fbpx
Laugardagur 29.janúar 2022
Eyjan

Arfleifð Sjálfstæðisflokksins, grein eftir Helga Hjálmarsson

Egill Helgason
Fimmtudaginn 16. apríl 2009 15:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Hjálmarsson sendi mér þessa grein. Ég býst við fjörugum umræðum um hana, en tek fram að ég er tilbúinn að birta greinar sem eru andsvör við henni.

— — —

Enginn flokkur hefur nokkurn tíma á lýðveldistímanum haft eins öflugt tækifæri til að laga hagkerfið að stefnu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn hafði nú í janúar ráðið fjármálaráðuneytinu samfellt í 17 ár, forsætisráðuneytinu nánast samfellt í sama tíma og auk þess hefur hann verið með pólitískt skipaðan formann bankastjórnar og bankaráðs Seðlabankans samfellt síðustu árin. Loks er nýhættur forstjóri fjármálaeftirlitsins, Jónas Fr. Jónsson, fyrrum framámaður í ungliðahreyfingu flokksins. Auk þess hefur flokkurinn megnið af þessu tímabili verið ráðandi í bankaráðum ríkisbankanna og eftir einkavæðingu sat Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins til margra ára, í bankaráði Landsbankans.

Í ljósi þessara miklu áhrifa Sjálfstæðisflokksins og stöðu Íslands í dag – botnlaust skuldafen ríkissjóðs, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga auk þess sem trúverðugleiki okkar á erlendum vettvangi hefur borið varanlegan hnekki – má segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi framið efnahagslegt „harakiri”. Ljóst er að ábyrgð annara stjórnmálaflokka er einnig mikil – einkum þeirra sem voru í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á undanförnum árum en hún bliknar þó við hliðina á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem var í bílstjórasætinu við hagstjórnina allan tímann.

Í þessari grein er þó alls ekki verið að leitast við að létta ábyrgð af öðrum sem mikla ábyrgð bera á því hvernig fór, svo sem eigendum og stjórnendum bankanna. Markmið greinarinnar er miklu frekar að opna augu þjóðarinnar fyrir þeim stórkostlegu afglöpum sem forystusveit Sjálfstæðisflokksins hefur orðið uppvís að og að hrunið nú er í raun gjaldþrot þeirrar efnahagsstefnu sem rekin hefur verið. Við Íslendingar erum nefnilega ekki saklaus fórnarlömb alþjóðlegrar fjármálakreppu eins og fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, heldur einatt fram. Nú síðast í stórmerkilegu viðtali þann 12 febrúar á HARDtalk á BBC þar sem hann harðneitar að biðja nokkurn mann afsökunar á núverandi ástandi hér á landi.

Veðsetning kvótans

Segja má að vitleysan hafi byrjað þegar heimilað var að veðsetja kvótann. Aldrei hefur nokkur stétt manna fengið eins ríflegan eftirlaunasjóð og útvegsmenn þegar menn seldu veiðiheimildirnar og fóru út úr greininni. Greinin situr svo eftir allt of skuldsett, en féð var notað til að byggja hallir í Reykjavík og ennfremur sem upphafsfjármagn í frekari gírun við fjárfestingar erlendis – hina svokölluðu útrás. Einn helsti hugmyndafræðingur flokksins, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, lýsti hve stórkostleg stefna þetta var í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 á árinu 2007 þar sem hann dásamaði Íslenska efnahagsundrið:

„Fiskistofnarnir voru verðlausir áður fyrr, óframseljanlegir, óveðhæfir, óseljanlegir, síðan er kvótum úthlutað og þá verður til fjármagn þarna.”

Aðeins síðar í sama viðtali segir Hannes:

„Hér á Íslandi hefur síðustu 16 árin verið að myndast gríðarlega mikið fjármagn og svo fóru bara víkingarnir með þetta fjármagn út.”

Við vitum nú betur að ekkert fjármagn „myndaðist” heldur var það tekið að láni út á afar vafasöm veð og við sitjum nú illilega í súpunni.

