„Ísland er mögulega hættulegasti staður í Evrópu.“ Þannig hefst pistill blaðamannsins Rick Steve sem birtist á vef Seattle Times. Pistilinn ber nafnið „10 leiðir til að deyja á Íslandi.“
„Þetta fallega land er drekkhlaðið af náttúruundrum sem heilla ferðamenn: fossar, jöklar, ár, firðir, klettar og hverar,“ ritar greinarhöfundur en bætir síðan við að þrátt fyrir náttúra landsins sé stórbrotin þá kunni landið að vera hættulegasti staður í Evrópu. Nokkrum sinnum á ári þurfi að kalla út björgunarsveitir vegna ferðamanna sem hafa lent í háska í óbyggðum, týnst uppi á hálendinu eða lent úti í sjó.
„Þó að Ísland sé vinsælla en nokkru sinni áður þá skaltu ekki láta það vera seinasta staðinn sem þú heimsækir á ævinni,“ ritar hann og útlistar því næst tíu atriði sem ferðamenn þurfa að hafa í huga á Íslandi.
Vindar. Rick segir starfsmann bílaleigu á Íslandi hafa talið sig inn á að kaupa sérstaka tryggingu vegna hvassviðris og sandfoks. Þá segir hann vindhviðu nærri því hafa tekið hann með sér út í sjó þar sem hann stóð á klettasyllu og var að taka myndir. Hann varar ferðamenn því sérstaklega við rokinu sem er eitt helsta einkenni íslenskrar veðráttu. „Gott veður að mati Íslendinga er annaðhvort enginn vindur eða þá létt gola.“
Hálka. Rick segir gangstéttirnar á Íslandi glerhálar á veturnar, enda séu þær venjulega ekki saltaðar. Hann hvetur því ferðamenn sem heimsækja Ísland á tímabilinu desember- febrúar að fjárfesta í mannbroddum á skóna.
Að týnast. Rick hvetur ferðamenn til þess að vera við öllu búnir þegar ferðast er um óbyggðir Íslands. „Bílinn þinn gæti bilað eða orðið bensínlaus eða þú gætir tekið vitlausa beygju,“ ritar hann og brýnir fyrir túristum að pakka niður nóg af hlýjum fötum, vera með hlaðinn síma og taka með sér landakort til öryggis.
Hættulegar öldur. „Á Suðurlandinu eru hættulegar strendur, þar sem kraftmiklar öldur ná reglulega að hrifsa grunlausa ferðamenn með sér út í sjó. Þessar hrífandi svörtu strendur geta á augabragði orðið stórhættulegar,“ ritar greinarhöfundur og brýnir fyrir ferðamönnum að hlýða fyrirmælum og halda sig langt frá sjónum, jafnvel lengra en þeir sjálfir telja nauðsynlegt.
Viðvörunarmerki. Rick bendir á að á Íslandi sé almennt lítið um að svæði séu afgirt eða merkt sérstaklega og ferðamenn skuli taka því alvarlega þegar þeir verða varir við slíkt. Nauðsynlegt sé að fara varlega og vera á varðbergi fyrir sprungum, lausu grjóti og skörpum klettum.
Hveravatn. Rick segir vatnið á hverasvæðum „brennandi heitt“ og oft sé fólk ekki nægilega upplýst um hættuna. Nánast árlega gerist það að ferðamaður detti ofan í hver og hljóti alvarlegan bruna.
Snjóflóð. „Þeir sem ferðast um Ísland að vetri til gætu orðið var við snjóflóðaviðaranir í þeim byggðum sem eru undir fjalli.“ Rick segir Íslendinga hafa orðið enn meðvitaðri um snjólflóðahættu eftir að að tvö snjóflóð féllu á Vestfjöðrum á tíunda áratugnum með þeim afleiðingum að 34 einstaklingar létust.
Eldfjöll. Eftir ævintýrið með Eyjafjallajökul eru líklega flestir ferðamenn meðvitaðir um það að eldfjöll er að finna á Íslandi. Rick bendir á að eldgos eigi sér stað á þriggja til fjögurra ára fresti hér á landi og geti auðveldlega valdið skaða.
Akstur að vetri til. Rick ráðleggur ferðamönnum að keyra ekki utan höfuðborgarsvæðisins að vetri til, það er að segja á tímabilinu nóvember til mars.
Að lokum hvetur hann ferðamenn til að fara varlega á meðan þeir njóta þess að virða fyrir sér náttúrufegurð landsins. Á Íslandi sé almennt frekar auðvelt að stöðva bílinn úti í vegarkanti.
„Aldrei nokkurn tímann stöðva bílinn úti á vegi til að taka mynd.“