fbpx
Miðvikudagur 26.janúar 2022
Fastir pennarFréttir

Upplifun mín í réttarhöldunum yfir morðingja Freyju Egilsdóttur

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 26. nóvember 2021 08:04

Dómhúsið í Árósum og Freyja Egilsdóttir. Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á miðvikudaginn lauk máli sem snerist um morðið á Freyju Egilsdóttur með því að morðingi hennar var dæmdur í ævilangt fangelsi. Hún var myrt á heimili sínu í Malling á Jótlandi þann 29. janúar síðastliðinn. Það var eiginmaður hennar, Flemming Mogensen, sem varð henni að bana. Þau voru skilin að borði og sæng en Freyja hafði bundið enda á hjónabandið sumarið áður. Ég fylgdist með málinu allt frá upphafi, það er þegar lögreglan lýsti eftir Freyju og þar til því lauk á miðvikudaginn í dómsal í Árósum.

Málið er allt hið sorglegasta, mikill harmleikur. Tvö ung börn misstu móður sína og föður því hann mun væntanlega sitja í fangelsi til æviloka. Einnig missti sonur Flemming, Alex Mogensen, föður sinn en áður hafði Flemming svipt hann móður sinni, Kristina Hansen, en hana myrti Flemming árið 1995. Alex sagði nýlega í sjónvarpsþætti TV2 að hann reikni ekki með að samband þeirra feðga verði mikið í framtíðinni, það muni aðallega snúast um praktíska hluti og fjárhagsleg málefni.

Réttarhöldin fóru fram í Árósum. Tveir leikmenn (ólöglært fólk) sat í dómnum ásamt einum dómara við réttinn. Fjölmenni var viðstatt réttarhöldin, meðal annars Alex, sonur Flemming, ættingjar Freyju og vinir og fjöldi blaðamanna. Allir helstu fjölmiðlar Danmerkur sendu fulltrúa til að vera við réttarhöldin og fjalla um þau, má þar nefna Danska ríkisútvarpið og TV2 auk Ekstra Bladet sem er stærsti netmiðill landsins.

Freyja Egilsdóttir Mogensen. Mynd: Lögreglan á austur Jótlandi

Fyrir dómi var ekki tekist á um hvort Flemming væri sekur, það játaði hann fyrir dómara þegar hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í febrúar. Réttarhöldin snerust eingöngu um þyngd refsingarinnar. Saksóknari flutti mál sitt og fór yfir málsgögn og atvikalýsingu. Flemming fékk tækifæri til að tjá sig og verjandi hans fékk tækifæri til að leggja spurningar fyrir hann. Allt gekk þetta vel fyrir sig undir styrkri stjórn dómarans.

Saksóknarinn fór yfir málið og vitnaði í skýrslur lögreglunnar. Ég ætla ekki að fara út í þær hræðilegu lýsingar hér. DV skýrði frá þeim á miðvikudaginn.

Réttarhöldin yfir morðingja Freyju hafin í Árósum – Hryllilegar lýsingar úr dómsal

Það sem ég ætla að fjalla um er framburður Flemming. Hann skýrði frá atburðarásinni og hvernig hann myrti Freyju og hlutaði lík hennar síðan í sundur. Hann lýsti síðan því „leikriti“ sem hann setti upp til að leyna glæpnum. Þegar saksóknari spurði hann af hverju hann hefði myrt Freyju sagðist hann telja að andlegt ástand hans hafi ráðið mestu þar um en hvað nákvæmlega hefði verið vendipunkturinn gæti hann ekki sagt til um, ef hann vissi það hefði hann örugglega ekki orðið henni að bana.

Mat geðlækna

Saksóknari kynnti niðurstöðu geðrannsóknar á Flemming og sagðist hann aldrei hafa fengið álíka niðurstöðu í hendurnar, hún væri svo afgerandi varðandi einn þátt. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar er ekki talin mikil hætta á að Flemming beiti ókunnuga og þá sem hann þekkir lítið ofbeldi. En hvað varðar þá sem eru honum nánir er staðan allt önnur. Læknarnir telja hann geta verið þeim mjög hættulegur og líklegur til að beita þetta fólk ofbeldi og jafnvel verða því að bana.

Hann á erfitt með að stjórna skapi sinu, er mjög sjálfselskur og skortir þekkingu á eigin göllum og skapi og það gerir hann mjög hættulegan að mati geðlæknanna. Þeir segja hann hafa gerst sekan um króníska hegðun með því að drepa öðru sinni og tóku sérstaklega fram að hann hafi dreymt um að myrða Freyju áður en hann lét verða af því.

