fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Ráðgjafar, ráðherrar og ráðfrúr

Eyjan
Sunnudaginn 6. júní 2021 18:08

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983. Mynd/Stjornarradid.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú eru flokkarnir í óða önn að gera framboðslista sína klára fyrir komandi alþingiskosningar og víða hart barist um efsta sætið því það er helsta von stjórnmálamanna til hinna æðstu metorða stjórnmálanna: að verða ráðherra. Þetta orð — ráðherra — er nokkuð sérstakt en eftir að þingræði komst á í Danmörku í byrjun tuttugustu aldar var Íslendingum tryggð heimastjórn. Þá þurfti að finna hinu nýja og virðulega æðsta embætti íslensks ráðamanns heiti. Lengi hafði tíðkast í íslensku að tala um ráðgjafa konungs en það þótti í senn fallegra og tákna betur vald æðsta íslenska embættismannsins að gefa honum titilinn ráðherra. Röksemdirnar voru einkum þær að ráðgjafi hefði átt betur við þegar konungur var einvaldur.

Í öllum öðrum germönskum málum eru ráðherrar kallaðir minister ef færeyska er undanskilin þar sem notuð eru orðin ráðharri/ráðfrú og landsstýrismaður. Minister er komið úr frönsku, ministre, sem aftur er dregið af latneska orðinu minister sem merkir þjónn (dregið af lo. minor). Í íslensku er því notast við orð sem að uppruna er beinlínis andstæðrar merkingar.

Herrarnir eru víðar, sbr. embættisheitin skipherra og sendiherra. Í frönsku, ensku og Norðurlandamálunum er notast við orðið ambassadeur um þann síðarnefnda með örlitlum tilbrigðum, en ambassadeur var fyrst var notað á 14. öld og er dregið af orðinu ambaht í forn-háþýsku sem merkir þjónusta (sbr. Amt í þýsku).

Með öðrum orðum: Þá embættismenn sem á nágrannatungum eru kenndir við þjóna nefnum við herra — ráðherra er herrann sem fer með valdið samkvæmt skýrum orðanna hljóðan. Sú hugsun býr aftur á móti að baki orðinu í tungum nágrannaþjóða (að færeysku undanskilinni) að valdamestu embættismennirnir séu þjónar — ef til vill konunga og hertoga á árum áður — en þjónar almennings á okkar tímum.

„Ó, kom í hátign, Herra minn. / Þér heilsar allur lýðurinn.“ Segir í einum af kunnari sálmum kirkjunnar og „Ungum er það allra best / að óttast Guð, sinn herra“ orti sálmaskáldið. Herra er þannig orð sem líka merkir Guð almáttugan og kannski óheppilegt í nútímanum að nota slíkt heiti yfir dauðlega menn. Birtist ekki úreltur hugsunarháttur í orðalagi af þessu tagi?

Konur geta verið herrar

Þessi umræða er síður en svo ný af nálinni. Á 123. löggjafarþingi 1998–1999 fluttu þingmennirnir Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Svavar Gestsson tillögu til þingsályktunar um nýtt starfsheiti fyrir ráðherra. Árið 2007 lagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir alþingismaður síðan fram efnislega samhljóða tillögu. Meginröksemdir tillagnanna lutu að jafnrétti kynjanna. Ýmsum starfsheitum hefði verið breytt á umliðnum árum sem miðuðu þó eingöngu að því að koma í veg fyrir að karlmenn yrðu kvenkenndir, hjúkrunarkonur hefðu orðið hjúkrunarfræðingar og fóstrur leikskólakennarar. Grípum niður í greinargerðina:

„Það særir ekki málkennd manna þótt konur séu forsetar, kennarar eða forstjórar en öðru máli gegnir um orðið „herra“. Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að kona sé herra, heldur er það merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú. Orðið herra merkir tvennt samkvæmt orðabók Menningarsjóðs, annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann og ljóst er að síðarnefnda merkingin er frá þeim tíma þegar aðeins karlar gegndu slíkum stöðum. Það er því mikið réttlætismál að þessum starfsheitum verði breytt.“

Þegar tillagan var borin upp höfðu 98 karlar gegnt ráðherraembætti á Íslandi en aðeins fimm konur. Síðan þá hafa fjölmargar konur sest á ráðherrastóla vandkvæðalaust í málfræðilegu tilliti. Það hefur því verið „sannað“ síðan með óyggjandi hætti að konur geta verið herrar (og án efa fólk af fleiri kynjum en karlar og konur) enda er ekkert beint samband milli málfræðilegs kyns annars vegar og kynferðis hins vegar. Starfstitlar geta meira að segja verið í hvorugkyni, sbr. skáld. Og konur eru menn og líka alþingismenn.

Þjónar almennings

Í áðurnefndum þingsályktunartillögum var bent á að orðin í nágrannlöndunum væru ekki eins „valdbjóðandi“ og orðið ráðherra, eða eins og sagði í greinargerð:

„Erlendu orðin hafa lýðræðislegra yfirbragð og gefa skýrar til kynna að viðkomandi séu þjónar fólksins fremur en herrar.“

Enda merkir minister beinlínis þjónn á latínu líkt og áður var rakið. Í ensku, frönsku og fleiri tungumálum verða menn gjarnan að kunna eitthvað fyrir sér í latínu til að átta sig á uppruna orða. Íslenskan er aftur á móti miklu gegnsærri og allir fara nærri um að herrann er sá sem valdið hefur — hann, hún (já, eða það) er húsbóndinn. Íslendingar eru almennt ekki mikið gefnir fyrir titla. Hér á landi þykir meira að segja tilgerðarlegt að nota doktorsnafnbætur og jafnan aðeins forseti Íslands og biskupinn sem hafa fengið að njóta titilsins herra á seinni tímum — já, eða frú. En þetta er líka á undanhaldi.

Mætti þá ekki afleggja hina herratitlana líka? Kannski skipherrann fengi að halda sér — enda er hefur hann húsbóndavald. Ráðherrarnir og sendiherrarnir eru aftur á móti þjónar almennings og verðskulda titla sem endurspegla betur þeirra eiginlega hlutverk. Hér með er kallað eftir tillögum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund