Svo virðist vera sem ný tegund af bikiníi sé að ryðja sér til rúms hjá stjörnunum. Um er að ræða bikiní þar sem toppurinn virðist vera á hvolfi og í einhverjum tilvikum er það raunin.
Eins og eiginlega alltaf þegar ný tíska er komin á stjá þá eru systurnar í Kardashian-fjölskyldunni fljótar að taka þátt. Þær Kourtney Kardashian og Kylie Jenner hafa nýverið birt myndir af sér í svona bikiníi og vakið mikla athygli í kjölfarið.
Þrátt fyrir að bikiníið sé afar vinsælt núna þá vakti það fyrst athygli fyrir þónokkru síðan. Ástralski áhrifavaldurinn Tammy Hembrow birti til að mynda mynd af sér í svona bikiníi snemma í fyrra, það bikiní var frá Dior.
Þá var ítalska fyrirsætan Valentina Fradegrada mögulega fyrst til að vekja athygli fyrir þessa gerð af bikiníi en hún er sögð hafa komið tískubylgjunni af stað.
Þótt um sé að ræða tískubylgju þá þarf fólk ekki endilega að bruna út í búð til að kaupa nýjasta bikiníið. Í flestum tilvikum er nefnilega um að ræða algjörlega venjulegt bikiní, það er bara búið að draga spottana lengra upp svo það virðist sem það sé á hvolfi. „Neytendur eru farnir að leita meira að nýjum og einstökum leiðum til að nota bikiníin sín svo hægt sé að fá meira út úr þeim,“ segir Tara Jane, eigandi ástralska sundfatnaðarmerkisins TJ Swim, í samtali við News.com.au um málið.