fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Svindlarinn sem sendi heilu bankana í gjaldþrot – Ævintýralegt líf drottningar fjársvikanna

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 24. september 2022 19:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Cassie Chadwick var aðeins fjórtán ára gömul þegar hún opnaði sinn fyrsta bankareikning, vopnuð fölsuðu skjali um veglega arf.  Með því hófst slóð svindls og fjármálamisferlis sem átti eftir að festa nafn Cassie rækilega í sessi sem eins afkastamesta svikahrapps sögunnar. 

Cassie var fædd Elizabeth Bigley árið 1857 í Ontario í Kanada. Ferilinn hófst þó brösuglega og var Cassie handtekin fljótlega eftir opnun fyrsta reikningsins. Þó ekki fyrr en eftir að hafa svikið góða summu út úr bankanum. Cassie var þó fljótlega sleppt og tók hún þá upp á að ganga á milli verslana og kynna sig sem erfingja að milljónum og veifaði hún nafnspjöldum sem hún hafði látið prenta því til sönnunar. Cassie tókst að svíkja gríðarlegt magn af vörum út úr dýrustu verslunum Ontario áður en hún náðist aftur.

Sat hún í steinunum í nokkurn tíma en þegar að Cassie losnaði ákvað hún að skipta um umhverfi og halda til Bandaríkjanna. 

Tólf daga hjónaband

Cassie var 23 ára þegar hún kom til Cleveland í Ohio og hóf að selja þjónustu sína sem miðill undir nafninu Madame Lydia DeVere. Hún gekk í hjónaband með lækni að nafni Wallace S. Springsteen en læknirinn átti engan vegin von á þeim mannfjölda sem bankaði upp á og krafðist þess að Cassie greiddi þeim fé sem hún skuldaði.

Eiginmaðurinn nýbakaði henti brúði sinni út, greiddi þó upp skuldir hennar, en fór svo fram á skilnað. Entist hjónabandið í 12 daga. 

Dáleiðandi

Cassie hóf því aftur að miðla að handan og kallaði sig nú ýmist Madame Marie LaRose og Lydiu Scott. Hún gekk aftur í hjónaband, nú með bónda nokkrum, en fékk leið á lífinu á sveitabænum og skildi. Fann hún sér þriðja eiginmanninn, vellauðugan kaupsýslumann, C. L. Hoover að nafni. Þau áttu son sem Cassie sendi til foreldra sinn í Kanada og þegar að C.L. lést og arfleiddi Cassie að stórum fjárhæðum var henni frjálst að halda áfram á sinni vafasömu braut.

Cassie kallaði sig nú Mademoiselle Lydiu Devere og lifði hátt. Hún hafði mokað sitt hratt í gegnum arfinn og fjármagnaði lífsstíl sinn á kostnað auðmanna sem hún sveik út fé á margvíslegan hátt.

Svo fær var Cassie í að ljúga út fé að mörg fórnarlömb hennar sóru fyrir hafa verið dáleidd. 

Eiginmaður fjögur

Árið 1889 var Cassie handtekin fyrir skjalafals og dæmd til níu og hálfs árs fangelsisvistar en sleppt eftir að hafa afplánað helming dómsins. Tók hún nú upp nafnið Cassie Hoover og hóf að reka hóruhús í fínni kantinum. Þar hitti hún sinn fjórða eiginmann, annan lækni, Leroy Chadwick að nafni. Sagði hún lækninum að hún væri fátæk ekkja sem hefði tekið að sér að sjá um ,,stúlknaheimili.” Þegar að læknirinn benti henni á að stúlknaheimilið væri vændishús ,,leið yfir” ekkjuna góðu sem bað lækninn að bjarga sér með hraði úr þessu syndabæli.

Það gekk eftir og gengu þau í hjónaband árið 1897. 

Upphófst þá líflegasta svindltímabilið í lífi Cassie. 

Pýramídasvindl

Hún tók að sér að sjá um fjármál þeirra hjóna. Eignir læknisins voru að langmestu leyti bundnar í fasteignum en fasteignaverð lækkaði ört á þessum tíma. Cassie greip þá til sinna ráða og hóf að fá gríðarmiklar upphæðir að láni frá bönkum undir því yfirskini að vera frænka milljarðamæringsins Andrew Carnegie og falsaði hún nafn hans á skjöl og veðbókarvottorð.

Hún notaði lánsfé frá einum banka til að tryggja lán frá öðrum og tókst þar með að byggja upp sitt prívat pýramídasvindl út um allt Ohio fylki.

Um svo gríðarlega háar upphæðir var að ræða að einn bankinn fór meira að segja á hausinn eftir fjármálagjörninga Cassie. 

Átta sérsmíðuð píanó

Cassie lifði hátt og gekk undir nafninu ,,Drottning Ohio.” Hún átti meðal annars gríðarlegt safn skartgripa, átta sérsmíðuð píanó og tólf málverkaramma úr 24 karata gulli. 

En lukkan rann Cassie út greipum og árið 1904 kærði einn bankanna hana. Lögregla yfirheyrði Andrew Carnegie sem ekkert vildi við meinta frænku kannast. Þegar að Cassie frétti af ferðum lögreglu  flúði hún til New York með þrjár og hálfa milljón dollara að núverði innanklæða en var handtekin við komuna til borgarinnar. 

Fangelsi og dauði

Réttarhöldin yfir Cassie vöktu gríðarlega athygli og fjölluðu blöð um hvert smáatriði réttarhaldanna. Þegar Cassie var dæmd til tíu ára tugthúsvistar árið 1905 fékk hún móðursýkiskast í réttarsal áður en það leið yfir hana. Hún áfrýjaði dómnum án árangurs. 

Cassie hóf afplánun þann 12. janúar 1906, niðurbrotin á sál og líkama. Hún neitaði að nærast í fangelsinu og lést ári síðar, 51 árs að aldri. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Í gær

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi
Fókus
Í gær

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“