Hnignun siðferðis

Hreinn Loftsson skrifaði athygliverða grein í DV þann 22. ágúst 2008 um stuðning Íslendinga við Íraksstríðið. Þar vitnar Hreinn í eftirfarandi ummæli Bjarna Benediktssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins:

„Þeir eru allt of margir, ekki sízt á opinberum vettvangi, sem hafa tamið sér það að tala svo um andstæðinga sína sem þeir væru samblönduð hjörð fábjána og misindismanna … slík baráttuaðferð er átakanlegt vitni þröngsýni og víðsýnisskorts. Hún er merki sjálfsbirgingshrokans, sem telur sig einan vita allt, þykist sjálfum sér nógur og upp yfir það hafinn að læra af öðrum … Í fyrstu byrja sumir sjálfsagt þennan leik í hálfkæringi og alvöruleysi. Enda er það auðveldasta aðferðin í deilum um alvarleg mál að svara með getsökum og aðdróttunum. Áður en varir eru svo þeir, sem slíkt hafa um hönd, farnir að trúa sjálfum sér og verða þar með þröngsýnni með hverri stund er líður. Og verra en það. Sá, sem trúir því, að andstæðingi sínum gangi illt eitt til og hann kjósi fremur rangt en rétt, lendir áður en varir í þeirri hættu að hverfa frá baráttuaðferðum lýðræðisins. Það er býsna almenn trú, að illt skuli með illu út reka. Ef menn telja því að við óþokka eina að eiga, þá er viðbúið, að ekki verði þokkabrögðum einum beitt til að koma þeim fyrir kattarnef.”

Davíð Oddson hefði betur kynnt sér betur speki forvera sinna því það er engu líkara en að þessi texti hafi verið sérstaklega saminn um hann og framkomu hans á umliðnum árum. Hér verður í upphafi látið nægja að birta tvær tilvitnanir í Davíð þar sem hann tjáir sig um andstæðinga sína í stjórnmálum:
“En Samfylkingin er eins og gamall afturhaldskommatittsflokkur …”
„Vindhanar verða aldrei áttavitar, hvorki til sjós né lands.“

Það kom ekki á óvart að Davíð er svo enn við sama heygarðshornið – nú á landsfundi Sjálfstæðismanna – er hann tjáir sig um nýjustu andstæðinga sína:
   „hin verklausa vinstri stjórn“
„lausamann úr norska verkamannaflokknum“

„Hin svokallaða endurreisnarskýrsla er hins vegar mikil hrákasmíð, illa samin og full af rangfærslum ég sé mikið eftir þeim fallega trjágróðri sem felldur hefur verið til að prenta þetta plagg í stóru upplagi. Það er þó ekki hægt með sanngirni að neita því að það sýnir athyglisverða kímnigáfu að fela manninum sem var ráðinn af Jóni Ásgeiri, Hreiðari Sigurðssyni og Hannesi Smárasyni til að stýra Samtökum Atvinnulífsins að undirbúa nýjar siðareglur fyrir Sjálfstæðismenn.”

Viðbrögð fundarmanna er hylltu hann lengi að lokunni ræðunni var hins vegar óvæntari og ekki er að sjá að Sjálfstæðismenn telji Davíð eiga mikla sök á því hvernig komið er fyrir þjóðinni.

Báknið burt?

Það er með ólíkindum að flokkur sem hefur á stefnuskrá sinni að auka veg einkaframtaksins og skera burt allan óþarfa ríkisrekstur hafi tekist – að því er virðist í sátt við sína eigin flokksmenn – að blása ríkisapparatið svo mikið út að atvinnulífið í landinu mun aldrei ná að standa undir því. Á mynd 1 er sýnt hvernig tekjur og gjöld ríkissjóðs hafa vaxið sem hlutfall af landsframleiðslu síðustu ár en tölur fyrir 2009 og 2010 eru skv. áætlun fjármálaráðuneytisins.

sjalfstadisflokkurinn_mynd1.gif
Sem kunnugt er tók Sjálfstæðisflokkurinn við stjórn efnahagsmála á árinu 1991 og nokkru síðar hefst hinn mikli vöxtur í tekjum ríkissjóðs. Þá er athyglivert er að hér er einungis verið að tala um tekjur ríkissjóðs en auk einkavæðingar, sem hefði átt að minnka ríkisumsvifin, hafa stór verkefni verið flutt til sveitarfélaga á þessu sama tímibili, svo sem grunnskólinn. Þá verður að gæta þess að á þessu grafi virðist hafa verið settur hemill á útgjöldin frá 2003-2007 en þá lækkar hlutfall gjalda af landsframleiðslu verulega. Svo er þó ekki. Óhófleg þensla olli tímabundum vexti í þjóðarframleiðslu en raunveruleg útgjöld ríkissjóðs uxu úr 384 milljörðum í 553 milljarða á þessum árum sem er rétt um 30% að raungildi. Stefán Ólafsson prófessor hefur verið óþreytandi við að birta greinar um þetta og komst hann reyndar að þeirri niðurstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt heiðurinn að heimsmeti okkar Íslendinga í hækkun skatta síðasta áratuginn. Þessari staðreynd hefur Árni Matthiessen fyrrverandi fjármálaráðherra þráfaldlega neitað þar til loks að fyrrverandi ríkisskattstjóri og fjármálaráðuneytið sjálft komust að sömu niðurstöðu og Stefán sem reyndar blasir við þegar meðfylgjandi graf er skoðað.

