fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Blaffi tók lokafylleríið eftir að hann fékk að vita að hann væri að verða 18 ára faðir – ,,Það stóð í 11 mánuði”

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 14. maí 2022 09:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hætti að drekka því ég var svo heltekinn af tónlistinni. Það þarf að passa upp á heilann því hann þarf að fúnkera til að semja almennilega texta og finna fjölbreytilegar leiðir til að flytja þá. Ég þurfti að horfa í kringum mig og ákveða hvort skipti mig meira máli, listin eða djammið,“ segir Blaffi, rappari og skáld, fullu nafni Hafþór Orri Harðarson. 

Blaffi er að fá sé  tattú þegar hann er í viðtalinu, að láta setja X á hnéð á sér til heiðurs bandaríska rapparnum DMX. „Maður er ekki maður með mönnum nema maður sé með húðflúraða hnéskél.“ 

Setning sem heyrist ekki oft. 

„Ég bjó hana til á staðnum, ég er nefnilega svolítill listamaður. Og skáld.“ segir Blaffi og hlær. 

Brjálað kjaftæði

Blaffi skilgreinir sig sem grundvískan Njarðvíking. Hann er fæddur og alinn upp á Grundarfirði þar sem hann segir rætur sínar liggja. „Það er svakalega fallegur og góður staður til að alast upp á en svo ég flutti svo til Njarðvíkur og hef búið þar frá því ég var 11-12 ára og hef haldið mig þar.“

Blaffi viðurkennir að hafa stundar mörg prakkarastrikin. „Maður fremur öðruvísi prakkarastrik á Grundarfirði en í Njarðvík. Á Grundarfirði var maður að brjóta hluti og vera almennt  til vandræða en á Suðurnesjum var málið að rappa og reykja sígarettur.” Blaffi segist hafa sótt í þann hóp og stendur Blaffi fyrir „Haffi í blackout“. 

„Þetta var einu sinni uppnefni en ég breytti því bara í listamannsnafn svo það er ekki hægt að baktala mig. Ef að börn heyra Blaffi þá tengja þau það ekki við einhverja hræðilega djammsögu heldur virkan listamann sem lætur gott af sér leiða.“

Blaffi byrjaði að drekka fjórtán ára og hætti átján. ,,Þetta var eitt og hálft ár í kjaftæði, frá því ég var sirka sextán og hálfs og upp í átján. Þá var ég í fullu fjöri í brjáluðu kjaftæði, rappa, drekka og gera allan andskotann.“

Hann segist  hafa verið með rokkstjörnustæla án þess að vera rokkstjarna. „Þegar ég var sex ára komst ég yfir videóspólu frá frænda mínum, þetta var upptaka af Mötley Crüe og þeir kunna sko að djamma. Ég hélt að ef ég ætlaði að verða stjarna þyrfti ég að vera eins og þeir, kasta sjónvörpum út um glugga og gefa mönnum á góminn. Það væri leiðin til að lifa. Og það var Haffi í blackout. Ég lærði að drekka á Grundarfirði og brjóta af mér á Suðurnesjum og er því arfalélegur í því báðu!“

Slappur lífsstíll

Hann segist hafa verið of ungur fyrir þann lífstíl sem fylgdi drykkjunni og missti stjórn á henni. 

„Mitt markmið var bara að fá mér drykk og hitta sætar stelpur en til að verða fullur þarftu að lama á þér heilann sem getur ekki verið gott fyrir ungmenni. Ég byrjaði að drekka því ég var svo stressaður um að ég væri að missa af einhverju, að partýið væri að verða búið. En partýið byrjar ekki almennilega fyrr en um tvítugt þegar að heilinn er þroskaðri og getur tekið við þessu. Þess vegna segi ég að að krakkarnir eigi bara að tjilla og bíða eftir að partýið hefjist.“

