Viku eftir að hún kom fram í Silfrinu á RÚV í lok árs 2022 var hún lögð inn á Kleppspítala, geðendurhæfingardeild Landspítalans, þar sem hún dvaldi í átta vikur.
Hún segir að hún sé að stíga fram með sína sögu því kjaftasögur gengu um hana þegar hún var í endurhæfingu og henni finnst mikilvægt að segja sína sögu á sínum forsendum.
Lenya hefur glímt við átröskun í áratug. Hún þekkir einkenni vannæringar og hefur verið í meðferðum við átröskun síðan árið 2017.
„Það er þetta minnisleysi og skapsveiflur. Maður hugsar alltaf: Þetta er ekki að fara að koma fyrir mig. Ég er ósigrandi, ég er ekkert eins og aðrir. En síðan bara gerist þetta,“ segir hún í þættinum.
Lenya tók ekki eftir hversu veik hún var orðin fyrr en líkaminn byrjaði að slökkva á sér. Á tímabili var hún mikið hjá læknum og það var alltaf eitthvað nýtt að henni þegar hún vaknaði á morgnanna. Hún var með sár í munni, var með hósta og hálsbólgu og fékk sýkingu í gamalt sár.
„Ég fann bara fyrir því að ég var að deyja. Það var alveg smá högg að átta sig á því að annað hvort þyrfti ég að gera eitthvað í mínum málum eða deyja,“ segir hún og bætir við að á þessum tíma hafi hún verið í svo mikilli undirþyngd að hún hafi átt erfitt með að hugsa.
„Ég man að ég ætlaði bara að leyfa mér að deyja úr þessu. Ég hugsaði: „Æ, þetta er bara komið hjá mér. Þetta er búið. Minn tími er kominn, 22 ára.“ Ég var byrjuð að kveðja fólkið sem var í kringum mig, byrjuð að kveðja fjölskyldu mína og vini.“
Fyrir innlögnina á Kleppspítala var Lenya mikið heima hjá mömmu sinni ásamt bræðrum sínum. Hún fór alltaf grátandi heim eftir heimsóknirnar. „Því ég vissi ekki hvort ég væri að fara að vakna aftur næsta dag, ástandið var það slæmt.“
Lenya hvetur fólk til að leita sér hjálpar ef það er að glíma við átröskun. „Það eru svo mikil forréttindi að vera á lífi, sérstaklega eftir að ég var búin að velja að deyja úr þessum sjúkdómi […] Mig langar að ítreka mikilvægi þess að leita sér hjálpar þegar fólk er að glíma við einhvers konar geðræn vandamál. Ef einhver er að glíma við átröskun og hefur bara verið að gera það í nokkra mánuði, þá er bara fínt að fara upp á heilsugæslu núna og fá hjálp frá átröskunarteyminu í stað þess að bíða í tíu ár og enda svo á Kleppi. Það vill enginn vera á þessum stað,“ segir hún.
Í þættinum ræðir Lenya nánar um sjúkdóminn, bataferlið og endurhæfinguna. Þáttinn má nálgast á fréttavef RÚV.