fbpx
Fimmtudagur 13.júní 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hefja þarf nám í dönsku mun fyrr

Eyjan
Sunnudaginn 19. maí 2024 16:00

Sænska þjóðskáldið Esaias Tegnér krýnir hinn danska skáldbróður sinn Adam Oehlenschläger lárviðarsveigi í dómkirkjunni í Lundi sumarið 1829. Myndina málaði danski listamaðurinn Constantin Hansen árið 1866, en hún er varðveitt í Friðriksborgarhöll.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsverðu fjaðrafoki vöktu fregnir í liðinni viku þess efnis að farga „þyrfti“ tugþúsundum eintaka af bókinni Fjallkonunni sem innihélt þjóðhátíðarljóð og greinar um fjallkonuna, allt vegna formála Katrínar Jakobsdóttur, fyrrv. forsætisráðherra. Bókin var hugarfóstur hennar, en til stóð að bókin yrði send skattgreiðendum (enda höfðu þeir greitt fyrir hana). Nú fá þeir nýja fjallkonubók með inngangi eftir nýjan forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson, en kostnaðurinn er tvöfaldur.

Ég er þeirrar skoðunar að illa fari á því að gefa bækur í stórum stíl, enda sólunda menn gjarnan því sem þeim er veitt án endurgjalds. Ýmsir telja líka að útgáfa þessi og förgun sé táknræn fyrir bruðlið í opinberum rekstri. En allt um það. Ef til vill er þetta gott framtak og titill bókarinnar vakti athygli mína en fjallkonan er þjóðartákngervingur Íslands og kemur fyrst fyrir í kvæði Bjarna Thorarensen, Íslands minni, sem enn er mikið sungið:

 

Eldgamla Ísafold,

ástkæra fósturmold,

Fjallkonan fríð!

 

Kvæði Bjarna var fyrst prentað árið 1819 en danska þjóðskáldið Adam Oehlenschläger hafði þegar árið 1805 ort um íslenska fjallkonu, eða snækrýnda fjalladís:

 

Island, hellige ø, ihukommelsens vældige tempel,

hen til din fjerneste kyst vifte Gud bragi min sang!

Altid til en kraftig ild udvikled din skinnende fjelddis,

bredt det bølgende hav freder om oldtidens ånd.

 

Íslandi er þarna lýst sem „helgri eyju“ þar sem fornnorrænn andi svífur yfir vötnum. Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku, hefur leitt í ljós með rannsóknum sínum hversu gríðarleg áhrif íslensk fornmenning hafði við myndun danskar þjóðarvitundar seint á átjándu öld og snemma á þeirri nítjándu. Fyrir Oehlenschläger var Ísland „voldugt musteri minninganna“. Þetta er mörgum áratugum áður en Jónas orti um „feðurna frægu“ og „frjálsræðishetjurnar góðu“. Andans menn suður við Eyrarsund höfðu þá fyrir löngu uppgötvað hinn fornnorræna anda í norðri. Rannsóknir Auðar varpa nýju ljósi á íslenska þjóðfrelsisbaráttu 19. aldar. Hún er endurómur af þjóðernisvakningu Dana. Meira að segja hreintungustefnan á sér danska fyrirmynd.

Og handans Eyrarsundsins í hinni eldfornu dómkirkju í Lundi krýndi sænski rithöfundurinn og prófessorinn í grískum fræðum, Esaias Tegnér, hinn danska skáldbróður sinn Oehlenschläger lárviðarsveigi sumarið 1829 með þeim orðum að tíð sundrungar hefði runnið sitt skeið og hún hefði aldrei átt að vera til í hinum frjálsa, óendanlega heimi andans (s. „Söndringens tid är forbi, och den bonde ej funnits i andens fria oändliga värld“).

Norræn tengsl hafa trosnað

Þessi pistill er að verða æði skáldlegur en hin djúpstæðu menningartengsl norrænu þjóðanna hafa orðið mér sífellt hugstæðari síðustu misserin í margvíslegri samvinnu við norræna starfsbræður. Eftir að vopnin höfðu verið kvödd efndu Norðurlandaþjóðirnar til sífellt meira samstarfs með sér, jafnt menningarlegs sem efnahagslegs. Á ofanverðri nítjándu öld urðu heilu lagabálkarnir samhljóða milli ríkjanna og komið var á fót sameiginlegum gjaldmiðli. Nú hefur dregið til muna úr löggjafarsamvinnu og skandinavíska krónan fór veg allrar veraldar í ófriðnum mikla. Hvað sem því líður hefur norrænt samstarf dafnað á flestum sviðum enda eðlilegt að þær þjóðir sem skyldastar eru og nálægastar myndi með sér bandalög. Þá hillir undir nýja tíma í norrænni varnarsamvinnu, en ólík afstaða í þeim efnum hefur hvað helst greint að norrænu ríkin frá stríðslokum.

Það liggur í hlutarins eðli að samvinna svo náskyldra þjóða er mun líklegri til árangurs en við þær þjóðir sem fjarlægari eru og fjarskyldari. Þessi sannindi eru svo sjálfsögð að vart þyrfti að hafa orð á þeim. Ráðamenn þjóðarinnar tönnlast í hátíðarræðum á gildi norrænnar samvinnu en staðreyndin er sú að Íslendingar hafa fjarlægst frændur sína. Ég þekki það úr minni fræðigrein að það færist í vöxt að lögfræðingar lesi ekki stafkrók á hinum Norðurlandamálunum. Afleiðingin getur ekki orðið önnur en fræðileg hnignun og menningarleg einangrun hér í fásinninu, því á þessu sviði sem mörgum hafa Íslendingar lítið að sækja til annarra heimshluta samanborið við Norðurlöndin.

Ýmis vandamál samtímans má rekja beint til skorts á norrænni samvinnu og væri þarft rannsóknarefni, þó svo að tapið verði ekki eingöngu reiknað í íslenskum krónum og aurum. Talsvert hefur verið rætt um að Evróputilskipanir séu innleiddar hér á landi með of viðurhlutamiklum hætti. Þar skortir jafnan á að tekið sé tilliti til innleiðingar sömu tilskipana á hinum Norðurlöndunum, einkanlega í Noregi og Danmörku, þar sem löggjöf er keimlík. Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á útlendingalögum sem stendur í beinu sambandi við það að Íslendingar hafa í því tilliti skilið sig frá öðrum norrænum þjóðum. Mörgum varð tíðrætt um „svik“ hinna Norðurlandaþjóðanna við Íslendinga í bankahruninu. Margt bendir til þess að þar hafi verulega skort á tengsl íslenskra ráðamanna við norræna starfsbræður og ljóst að þau bönd hafa enn frekar trosnað á þeim árum pólitískrar upplausnar sem liðin eru síðan. Nú er meira að segja svo komið að stór hluti íslenskra alþingismanna talar ensku í norrænu samstarfi.

Danskan er lykillinn

Vegna danskra yfirráða hér um aldir varð Danmörk eins konar gluggi Íslendinga að heimsbyggðinni og eðli máls samkvæmt varð danskan það erlenda tungumál sem menn lærðu fyrst og varð þeim tamast. En danskan var ekki einungis lykill að samskiptum okkar við Dani heldur efldi þekking á dönsku sömuleiðis tengslin við Norðmenn, Svía og Finna. Og kunnátta í dönsku er trygging fyrir því að okkur takist að viðhalda þeim ómetanlegu menningarlegu tengslum sem við höfum haft um aldir við hinar Norðurlandaþjóðirnar.