Hann hafi ekki getað sætt sig við að hún sleit hjónabandi þeirra. Hann hafi treyst mikið á hana, verið háður henni og þarfnast viðurkenningar hennar. Hann hafi dreymt um að þau myndu ná saman á nýjan leik og hafi njósnað um Freyju eftir skilnaðinn. Hann hafi verið ósáttur við að hún hafi viljað fara ein í frí og að hún hafi átt í sambandi við aðra karla og stundað kynlíf með þeim.

Flemming Mogensen. Skjáskot af Instagram.

Hann byrjaði í sálfræðimeðferð eftir að hann og Freyja skildu en hafði ekki sótt sér aðstoð sálfræðinga áður. Mat geðlækna var að hann sé ekki geðveikur og hafi ekki verið það þegar hann myrti Freyju. Hann sé meðalgreindur og hafi lokið námi og verið í vinnu nær allan þann tíma sem hann hefur ekki setið í fangelsi.

Þegar saksóknarinn spurði Flemming út í niðurstöðu geðrannsóknarinnar sagðist hann sammála um að hann eigi erfitt með að bindast öðru fólki böndum og geri sér oft mjög óraunhæfar hugmyndir. „Ég lifi eiginlega í öðrum heimi en annað fólk,“ sagði hann.

Það sem vakti óhug minn og eflaust fleiri var að hann sagðist í raun vera skíthræddur við sjálfan sig.

Það sem hann sagði fyrir dómi snerist að mestu um gagnrýni á að hann hefði ekki fengið nægilega sálfræðiaðstoð eftir fyrra morðið og að hann teldi það eiginlega vera ástæðu fyrir því að hann hafi myrt Freyju. Hann gagnrýndi einnig að hann hafi ekki fengið slíka aðstoð í þá 10 mánuði sem hann hafði setið í gæsluvarðhaldi fram að réttarhöldunum. En það kom einnig fram að hann hafði aðeins einu sinni leitað eftir sálfræðiaðstoð frá því að hann lauk afplánun dómsins fyrir morðið á Kristina Hansen. Hann mótmælti því sem fram kom í niðurstöðum geðrannsóknarinnar að hann hefði dreymt um að myrða Freyju áður en hann lét verða af því. Hann vildi lítið ræða það „leikrit“ sem hann setti á svið eftir að hann myrti Freyju, þar sem hann var með börnin þeirra og lét sem hann vissi ekki hvar hún væri en þá hafði hann falið lík hennar uppi á lofti á heimili hennar.

Framburður hans staðfesti eiginlega það sem kom fram í geðrannsókninni, að hann sé sjálfselskur og eigi erfitt með að sjá eigin galla. Ég fékk þá tilfinningu að Flemming sé best geymdur í fangelsi, svo hættulegur sé hann umhverfi sínu. Það sem hann sagði dró einfaldlega upp þá mynd að hann sé maður sem hugsar fyrst og fremst um sjálfan sig og eigin hagsmuni og setji ofar öllu öðru.

Hann má reikna með að eyða því sem hann á eftir ólifað í fangelsi, að minnsta kosti þarf margt að breytast til að hann fái reynslulausn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Segist fyrst hafa vitað um hegðun Einars á föstudaginn – „Við erum bara að átta okkur á stöðunni“

Segist fyrst hafa vitað um hegðun Einars á föstudaginn – „Við erum bara að átta okkur á stöðunni“
Fréttir
Í gær

Birta samskipti Einars við skjólstæðing SÁÁ sem var í vændi – „Sæl, býður þú upp á heimsóknir$“

Birta samskipti Einars við skjólstæðing SÁÁ sem var í vændi – „Sæl, býður þú upp á heimsóknir$“
Fréttir
Í gær

Matvöruverð hækkar umfram vísitölu neysluverðs – COVID-hækkanir

Matvöruverð hækkar umfram vísitölu neysluverðs – COVID-hækkanir
Fréttir
Í gær

Einar segir af sér sem formaður SÁÁ – „Fyrir nokkrum árum svaraði ég auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu“

Einar segir af sér sem formaður SÁÁ – „Fyrir nokkrum árum svaraði ég auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu“
FréttirMatur
Í gær

Fullkominn mánudagsfiskur í sparifötum

Fullkominn mánudagsfiskur í sparifötum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ágústa Eva berst gegn Covid-bólusetningum barna – „Fólk er almennt ekki til í að útskúfanir og þvinganir og kúganir séu partur af þeirra tilveru“

Ágústa Eva berst gegn Covid-bólusetningum barna – „Fólk er almennt ekki til í að útskúfanir og þvinganir og kúganir séu partur af þeirra tilveru“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heiðaþing eða Everything? Óskað eftir hugmyndum að nafni á sameinað sveitarfélag

Heiðaþing eða Everything? Óskað eftir hugmyndum að nafni á sameinað sveitarfélag