Maríanna er eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur og er einn þekktasti förðunarfræðingur landsins. Hún hlaut sérstök verðlaun úr hendi forseta Íslands fyrir framúrskarandi árangur í námi þegar hún útskrifaðist með sveinspróf í snyrtifræði í fyrra.
Hún og Guðmundur eru stödd í Dúbaí þessa dagana til að fagna afmæli hennar.
Hún varð fjörutíu ára á þriðjudaginn og segist aldrei hafa liðið betur.
DV sló þráðinn til Maríönnu sem átti stórkostlegan afmælisdag í hæstu byggingu heims, Burj Khalifa.
„Þetta var algjörlega óraunverulegt að vera í hæstu byggingu í heimi að fagna. Við fórum svo á veitingastað í sama húsi og horfðum á gosbrunnasýninguna,“ segir hún.
„Þetta er eins og tölvugerð veröld. Við vorum til dæmis á skíðum í gær.“
Janúar er kaldasti mánuður Dúbaí en meðalhitastig er í kringum 20 gráður. Skíðasvæðið er því inni og yfir 22 þúsund fermetrar að stærð.
„Þetta er allt svo óraunverulegt, engan veginn það sem maður er vanur heima,“ segir hún.
Maríanna hefur verið dugleg að birta myndir frá ferðalaginu á Instagram.