fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fastir pennar

Blaðamaður DV fórnar sér – Að hlaupa 100 km á mánuði

Tobba Marinósdóttir
Mánudaginn 8. mars 2021 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

3,2 kílómetrar á dag hljómar sem lítið mál – þangað til ég gleymdi því og allt í einu átti ég 45 kílómetra eftir og aðeins fjóra daga til að hlaupa þá. Já og ég er lélegur hlaupari. En ég skyldi klára þetta þó að ég myndi skríða Ægisíðuna skælandi.

Ég er í grunninn ekki hlaupari. Bara alls ekki. Mér finnst spinning, lyftingar, fjallgöngur, alls konar agressíf líkamsrækt skemmtileg en hlaupin hafa hingað til ekki heillað mig neitt sérstaklega nema þegar vel viðrar. En nú var komið að því – 100 kílómetrar í janúar var takmarkið og því skyldi náð.

Lítið mál, enda 31 dagur í janúar sem gera að meðaltali 3,2 kílómetra á dag sem er vel gerlegt og tekur ekki nema sirka 20 mínútur fyrir óvanan hlaupara.

Veðrið í janúar var misgott og í bjartsýniskasti skráði ég mig líka á námskeið tvisvar í ákafri líkamsrækt, Innfra Power eins og það kallast í heitum sal. Eftir á að hyggja var það ekki svo sniðugt því það var ekki gott að hlaupa sama dag eða daginn eftir æfinguna vegna harðsperra.

Ég mætti á námskeiðið og fannst það frábært en snargleymdi hlaupunum sem ég hafði byrjað svo samviskusamlega á. Því fór svo að fjórum dögum fyrir janúarlok átti ég 45 kílómetra eftir. Ég hafði sofnað allverulega á verðinum og varð að gefa í.

Gat ég hlaupið 45 kílómetra á fjórum dögum? Ég hafði aldrei hlaupið meira en 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu en nú yrði ég að hlaupa lágmark vel það daglega. Fokk!

Úti var brjálæðislega kalt, hált og ég frekar fúl yfir að hafa ekki náð að halda takmarkinu á lofti. Ég yrði að klára þetta.

Pepp Ísland

Ég kíkti inn í Pepp Ísland-hópinn og sá þar alls konar gott fólk vera að tjá sig og hvetja aðra áfram. Ég fann hugrekkið kitla mig í iljarnar. Af hverju gæti ég ekki hlunkast þetta í rólegheitum eins og aðrir? Ég tæki bara minn tíma. Hlustaði á hljóðbók og tæmdi hugann.

Ég sagði því eiginmanninum að plokkfiskurinn væri í ofninum og ég væri farin út að hlaupa. Ég lagði upp með að finna mér hring þar sem þá gengi verr að svindla mér leið eða gefast upp ef ég væri komin nægilega langt frá sófanum

Hér skiptir miklu máli að vera með spennandi hljóðbók og vera helst kominn vel inn í söguþráðinn. Gott er að vera með lagalista sem inniheldur „powerlög“, það er að segja hvetjandi taktfasta tónlist tilbúna á Spotify til að breyta yfir í ef gefa á í eða til að rífa upp stemminguna.

Langaði ekki í rauðvín

Fyrstu 3 til 5 kílómetrarnir eru erfiðastir. Ekki hjálpaði til að það lak stanslaust úr nefinu á mér í frostinu og ég var illa klædd eins og auli. Kuldinn hjálpaði þó til og varð til þess að ég hljóp hraðar til að ná upp hita. Ég kláraði 10 kílómetra og var langt í frá að vera uppgefin þegar ég kom heim rétt rúmum 60 mínútum síðar. Mér leið ótrúlega vel. Það létti til í heilaþokunni sem fylgir því að vera með mörg krefjandi verkefni á lofti og ég var mun minna svöng um kvöldmatarleytið og langaði ekki í rauðvínsglas eða súkkulaði. Líkaminn var sáttur. Og athugið að ég elska að fá mér eitt rauðvínsglas við eldamennskuna – það var í raun undarleg tilfinning að „vanta“ ekki neitt. Líklega er rauðvínsglasið líka liður í að „stytta“ sér leið í slökun eftir krefjandi dag en hlaupin höfðu séð um að létta heilaþokunni.

Björk og Palli

Næsta dag var ég vandræðaleg spennt yfir hlaupunum. Hafði pantað mér góðar hlýjar hlaupabuxur, var á spennandi stað í bókinni, með vasann fullan af snýtubréfi og mér ekkert að vanbúnaði. Ég hafði fengið góðan vin til að skrúfa nagla upp í gamla hlaupaskó sem ég gat hlaupið á eftir hvaða ísilögðu stétt sem er. Ég var ósigrandi!

Þangað til eftir 2,5 kílómetra. Þá bara nennti ég þessu ekki. Lufsaðist hægt áfram. Íhugaði tilgang lífsins og af hverju ég væri yfirhöfuð að þessu. Og af hverju er ég til? Hver er ég?

Ég hljóp með fram Ægissíðunni og fram hjá Björk Guðmunds og Páli Óskari. Ég gat ekki látið þau sjá mig labba í hlaupagallanum. Lufsaðist áfram. Brosti og hljóp hraðar. Maður þarf að hugsa um ímyndina. Mig langaði samt að skríða.

Þá dró til tíðinda í hljóðbókinni og ég snýtti mér, gaf í og hugsaði áfram, áfram. Þegar 5 kílómetrar voru komnir var ég í banastuði. Farin að hugleiða hálfmaraþon og ný hlaupaföt.

Ég vil meira

Síðasta daginn hljóp ég rúma 10 kílómetra og kláraði áskorunina. Ég fékk aldrei harðsperrur eða leið illa þó að ég hefði auðvitað átt að leggja meiri áherslu á teygjur. Hlaupin gerðu mér ekki síður gott andlega þar sem verkefni dagsins eru oft yfirþyrmandi en hlaupin léttu á öllu – bæði andlega og líkamlega.

Daginn eftir að ég kláraði hlaupin hafði ég ákveðið að hvíla líkamann eftir þessa 45 kílómetra striklotu á fjórum dögum en saknaði þess strax að fá ekki þennan „ég“ tíma. Stærsta áskorunin var ekki hlaupin heldur að fá rúma klukkustund (fyrir utan sturtu) handa mér sjálfri og það yfirleitt á úlfa- eða matmálstíma þar sem það hentar mér ekki að hlaupa fyrir vinnu þegar verið er að koma börnum í skóla. Best er að hlaupa í hádeginu en það er aðeins hægt þegar ég vinn heima því ekki býð ég samstarfsfélögum mínum upp á svitapartí og ég hef ekki tíma til að fara í sturtu í hádeginu.

Stundum var svo flókið að komast frá þennan klukkutíma að börnin voru hvort á sínum staðnum í pössun ef Kalli var að vinna lengur. Dagurinn er svo stuttur að skólatíminn rúmar ekki vinnutímann, hvað þá hlaup eða líkamsrækt. Dæmið gengur illa upp en þarf að gera það ef ekki á að brenna kertið í báða enda.

Ég hef tapað hlaupunum niður en ætla nú að taka þau aftur upp – ég finn að ég þarf þess til að halda andlegri og líkamlegri heilsu í góðu jafnvægi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum
EyjanFastir pennar
03.03.2024

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð

Björn Jón skrifar: Tilbrigði við fegurð