Kelly Michaud, 26 ára tveggja barna móðir frá Bretlandi, ákvað að fara af stað með hópfjármögnun til að safna fyrir brjóstaminnkunaraðgerð. Yorkshire Live greindi frá.
Kelly segist glíma við mikla bakverki vegna stærðarinnar á brjóstunum en hún er í stærð H. Kelly hefur undanfarið æft mikið og í kjölfarið léttist hún um rúm 12 kíló. Verkurinn er samt sem áður ennþá til staðar en það er einnig vegna þeirrar lausu húðar sem hún er með vegna þyngdartapsins.
Öllum beiðnum hennar um aðgerð til að minnka brjóstin og lausu húðina hefur verið hafnað og því ákvað hún að taka málin í sínar eigin hendur og safna sjálf fyrir aðgerðinni.
„Þú myndir ekki vilja það“
Kelly segist ekki bara glíma við líkamlegan sársauka vegna brjóstanna en hún hefur líka fundið fyrir andlegum sársauka vegna þeira. „Þegar ég var í skólanum þá elskaði ég að hlaupa og ég var góð í því. En allir strákarnir sátu alltaf uppi í brekkunni og horfðu á mig og töluðu um brjóstin mín eftir á. Það gerði mig svo óörugga og ég vildi bara fela þau.“
Þá segir Kelly að hún fái oft að heyra að hún eigi að vera ánægð með brjóstin sín. „Þú ættir að vera ánægð með stærðina á brjóstunum þínum – ég myndi vilja vera í sömu stærð og þú,“ segja sumir við hana en Kelly bendir þá á sársaukann sem hún glímir við vegna þeirra. „Ég held ekki, þú myndir ekki vilja það,“ segir hún þá.
„Ég hélt að þetta væri óalgengt“
Eins og áður segir er Kelly að safna fyrir aðgerðinni en hún notast við hópfjármögnunarsíðuna GoFundMe til þess. Hún er að reyna að safna 10 þúsund pundum eða um 1,8 milljón í íslenskum krónum.
„Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað margar konur glíma við sama vandamál og ég. Ég hélt að þetta væri óalgengt en síðan ég setti hópfjármögnunina af stað hef ég heyrt frá vinum mínum sem óska þess að fara í sömu aðgerð og ég ætla í.“