Fólk er æði misjafnt þegar kemur að meðhöndlun sinni á tölvupósti. Sumir lesa öll skeyti skilmerkilega, svara því sem þörf er að svara, eyða því út sem að þeir hafa ekki áhuga á og leyfa skeytum að vera áfram merkt ólesin ef ætlunin er að muna eftir þeim síðar. Aðrir gera einfaldlega ekki neitt af þessu, nema auðvitað að bregðast við mikilvægustu skeytunum.
Að öllum líkindum er þó fólkið í fyrri hópnum ekki til og þar með tilheyrum við öll seinni hópnum.
Þórður Snær Júlíusson, ritstóri Kjarnans, er að minnsta kosti kyrfilega í seinni hópnum. Hann deildi mynd af skjámynd tölvupóstforritsins sem hann notar og þar sést að hans bíða 89.500 ólesnir tölvupóstar.
Ljóst er að Þórður Snær hefur ekki miklar áhyggjur af stöðu mála og spyr: „Eyða eða sýna metnað og nà 100 þúsund?“. Miðað við viðbrögðin vilja flestir sjá 100 þúsund-múrinn rofinn en aðrir upplifa augljóslega talsverðan kvíða við að sjá þennan fjölda af ólesnum tölvupóstum.
Eyða eða sýna metnað og nà 100 þúsund? pic.twitter.com/hZz1XOHTt8
— Þórður Snær Júlíusson (@thordursnaer) December 2, 2022