Minnkandi tekjur sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á árum 2009-2010 er væntanlega óskhyggja því erfitt verður að fjármagna gífurlegan halla á ríkissjóði og því standa fyrir dyrum mjög sársaukafullur niðurskurður á ríkisútgjöldum og hækkun skatta til að brúa þetta bil.

Frjálshyggja?

Af framansögðu er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun verið ríkisafskiptaflokkur. Skemmst er að minnast ósvífnustu hlutabréfasölu Íslandssögunnar er ríkisbankarnir, Landsbanki og Búnaðarbanki, tóku að sér að selja hlutabréf í Decode með úthringingum til almennings á árinu 2000. Það sem einkum er magnað við þá sölu er að félagið var óskráð á þeim tíma og voru því engar upplýsingar á lausu um félagið og því voru kaup í félaginu eins og kaup á hverjum öðrum happadrættismiða! Ákveðnir aðilar högnuðust vel á þessum viðskiptum og hurfu m.a. nokkur hundruð milljónir til félags í Lúxemborg sem aldrei var gefið upp hver var eigandi að. Sérgæska Sjálfstæðisflokksins gagnvart félaginu endaði ekki þar því að á árinu 2002 voru sett lög nr. 87 og eru þau svo hljóðandi:

“1. gr. Fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, er heimilt, í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi, að veita einfalda ábyrgð á skuldabréfum, útgefnum af móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar ehf., deCODE Genetics Inc., að fjárhæð allt að 200 milljónir USD til fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. á sviði lyfjaþróunar. Fjármálaráðherra veitir ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gild.
2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, að undanskilinni 5. gr. þeirra laga, gilda ekki varðandi þá ábyrgð sem lög þessi taka til.”

Þessi lög lýsa vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn. Í fyrsta lagi er fjármálaráðherra algjörlega í sjálfvald sett hvaða skilyrði Decode þurfi að uppfylla og í annan stað gilda ekki lög um ríkisábyrgðir um þessa ábyrgð en í þeim er m.a. farið fram á að ríkisábyrgðarsjóður skuli framkvæma mat á greiðsluhæfi skuldara áður en til veitingar ábyrgðarinnar kemur. Ef ég man rétt var það einungis Pétur Blöndal af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem þorði að vera á móti þessu dæmalausa máli og dugði það honum til að falla í ónáð hjá formanninum.

Það kemur því e.t.v. ekki á óvart að formaður stjórnar Frjálshyggjufélagsins, Gunnlaugur Jónsson, skilgreindi fjármálakerfið á eftirfarandi hátt í Morgunblaðinu þann 15. janúar 2009:

„Fjármálakerfi Vesturlanda er ekki byggt á frjálshyggju, heldur því sem kallað hefur verið pilsfaldakapítalismi, sósíalismi andskotans eða velferðarkerfi hinna ríku. Gróðinn fer til einkaaðila en ríkið tekur á sig tapið. Þegar kapítalistar fá óútfylltan tékka frá ríkinu er voðinn vís”

Ljóst er að fjármálakerfið á í miklum vandræðum víða á Vesturlöndum en hvergi í veröldinni hafa tékkarnir verið hlutfallslega stærri sem stjórnvöld afhentu vildarvinum sínum en hér á landi. Nægir hér að nefna 80 milljarðana sem Seðlabankinn lét Kaupþingi í té korteri fyrir hrunið sem þeir þökkuðu pent fyrir með því að afhenda eigendum sínum á silfurfati gegn vonlausum veðum.

Einkavæðingin

Það er í raun magnað hversu mikið ríkið hefur þanist út þrátt fyrir einkavæðingu á heilu bankakerfi og fjölmörgum ríkisfyrirtækjum. Framkvæmd einkavæðingarinnar lagði hins vegar grunn að þeirri siðblindu sem ríkt hefur í fjármálakerfi þjóðarinnar síðan. Hér verða tekin tvö dæmi.