Aðspurður um hvort hann hafði verið í öðrum efnum segist Blaffi hafa haldið sér við áfengið. „Mér fannst allt annað vera bara svo skítugt, ólíkt þeim sem aðeins voru í áfengi. Og allir  vinir mínir sem fóru lengra en í áfengið breyttust svo hratt, byrjuðu að stela og ljúga að öllum. Mér fannst það slappur lífsstíll.“

Blaffi fór í framhaldsskóla en drykkjan gerði það að verkum að hann féll í flestum áföngum. „Mér hafði alltaf gengið vel í skóla en á þessum tíma hafði ég ekkert fyrir stafni og eyddi tímanum í djammið.“  Hann segir að fjölskyldan hafi hjálpað honum að komast að mestu leyti skammlaust í gegnum unglingsárin.

„Maður var villtur, rebel og til í allt. En ég kem af strangheiðarlegur fólki sem skammar mann þegar maður fokkar upp og sér til þess að allt sé í standi svo það var taumur á manni. Sem er frábært því ég er með kærulausari mönnum og stundum þarf að benda mér á hvað má betur fara. En ég má eiga það að ég tek gagnrýni, hlusta og geri eitthvað í málunum. Ég á frábæra foreldra.“ 

Til í pólitík

Tónlistin breytti líka mörgu og það urðu þáttaskil þegar Blaffi var þrettán ára ,,Ég man eftir frelsinu þegar ég byrjaði að rappa. Maður var að rífa kjaft en svo kemur taktur og maður hittir á hann. Þá tryllist allt og ég  fékk einhverja feitustu tónlistarbólu sem menn geta fengið. Ég hef haldið í þá bólu en vissi reyndar frá því ég var lítill að ég vildi verða tónlistarmaður.“

Hann var líka í íþróttum og æfði á trommur. „Ég væri til í að koma mér í bæjarpólitík og koma því í gegn að börn hafi fullt aðgengi að tónlistarskólum. Ég átti alveg mín móment í veseni en þegar að ég var kominn á kaf í tónlistina hafði ég ekki tíma fyrir slíkt. Ég var í júdó og íþróttum og tónlist er rosalega góð forvörn og þá töff íþróttir og töff tónlist. Fótbolti og blokkflauta er ekki að gera neitt, maður fer beint úr blokkflautu í neyslu. Nei! Ég er að grínast!  Málið er bar að finna það sem krökkum finnst kúl og þau brenna fyrir.“

Allt breyttist þegar að Blaffi fékk símtal um að hann væri að verða pabbi, aðeins átján ára gamall. ,,Þá tók ég lokafylleríið og það stóð í 11 mánuði. En pabbi sagði alltaf við mig að ég skuldaði honum ekkert fyrir það sem hann hefði gefið mér en ég skuldaði aftur á móti börnunum mínum. Og þegar ég horfði á litla drenginn minn vissi ég að hann átti betra skilið.“ 

„Ég fullorðnaðist á núlleinni við að verða faðir. Ég  var með barnið og barnsmóðurina í foreldrahúsum, í mínu gamla barnaherbergi, en þá mundi ég hvað pabbi hafði sagt. Þá vissi ég að drengurinn ætti betra skilið. Ég hafði drukkið og drukkið, alltaf ótrúlega stressaður og drakk enn meira til að bæla niður allar tilfinningar og þegar að sonur minn fæddist var ég eiginlega alveg tómur. Ég var ekki spenntur fyrir neinu, ég kveið engu, hræddist ekkert. Ég var bara flatur. En þegar að barnið kom áttaði mig á að ég væri með drykkjuvandamál og ég fór í meðferð og á Staðarfell. Ég fór drengur inn á Vog og kom út maður af Staðarfelli.“

Blaffi hafði verið með barnsmóður sinni af og á í gegnum unglingsárin en sambandið hélst ekki en þau eru mjög góðir vinir í dag. 

Fann ástina

Blaffi segir að á Staðarfelli hafi hann gengið tilfinningarnar aftur. „Ég fann ástina til fjölskyldu minnar og sonar míns. Og þá fór maður að spá í hvað maður hefði eiginlega eytt tímanum í og hvað skipti í alvöru máli. Ég þurfti að fara í skammarkrókinn.“

Blaffi lagði míkrófóninn á hilluna, hætti í skóla og fór að vinna eins og brjálæðingur, eins og hann orðar það sjálfur. „Ég lagði allt í að eignast íbúð og það komst ekkert annað að og því var lítið að gerast í tónlistinni þótt ég brenni fyrir þetta listform. En ég varð að leggja það á hilluna því ég var með markmið. Barnið mitt átti skilið herbergi. Og ég stóð auðvitað í skuld við pabba og þurfti að gefa syni mínum betra líf.“

Hann segir að auðvitað eigi maður að elta drauma sína en það séu fríðindi að fá að vera listamaður. „Og það er ekki hægt að hella sér í fríðindin ef maður hefur ekki innistæðu fyrir þeim. Ég hafði ekki innstæðu til að hugsa að lífið væri núna og til að leika sér. Fyrst þurfti ég fá herbergi fyrir son minn.“

Þremur árum síðar rættist markmiðið og Blaffi gat græjað herbergið fyrir son sinn. Þá var kominn tími á að hlaða byssurnar og byrja aftur í tónlist, enda var hann hungraður sem aldrei fyrr. 

Eitthvað sem enginn hefur heyrt

„Í dag er ég á fullu í að föndra eitthvað saman sem enginn hefur heyrt. Ég er að blanda saman öllum tónlistarstefnum sem ég fíla til að búa til alveg nýtt sánd. Það er með bresku, hollensku og frönsku ívafi. Ég er alla daga í stúdíó að setja lokahönd á plötuna mína sem ég ætla að gefa út á þessu ári, vonandi núna í sumar, og ég var að gefa út nýtt lag, Hefna sín.“

Er hægt að lifa á rappinu?  „Ég get ekki kvatt allar áhyggjur bless en ég á marga vini í þessum bransa sem hafa það ógeðslega gott. Markmið mitt er ekki að vera ríkur heldur að geta unnið í tónlist, borgað reikninga og farið kannski með son minn tvisvar á ári til útlanda. Og þegar því er náð þá er ég hamingjusamur maður. Ég þarf ekki Range Rover og þriggja hæða einbýlishús. En ef einhver ætlar að bjóða mér það, þá tek ég því!  Ekki spurning.“ Blaffi hlær og bætir við að sátt fjölskylda og fullur ísskápur sé það sem skipti máli. 

Langar Blaffa í fleiri börn? „Ég er að hugsa um að annaðhvort geyma það eða eignast fullt af börnum í einum hvelli. Ég er búinn að reikna þetta og ég get hent syni mínum út eftir 11 ár. Þá verð ég bara 36 ára. Svo annaðhvort eignast ég börn núna og hendi þeim út eftir átján ár eða ég bíð og geri eitthvað seinna,segir hann kíminn. 

Blaffi hugsar aðeins málið. „Er ekki bara hægt að ættleiða svona hálf uppkomin börn? Kannski ég geri ég það. Get ég hent inn í viðtalið að ég sé að leita að fullorðnum börnum til að ættleiða?segir Blaffi rappari og hlær.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Andri Már varð fyrir alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu – „Í dag er ég frek­ar þakk­lát­ur fyr­ir þetta því þarna fékk ég nóg“

Andri Már varð fyrir alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu – „Í dag er ég frek­ar þakk­lát­ur fyr­ir þetta því þarna fékk ég nóg“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Hera Björk fallin niður í 27. sætið – Litlu má muna að lagið komist í aðalkeppnina

Hera Björk fallin niður í 27. sætið – Litlu má muna að lagið komist í aðalkeppnina