Við höfum örugglega flest lent í því að ætla út í einn bjór en endað með að djamma fram eftir nóttu, með tilheyrandi hausverk daginn eftir. En tveir breskir karlmenn fóru með þetta enn lengra þegar þeir enduðu í helgarferð til Ibiza. LadBible greinir frá..
Vinirnir Dan Evans og Alex Stubbs eru frá litla bænum Merthyr í Wales. Þeir fóru á barinn síðastliðið föstudagskvöld, ætluðu bara að fá sér einn bjór og vera komnir heim fyrir hálf tólf.
Þeir drukku ekki bara einn bjór, og þeir voru ekki komnir heim fyrir miðnætti. Einhver á barnum stakk upp á að þeir myndu skella sér til Mallorca. Þeim fannst það frábær hugmynd, náðu í vegabréf sín og hleðslutæki fyrir símann og tóku leigubíl á flugvöll.
Því miður var næsta flug til Mallorca fullbókað en það voru enn nokkur sæti laus til Ibiza. Þrátt fyrir að vera ekki með hótelgistingu, eða flug heim, þá ákváðu þeir að láta slag standa og fóru til Ibiza.
Um leið og þeir lentu á eyjunni skelltu þeir í sig nokkrum skotum og fóru á vinsælan strandarklúbb. Þar héldu þeir áfram að drekka og fóru síðan á næturklúbb þar sem var dansað og drukkið meira.
Í samtali við LadBible sagði Dan að þeir hefðu hvorugir sofið alla helgina, heldur héldu þeir sér vakandi í 36 klukkutíma. Þeir sváfu á heimleiðinni og mættu til vinnu á mánudagsmorgun, ekki þeir ferskustu enda viðurkenndi Dan í samtali við Wales Online að óvænta helgarferðin hefði verið „smá sjokk fyrir kerfið.“
„Það var erfiðara að fljúga heim, en okkur tókst að koma okkur heim með nægan tíma til að koma okkur í vinnuna á mánudeginum. Þetta var þess virði, við sjáum ekki eftir neinu og eigum örugglega eftir að gera þetta aftur. En það gætu liðið nokkur ár þar til við getum gert þetta aftur,“ segir hann.