fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Þegar krakkarnir héngu á Hallærisplaninu, bjórlíki var selt og Rás 2 þótti ofursvöl – Molar frá lummulegasta tíma Íslandssögunnar

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 24. september 2022 09:00

Bjórlíki blandað á Gauki á Stöng. Um var að ræða ódrekkandi andskota.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brátt styttist í að síðasta kynslóðin, sem tókst svona heilt yfir bærilega að komast til vits og ára án internets, sigli inn í eftirlaunaárin.

Fáar kynslóðir hafa upplifað jafn miklar þjóðfélagslegar breytingar og þessi aldurshópur.  Né jafn lummulega tíma. 

Þetta er fólkið sem ólst upp án farsíma, Playstation og Netflix. Þess í stað var Ríkissjónvarpið þeirra eina sjónvarpsefni eftir lokun Kanasjónvarpsins, en þó ekki í júlímánuði þegar sjónvarpsglápi var gefið frí allt til 1983. Sama ár bættist Rás 2 við gömlu gufuna, ungmennum þjóðarinnar til mikillar gleði, enda miðuð að yngri kynslóðinni.

Þótti Rás 2 ofboðslega töff í alla staði. 

Vinsælustu lögin voru spiluð á hinni ofursvölu Rás 2.

Áður hafði svo að segja eina efnið í útvarpi, ætlað unglingum, verið hinn mæti þáttur ,,Lög unga fólksins”. Þar voru lesin upp bréf frá ungmennum sem aðallega innihéldu stuðkveðjur til vinanna og illa dulin skilaboð til hvers þess sem viðkomandi var skotin í þá stundina. Að lestri loknum var óskalag hins heppna bréfritara spilað en vinsældir þáttarins voru slíkar að ekki komust öll bréf að.  

Sjónvarpið og videóleigurnar

Sjónvarp var aðeins sent út sex daga vikunnar en á fimmtudögum var slökkt á upptökum allt til 1987. Skyldi þá stundað félagsstarf og notið samveru með fjölskyldu.

Raunveruleg ástæða sjónvarpsleysis var þó blankheit Ríkissjónvarpssins frekar en tilitsemi við karlakóra og kvenfélög eða brennandi löngun stjórnmálamanna til að styðja við fjölskyldbönd landsmanna. 

Videoleigurnar sálugu komu því eins og guðsblessun, spruttu þær upp á hverju götuhorni og voru á tímabili eins og mý á mykjuskán um borg og bæ. Ekki var til það krummaskuð sem ekki státaði af að minnsta kosti einni leigu.

Og skyldi engan furða eins og sjá má af dagskrárliðum þessa föstudags- og laugardagskvölda árið 1980 sem valin voru af handahófi. 

 

 

Hallærisplanið

Það var órói í ungu kynslóðinni og ekkert endurspeglaði þann kláða betur en Hallærisplanið sáluga þar sem nú er að finna Ingólfstorg. Var þar um að ræða einskonar félagsmiðstöð unglinga þar sem allt að fjögur þúsund ungmenni komu saman með tilheyrandi látum. Í upprifjun DV af Hallærisplaninu frá 2004 segir: 

„Unglingar stóðu fyrir hefðbundinni uppreisn gegn heimskum heimi hinna fullorðnu, með hefðbundnum aðferðum; drykkju, formælingum, léttum skemmdarverkum og þvíumlíku. Sem sagt hefðbundin og árviss uppreisn unga fólksins. Er fullyrt að þegar mest stóð á hafi unglingar vaðið yfir Grjótaþorpið, gert „þarfir sínar hvar sem var“ og „eðlað sig fyrir allra augum“.“

Bjórlíkið

Engir voru túristarnir né hótelin, veitingastaði mátti telja á fingri annarra handar svo og skemmtistaði sem flestir voru utan við miðbæinn á þessum árum. Krár og bari var svo til hvergi að finna áður en bjórinn var leyfður árið 1989.

Þó hófu að spretta upp ,,ölstofur” árið 1983 sem sérhæfðu sig í þeim ógeðfellda drykk ,,bjórlíki” sem oftast var brennsi eða vodka blandaður pilsner í veikri von um að sullið minnti á bjór.

Sem það gerði ekki. Aldrei. 

Bjórlíki blandað á Gauki á Stöng. Um var að ræða ódrekkandi andskota.

Vegna kvartana yfir hinni nýju kráarmenningu, sóðaskap og illri umgengni í kringum krárnar, sem einkum var kennd drykknum, ákvað dómsmálaráðherra að banna sölu hans 1985.

Þess má til gamans geta að í árslok 1980 voru 18 staðir í Reykjavík með vínveitingaleyfi. Þeir eru í nánd við 500 í dag. 

Neyðarástand við Tónabæ

Í grein eftir Þuríði J. Árnadóttur sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í febrúar árið 1979 segir að Hallærisplanið sé dæmi um félagslegt fyrirbæri sem verið til, að því virðist sem almennum borgurum og stjórnvöldum að óvörum.

Frá Hallærisplaninu.

