fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Heil sjónvarpsþáttasería gerð til að leggja einn mann í einelti – Hinir ósmekklegu raunveruleikaþættir um Jóa lúða

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Miðvikudaginn 18. janúar 2023 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær var grein í DV um hinn hræðilega hælistúrisma sem var vinsæll allt fram til loka 19. aldar. Fólk fékk að ganga upp geðveikrahæli, eins og þau þá voru kölluð, og fylgjast með sjúklingum líkt og um dýragarða væri að ræða.

Sjá: Líkt og ferð í dýragarð – Geðveikrahæli fyrr á öldum voru opin almenningi til skemmtunar

Slík hegðun er okkur óskiljanleg í dag.

En það þarf ekki að fara tugir eða hundruðir ára aftur í tímann til að finna skemmtiefni sem gekk út á niðurlægingu og við eigum bágt með að trúa að hafi þótt fullkomlega eðlilegt á sínum tíma. 

Við þurfum til dæmis ekki að fara lengra en til ársins 2003.

Jói lúði

Raunveruleikaþættir höfðu hafist um áratugi fyrr og voru gríðarlega vinsælir. Þeir voru missmekklegir, svo vægt sé til orða tekið, en með þeim ósmekklegustu var vafalaust The Joe Schmo Show.

Joe Schmo, sem gróflega mætti þýða sem Jói lúði, gekk út á að finna trúgjarnan  einstakling sem hafði ekki komist tiltakanlega langt í efnishyggjukapphlaupinu til að taka þátt í raunveruleikaþætti ásamt níu öðrum. 

Þátturinn var í takt við aðra slíka sem enn eru gerðir; hópurinn átti að búa saman í stóru húsi, mynda bandalög, taka þátt í keppnum og annað slíkt og kjósa svo reglulega um hvern ætti að senda heim næst. 

Keppendur þáttarins, eða reyndar leikarar, ásamt Matt, lengst til vinstri.

Hinn fullkomni keppandi

En það var ekki um alvöru raunveruleikaþátt að ræða. Níu keppendanna voru í raun leikarar og tilgangur þáttanna var að skemmta áhorfendum með því að koma Joe Schmo í eins vandræðalegar aðstæður og unnt væri, með aðstoð leikaranna níu. 

Í raun gekk öll þáttaröðin út á að leggja eina manneskju í einelti, áhorfendum til skemmtunar.

Og hver gat verið betri í hlutverkið en Matt Kennedy Gould?

Matt hafði hætt í lögfræðinámi, bjó í kjallaranum hjá foreldrum sínum og starfaði sem pizzasendill. Matt var opinn og vinalegur en oft vandræðalegur og átti það til að lesa ekki í aðstæður og segja því og gera kjánalega hluti.

Matt var fullkominn.

Þættirnir minna óneitanlega á kvikmyndina Truman Show.

Allt eftir handriti

Fljótlega fór leikurunum að þykja afar vænt um Matt. Hann var tillitssamur, vildi öllum hið besta, sýndi öllum virðingu og var einstaklega kurteis. Í fyrri hluta þáttaraðarinnar var allt gert til að láta Matt gera sig að fífli með því að koma honum í vandræðalegar aðstæður. 

Það var snemma augljóst að Matt var ekki að gera sér miklar gloríur um að vinna, honum fannst lífsreynslan skemmtileg en mesta ánægju hafði hann af að kynnast hinum keppendunum og eignast nýja vini.

Hann reyndi samt, gerði plön, myndaði bandalög og lagði sig allan fram í áskorunum.

En auðvitað gengu engar áætlanir upp þar sem þátturinn var handrit. 

Gamanleikkona Kirsten Wiig er heimsþekkt í dag. En árið 2003 var hún ein keppenda, alls óþekkt.

Það sem enginn átti von á

En smám saman fóru hlutirnir að breytast. Matt var svo elskulegur og mikill vinur vina sinna að leikurunum fór að líða sífellt verr með að fíflast í honum.

Sum hótuðu jafnvel að hætta ef þau þyrftu að halda áfram að vera andstyggileg við Matt.

En það sem verulega breytti öllu var að áhorfendur hættu að hafa gaman af að sjá Matt niðurlægðan og fóru að standa með honum. 

Það var ekki annað hægt en að líka við Matt.

Það var eitthvað sem framleiðendurnir höfðu aldrei átt von á og var því fyrra handrit rifið og byrjað að skrifa í hraði upp á nýtt. Og ekki lengur með það að leiðarljósi að gera Matt að fífli, heldur að láta honum líða vel og voru áskoranir voru til dæmis sérsniðnar að hans styrkleikum. 

Þátturinn stóð í 7 vikur. Matt var ekki látinn vinna en í lokaviðtalinu sagðist hann vera alsæll með lífsreynsluna en fyrst og fremst alla nýju vini sína.

Matt í lokaþættinum, loksins sagður sannleikurinn.

Niðurlæging breyttist í sigur

Að viðtalinu loknu var honum fylgt inn í herbergi þar sem allir leikararnir níu biðu hans og Matt sagt sannleikann. Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að þar yrði Matt hafður að háði og spotti fyrir trúgirnina, en svo var ekki og tóku allir á móti honum með standandi lófaklappi.

Það sem átti að vera Matt mesta niðurlæging varð að fögnuði og þakklæti fyrir samveruna auk þess sem hann fékk verðlaunaféð, 100 þúsund dollara. 

Matt tók hrekknum vel en í viðtali fimm árum síðar viðurkenndi hann þó enn vera sár og reiður út í sjálfan sig fyrir trúgirnina. Í viðtali 2013 sagðist hann aftur á móti vera búinn að komast yfir neikvæðar tilfinningar vegna þáttanna og að það væri reyndar gaman að vera enn þekktur sem Joe Schmo.

Það var gerð önnur sería en hún hafði ekki yfir sama sjarmanum að búa og því hætt með þættina. Reynt var að endurgera Joe Schmo seríu árið 2013 en það mistókst herfilega. Þættirnir eru flestum gleymdir í dag. 

Matt Kennedy Gould er í dag giftur og þriggja barna faðir. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram