt samfélagið stendur saman í þessu með mér,“ segir Helga Ingibjörg.
Þeir sem vilja leggja Helgu lið geta lagt inn á neðangreindan reikning sem er á nafni Gísla:
Reikningsnúmer: 0186 – 05 – 070010
Kennitala: 150971 – 5519