Sala á 40% hlut í Íslenskum aðalverktökum (ÍAV) var á endanum dæmd ólögmæt í hæstarétti en subbuskapurinn í þeirri sölu var með ólíkindum og ljóst að kaupendum félagsins voru gefnar hundruðir milljóna af almannafé. Í þeirri sölu naut Sjálfstæðisflokkurinn dyggilegrar aðstoðar Framsóknarflokksins. Vildarvinir flokksins keyptu 40% hlut í ÍAV á um 2 milljarða kr. á árinu 2003 en ári síðar seldi ÍAV Blikastaðalandið – sem var vísvitandi vanmetin eign félagsins í söluferlinu – á tæpa 3 milljarða og greidd svo nýjum eigendum út 2,3 milljarða króna í arð !

Framkvæmdin við einkavæðingu bankana var einnig með miklum endemum þar sem ráðherrar höfðu bein afskipti af störfum einkavæðingarnefndar og vinnan gekk út á að tryggja réttum aðilum bankana en verðið skipti engu málu. Þessum vinnubrögðum mótmælti Steingrímur Ari Arason og sagði sig úr nefndinni með svohljóðandi bréfi til Davíðs Oddsonar:

„Í framhaldi af þeirri ákvörðun ráðherranefndar um einkavæðingu að ganga til viðræðna við Samson ehf um kaup á umtalsverðum hlut í Landsbanka Íslands hf hef ég ákveðið að segja mig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Ástæðan eru þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða. Ég hef setið sem fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 og aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum”

Steingrímur Ari vonast svo eftir að óhlutdrægur aðili fari í saumana á málinu en það hefur aldrei verið gert og fjármálaráðuneytið hefur heykst á að veita upplýsingar um það.

Endalok lýðræðisins – Stuðningur við Íraksstríðið

Hinir siðblindu ráðamenn síðustu ára sýndu okkur hvernig vinnubrögðum þeir telja eðlilegt að beita við aðsteðjandi vanda þegar Bandaríkjamenn tilkynntu stjórnvöldum í desember árið 2002 að þeir hefðu ákveðið að kalla herþoturnar frá herstöðinni í Keflavík. Sú ákvörðun er reyndar nokkuð augljós þegar það tekur um tvo tíma að fljúga orrustuþotu til landsins frá Skotlandi og að Bandaríkjamenn voru að loka herstöðvum um allan heim á þessum tíma, þ.á m. í Bandaríkjunum, m.a. vegna mikilla útgjalda við stríðið í Afganistan. En þeir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson töldu enga ástæðu til að ræða þessa ákvörðun Bandaríkjastjórnar í ríkisstjórninni, í utanríkismálanefnd, á Alþingi svo maður tali nú ekki um að greina þjóðinni frá henni. Nei, þessir herramenn ætluðu sjálfir að redda málinu án þess að láta kóng eða prest vita eins og kemur fram í bók Vals Ingimundarsonar sagnfræðings: „Uppbrot hugmyndakerfis. Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu, 1991-2007”.  Davíð leitaðist við að redda málunum með hótunum um að segja upp varnarsamningum og með því að ráða hagsmunaverði (e. lobbyist) til að leita stuðnings þingmanna í Bandaríkjunum sem varð stjórnvöldum í Washington til lítillar gleði. Þremur mánuðum síðar ákváðu þessir sömu menn upp á sitt einsdæmi fyrir hönd þjóðarinnar að styðja stríðsreksturinn í Írak með því að setja okkur á lista hinna viljugu þjóða. Þó svo að Davíð hafi dregið vagninn í þessum ákvörðunum var það Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sem bar ábyrgð á þeim og er í raun furðulegt að stjórnarandstaðan hafi ekki kært hann fyrir Landsdóm fyrir þessi vinnubrögð. Niðurstaðan varð svo að sjálfsögðu sú að þoturnar og herinn fóru en trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda beið mikinn hnekki.

Að vera flokknum þóknanlegur – endalok Þjóðhagstofnunar

Á undanförnum árum skiptir heiðarleiki og meira að segja löghlýðni embættismanna er sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins engu máli en undirgefni við forustuna skiptir öllu máli. Þannig var t.a.m. Þjóðhagsstofnun illu heilli lögð niður í kjölfar birtingar þjóðhagsspár sem var Davíð Oddssyni ekki þóknanleg. Ég held að það sé ekki nokkrum vafa undirorpið að sú ákvörðun átti stóran þátt í hruninu í haust. Í fyrsta lagi var starfsmönnum ríkisstofnana gerð skýr grein fyrir því að þeir skyldu ekki voga sér að gagnrýna hagstjórnina og í öðru lagi var í kjölfarið enginn greiningaraðali á markaði sem ekki var jafnframt gerandi á þeim sama markaði.