Það er fjarska einkennileg hugsun að telja sig vera víðsýnan á alþjóðlega vísu en vera ekki fær um að skilja neitt annað erlent tungumál en ensku. Þar með er heimssýn viðkomandi bundin við enskt málsvæði. Engin sérstaða er í því fólgin að kunna bara það sem allir aðrir kunna. Að vera hluti af norrænu menningarsvæði og norrænu málsvæði er dýrmæt sérstaða, en hún getur ekki orðið nema í krafti sameiginlegrar tungu í einhverjum skilningi.

Fyrir allnokkrum árum var Norðurlöndunum sett málstefna (Deklaration om nordisk språkpolitik) sem hefur það að markmiði að allir Norðurlandabúar geti umfram allt átt samskipti hver við annan á skandinavísku máli og þá eigi íbúar Norðurlanda rétt á „að læra og skilja og þekkja eitt skandinavískt tungumál og öðlast skilning á öðrum skandinavískum tungumálum með það að markmiði að geta tekið þátt í málsamfélagi Norðurlanda“. Hugmyndin er sú að Skandinavar noti sitt móðurmál í samskiptum við aðra Norðurlandabúa en læri jafnframt að skilja grannmálin tvö; Norðmenn notist þannig til að mynda við norsku í norrænu samstarfi en hafi skilning á dönsku og sænsku.

Förum að dæmi Færeyinga

Í norrænu löndunum utan Skandinavíu þurfa íbúar aftur á móti að læra eitthvert skandinavísku málanna sem síðan verður þá lykill að hinum. Íslendingar og Færeyingar læra þá dönsku. Þrátt fyrir skýr markmið ráðamanna með áðurnefndri málstefnu hefur verið dregið verulega úr vægi dönskukennslu hér og raunar líka nokkuð í Færeyjum þar sem ég þekki til. Danska er skyldunámsgrein hér á landi í 7.–10. bekk grunnskólans og í upphafi framhaldsskóla. Í Færeyjum hefst kennsla í dönsku aftur á móti í 3. bekk grunnskólans en henni lýkur í 9. bekk og danska er aðeins valgrein í framhaldsskólum.

Mun meiri kröfur eru gerðar til dönskuþekkingar færeyskra námsmanna en íslenskra en um átta af hverjum tíu kennslubókum í færeyskum framhaldsskólum eru á dönsku. Ég veitti því athygli þar sem ég var staddur með nemendur mína í Færeyjum á dögunum að danskan er færeyskum menntaskólanemum almennt tamari en enska. Vegna afburðarkunnáttu í dönsku standa Færeyingum allar dyr opnar í norrænni samvinnu, ólíkt Íslendingum sem fæstir ná viðunandi færni í dönsku og fara þar með á mis við beinan aðgang að norrænu málsamfélagi.

Eina lausnin á þessu er að fara að dæmi Færeyinga og hefja nám í dönsku mun fyrr. Markmiðið yrði að Íslendingar öðluðust almennt afburðarvald á danskri tungu og yrðu þar með fyllilega hlutgengir í norrænu menningarsamfélagi til jafns við Norðmenn, Svía og Dani. Danskan er brú Íslendinga til hinna norrænu ríkjanna og veitir okkur aðild að nánu bandalagi þjóða sem búa við sömu menningu og sama hugsunarhátt. Slíkt er ómetanlegt jafnfámennu þjóðfélagi sem því íslenska sem er veikburða í flestu tilliti og mun að öðrum kosti einangrast enn frekar menningarlega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú

Svarthöfði skrifar: Skítabombur þá og nú
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Endurvekja þarf samræmd próf

Björn Jón skrifar: Endurvekja þarf samræmd próf
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að
EyjanFastir pennar
09.05.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð
EyjanFastir pennar
05.05.2024

Björn Jón skrifar: Allir vildu Lilju kveðið hafa

Björn Jón skrifar: Allir vildu Lilju kveðið hafa
EyjanFastir pennar
30.04.2024

Svarthöfði skrifar: Grenjað á gresjunni

Svarthöfði skrifar: Grenjað á gresjunni
EyjanFastir pennar
28.04.2024

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?