Í greininni segir Þuríður að ungmenni hafi byrjaði að hasla sér völl i í gamla miðbænum við lokun samkomuhússins Tónabæjar þar sem ungmennunum höfðu áður hafði verið boðið upp á tómstundaiðju og dansleiki. Tónabæ var þó lokað sökum enda hafði myndast neyðarástand í hverfinu sökum ölvunarástands unglinga utan við samkomuhúsið enda áfengisneysla með öllu bönnuð þar innan dyra. Færðu ungmennin sig þá niður í bæ.

Í greininni segir Þuríður ennfremur: 

,,Þaðan tóku að berast tíðindi af sama toga og gerst höfðu við Tónabæ: ofurölvun unglinga allt niður í 10-12 ára aldur og upp að tvítugur og þar yfir; rúðurbrotin frá Tónabæ færðust á Hallærisplanið ásamt óeirðum og árásum, jafnel löggæslumenn máttu þakka sínum sæla að sleppa lifandi úr þeirri ljónagryfju sem þarna lýst var yfir almenningi í fjölmiðlum. “

Aðeins þeir svölustu á Planinu mættu með svona græju.

Eins og fyrr segir er greinin skrifuð árið 1979 og segir Þuríður að dregið hafi úr æsifregnum fjölmiðla af vandamálum Hallærisplansins og virðist svo sem unga fólkið hafi ,,samið að minnsta kosti tímabundinn frið við lög og reglur, sem hinir eldri borgarar hafa sett málefnu yngri kynslóðarinnar.” 

Misræmi í menningarþróun

Þuríður lét ekki þar við sitja og heimsótti Planið sjálf og tók unglingana tali. Sögðust þeir flestir mæta á Hallærisplanið þar sem ekkert annað væri í boði og þau ekki til í að hanga heima og horfa á sjónvarpið. Umfjöllun Þuríðar um krakkana og kynni sín af þeim var mun jákvæðari en almennt var að finna í dagblöðum þessa tíma. 

Þuríður lauk sinni grein á að segja að best væri að skýra tilburð Hallærisplansins sem eitt af mörgum dæmum um augljóst misræmi, sem átt hefði sér stað í menningarþróun íslensks þjóðfélags á síðustu áratugum.

,,Í þessu tilfelli er, að mínu áliti, ekki við unglingana, sem safnast saman á Hallærisplaninu, að sakast, heldur hina eldri, ráðandi kynslíð sem virðist loka augum fyrir þeirri staðreynd að breyttir samfélagshættir hennar hljóta að leita til samsvarandi breytinga hjá yngri kynslóðinni á hverju tíma,” skrifaði Þuríður. 

Rúnturinn endaði á Hallærisplaninu.

Afurð íslensks yfirvinnusamfélags

Skoðanir voru skiptar á tilurð Hallærisplansins og vildi blað Sambands íslenskra sósíalista, Neisti, til að mynda rekja það til íslensks yfirvinnusamfélags með tilheyrandi stressi og þreytu sem byði ekki upp á góða uppeldismöguleika.

,,Þetta býður vandræðaunglingum heim, hvorki meira né minna. Hallærisplanið er fyrst og fremst enn ein opinberunin á vanköntum íslenska samfélagsins.” 

Í könnun sem Útideildin, sem rekin var af Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, gerði árið 1978 kom í ljós að um 2000 unglingar höfðu lengri eða skemmri viðveru á Hallærisplaninu milli klukkan 23:00 og 03:00 föstudags- og laugardagskvöld. 46,8% komu úr nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og 87,3% var á aldrinum 14 til 18 ára. 

Við þetta má bæta að í niðurstöðum unglingaþings sem haldið var í Kópavogi brunnu strætisvagnasamgöngur við Hallærisplanið mest á ungmennum þar í bæ. Reyndar sýndi hönnun könnun Útideildar frá 1982 að hlutfallslega voru Kópavogsbúar elskastir að Hallærisplaninu. 

Lögregla fylgdist vel með ,,vandræðaunglingunum“ sem voru af mörgum talin á leið í glötun. Svo skelegg var löggan að á þessari mynd eru þeir fjórir með ungum pilti. Engar kröfur um aðhald í löggæslu þarna.

Skilgetið afkvæmi andskotans varð sjálfdautt

Hallærisplanið þótti af mörgum lítið annað en skilgetið afkvæmi andskotans sem morgunljóst væri að leiða myndi æsku þjóðarinnar lóðrétt til glötunar.

En svo fór þó ekki og urðu langflestir unglinganna á Hallærisplaninu hinir mætustu borgarar. Ekki þurfti að grípa til neinna af þeim fjölda aðgerða sem stungið hafði verið upp á til að leysa þetta ,,þjóðfélagsvandamál.“

Þar með talið að fá slökkviðliðið til að dreifa krakkaskaranum með því að draga upp slöngurnar og láta vaða. 

Vinsældirnar dóu einfaldlega út og í ársbyrjun 1984 var Planið svo að segja orðið mannlaust. 

Við tók Hlemmur, leiktækjasalirnir og skemmtistaðir á við D-14 og Best.

En það er efni í aðra grein. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“