fbpx
Laugardagur 11.maí 2024
Fókus

Ágústa Johnson um þegar mótmælendur stóðu fyrir utan heimili hennar

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 20. október 2020 10:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ágústa Johnson er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í Podcasti Sölva. Ágústa, sem er einn stærsti frumkvöðull í heilsurækt á Íslandi, var á leið í nám í arkítektúr þegar hún ákvað að skipta um takt og elta ástríðuna.

Í þættinum fara Ágústa og Sölvi yfir langan feril Ágústu, sem segist hafa kynnst ýmsu eftir að hafa verið lengi þekkt á Íslandi, en engu jafn óskemmtilegu eins og þegar mótmælendur stóðu fyrir utan heimili hennar eftir hrunið, til að mótmæla eiginmanni hennar.

„Mér fannst þetta breytast í hruninu og harkan jókst. Við fjölskyldan urðum þá til dæmis fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að það var staðið fyrir utan heimilið okkar og mótmælt. Það er eitt af því óskemmtilegra sem maður hefur upplifað. Að hafa fólk standandi fyrir utan heimilið þitt í langan tíma með andúð gagnvart þér og þínum er mun meira þrúgandi en maður getur ímyndað sér ef maður hefur ekki upplifað það. Þetta voru líklega tvær vikur sem þetta stóð yfir og það var stundum hringt á bjöllunni og spurt eftir Gulla [Guðlaugi Þór Þórðarsyni] og oft fóru börnin til dyra. Og húsið okkar var þannig að það eru gluggar á öllum hliðum og það var engin leið að reyna að „blokkera“ þetta frá sér. Fólk gegnir þessum störfum að vera í stjórnmálum og verður að þola gagnrýni, en mér finnst fullkomlega út úr korti að koma og standa fyrir utan heimili fólks í tíma og ótíma,“ segir Ágústa.

Aldrei upplifað neitt eins og 2020

Ágústa hefur verið í rekstri í áratugi, en aldrei upplifað neitt í líkingu við árið í ár.

„Þetta ár er heldur betur búið að vera öðruvísi en ég reiknaði með. Það hefur gengið vel síðustu ár og fyrirtækið búið að vera á uppleið og ég var búinn að bíta það í mig að árið 2020 yrði besta árið í sögu fyrirtækisins. En þetta er orðið versta ár sem ég hef upplifað síðan ég byrjaði í viðskiptum. Við þurftum að loka í tvo mánuði samfellt og núna aftur, þetta er auðvitað bara ömurlegt. Við erum að tapa milljónum á dag og þetta ár er í einu orði sagt bara farið í skrúfuna. En fyrirtækið stendur sterkt og við munum fara í gegnum þetta,“ segir hún.

Ágústa segist oft velta því fyrir sér hvort að sú vegferð sem farið hefur verið í aftur núna í haust sé sú rétta.

„Í fyrri bylgjunni var samstaða og það vissi enginn hvað var framundan og þetta var bara svona. En síðan kemur seinni bylgjan og ég held að enginn hafi reiknað með þessu. Í mínum huga er mjög mikilvægt að fólk stundi heilsurækt og maður hefði haldið að það myndi kannski eitthvað telja, en sóttvarnaryfirvöld meta þetta svona. Ég velti því auðvitað fyrir mér hvort að þetta sé rétta leiðin og það verður athyglisvert að sjá það í framtíðinni hvernig við munum horfa á þetta tímabil. Ef þú horfir á stóru myndina þá getur þetta haft svo miklar afleiðingar. Það eru börn og unglingar að flosna upp úr skóla, þunglyndi eykst og þessar aðgerðir geta haft mikil áhrif á heilsu og líf fólks þó að það veikist ekki af Covid. Alls konar vanlíðan eykst og ég tala nú ekki um allt fólkið sem er búið að missa vinnuna, þannig að þegar við munum gera þetta upp mun eitthvað koma í ljós og ég get alveg sagt það að maður veltir því fyrir sér hvort það ætti ekki að vera breiðari nálgun á þetta og að ákvarðanir séu ekki bara teknar út frá sóttvarnarnálgun.“

„Fitubrennslunámskeið“

Ágústa segir að sér finnist alls ekki næg áhersla sett á annan faraldur, lífsstílssjúkdóma. Því miður hafi alltaf verið erfitt að selja fólki að bæta heilsuna sína, öðruvísi en að það snúist um að losna við kíló og tekur dæmi í viðtalinu.

„Við bjuggum einu sinni til námskeið sem við kölluðum  „fitubrennslunámskeið“ og það hugtak hafði ekki verið notað. Það var mynd af flottri stelpu í auglýsingunni sem horfði til hliðar. Það áttu að vera pláss fyrir 35 manns á námskeiðinu og þetta var á tíma þar sem fólk þurfti að hringja til að bóka sig. Það gjörsamlega bilaðist allt og síminn stoppaði ekki. Á endanum fylltum við átta námskeið og urðum að stoppa af því að við höfðum ekki meira pláss. Síðan aðeins seinna fórum við að útvíkka þetta og auglýstum sambærilegt námskeið til að bæta heilsufar og það voru tíu sem skráðu sig, þannig að námskeiðið féll niður. Þarna sá maður þetta svart á hvítu, en sem betur fer hefur þetta aðeins breyst,“ segir hún.

„Það er því miður þannig að það er auðveldast að fá fólk til að koma inn í líkamsræktarstöð ef það er verið að selja fólki hvernig það geti bætt útlitið sitt. Sá hópur sem er farinn að hugsa þetta í stærri mynd fer samt alltaf stækkandi og sérstaklega þegar aldur fólks verður hærri. Að ná til eyrna fólks undir þrítugsaldri með þau skilaboð að bæta almennt heilsu getur verið mjög erfitt. Ég hef lengi haft ástríðu fyrir því að reyna að að fá fólk til að bæta heilsuna sína, en ekki hugsa bara um útlitið.“

Eftir að hafa menntað sig í íþróttafræði og viðskiptum stofnaði Ágústa sína fyrstu líkamsræktarstöð, „Stúdíó Jónínu og Ágústu“, og eftir það var ekki aftur snúið. Hún hefur nú um árabil rekið Hreyfingu með góðum árangri. Í þættinum ræða hún og Sölvi um feril Ágústu, lyklana í að vera frumkvöðull, mikilvægi heilsu og margt margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan. Þú getur einnig hlustað á hann á Spotify.

https://www.youtube.com/watch?v=jMy1PfYDGQE&t=1121s

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hver er dularfulla konan sem gerði allt vitlaust á Met Gala?

Hver er dularfulla konan sem gerði allt vitlaust á Met Gala?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Laufey vaknaði með slæman hausverk – Lá nokkrum tímum síðar á milli heims og helju á sjúkrahúsi

Laufey vaknaði með slæman hausverk – Lá nokkrum tímum síðar á milli heims og helju á sjúkrahúsi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lofar þeim sem styrkja hana kampavínsboði á Bessastöðum

Lofar þeim sem styrkja hana kampavínsboði á Bessastöðum
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég er mjög meðvituð um að ég á bara þetta eina líf sem Katrín Myrra“

„Ég er mjög meðvituð um að ég á bara þetta eina líf sem Katrín Myrra“