Bella er fyrrverandi barnastjarna og lék í mörgum þáttum og myndum á Disney. Árið 2019 prófaði hún sig áfram í leikstjórn og leikstýrði klámmynd fyrir PornHub. Árið 2020 stofnaði hún OnlyFans-síðu.
Í hlaðvarpinu High Low í umsjón fyrirsætunnar Emily Ratajkwowski segir Bella frá því þegar hún var næstum látin fara frá sjónvarpsstöðinni.
„Ég var næstum rekin frá Disney því ég var fjórtán ára og var í bikiníi á ströndinni,“ sagði Bella.
„Stílistinn sem ég var með setti þessa keðju á mig, svona skraut keðju? Ég veit ekki! Mér er alveg sama. En það var aðdáandi sem tók mynd af mér á ströndinni og ég var næstum því rekin. Þetta var í öllum fjölmiðlum, og yfirskriftin var: „Hvernig vogar þessi litla stelpa sér að gera þetta. Þetta er ógeðslegt.““
Bella lék í þáttunum Shake It Up ásamt Zendayu á Disney. Þættirnir hófu göngu sína árið 2010, þegar hún var aðeins 13 ára gömul, og síðasti þátturinn fór í loftið árið 2013.
Leikkonan, sem er í dag 25 ára, segir að í kjölfarið hafi Disney verið „undir pressu að reka mig, en augljóslega ráku þau mig ekki.“
„Þau hjá Disney sögðu: „Hey, við erum að fá mikinn skít út af þessu. Allir eru að fá mikinn skít því þú varst í bikiníi á ströndinni, þú þarft að passa þig að vera næst í strákastuttbuxum og víðum stuttermabol þegar þú ferð á ströndina.“