Hins vegar var Sjálfstæðisflokkurinn fljótur að fyrirgefa þeim Þórarni Viðari Þórarinssyni og Árna Johnsen makalausan þjófnað á almannafé þó svo að maður hefði álitið að menn sem yrðu uppvísir að slíku ættu að finna sér störf á öðrum vettvangi. Þá er augljóst að flokkurinn hefur haldið verndarhendi yfir sínum helsta hugsuði – Hannesi Hólmsteini Gissurarssyni – sem af óskiljanlegum ástæðum heldur starfi sínu sem prófessor við Háskóla Íslands þrátt fyrir að hafa orðið uppvís að stórfelldum ritstuldi en nemendur eru jafnan reknir úr þeim sama skóla fyrir slíkt brot!

Tilraun til að enda frjálsa fjölmiðlun á Íslandi – Fjölmiðlalögin

Flokkurinn gat ekki þolað gagnrýni fjölmiðla frekar en forystumanna ríkisstofnana. Því var farið af stað með fjölmiðlalög sem takmarka áttu mjög frelsi til fjölmiðlarekstrar. Fyrstu frumvarpsdrögin – sem samþykkt voru samhljóða í þingflokki Sjálfstæðisflokksins – gengu svo langt að Morgunblaðið sá sig knúið til andsvara sem varð m.a. til þess að lögin sem síðar voru samþykkt voru talsvert milduð frá upphaflegum hugmyndum. Góðu heilli hafnaði forsetinn að skrifa undir lögin og við búum því enn við þokkalegt frelsi í fjölmiðlum þó svo að málsmetandi fólk í Sjálfstæðisflokknum leyfi sér að halda því fram að þokkalega frjálsir fjölmiðlar séu ein meginástæðan fyrir hruninu !

Eftirlaunalögin

Ég held að maður þurfi að leita í einræðisríki Afríku eða Suður-Ameríku til að finna lagasetningu sem svo augljóslega var samin til að tryggja Davíð Oddssyni frábær eftirlaun óháð því hvað hann tæki sér fyrir hendur að loknum stjórnmálaferlinum. Það varð forystumönnum stjórnarandstöðunnar, þeim Steingrími J. Sigfússyni, Össuri Skarphéðinssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni, óneitanlega til mikillar minkunar að láta kaupa sig til að samþykkja þessi ólög. Varðandi það hvernig lögin eru klæðskerasaumuð utan um Davíð Oddsson skerða allar tekjur eftirlaunin – nema fyrir ritstörf! Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo barist hatramlega gegn breytingum – væntanlega til að styggja ekki sinn fyrrum formann – og breytingar fyrrverandi ríkisstjórnar á lögunum voru í raun hlálegur kattaþvottur.

Mannaráðningar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið æ djarfari með hverju árinu sem líður að ráða vini, vandamenn og flokksgæðinga í embætti á vegum ríkisins. Nægir þar að nefna ráðningu sonar Davíðs Oddssonar í embætti dómara þrátt fyrir að hann væri augljóslega ekki hæfasti einstaklingurinn. Auk þess hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fengið á sig nokkra dóma vegna ólögmætra stöðuveitinga og kostað ríkissjóð stórfé. Þá taldi flokkurinn enga þörf á að auglýsa stöðu seðlabankastjóra því þeir voru hvort sem er svo heppnir að hæfasti maðurinn af öllum – Davíð Oddsson – sóttist eftir starfinu! Sjálfstæðisflokkurinn hafði í raun sýnt ótrúlega framsýni nokkru áður því í nýju lögunum um Seðlabankann frá 2001 er sérstaklega tekið fram að ekki þurfi að auglýsa stöðu seðlabankastjóra !

Eftirágreiðslur lána frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN)

Það var með ólíkindum skammsýnt af Ólafi G. Einarssyni menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins frá 1991-1995 að breyta útlánareglum LÍN þannig að lánin væru greidd út eftirá en vísa námsmönnum á bankana til að framfleyta sér fram að útborgun lánanna. Breytingin var gerð til að bjarga einum fjárlögum því þá fluttust umtalsverðar greiðslur yfir á næsta fjárlagaár! Þá verður að teljast makalaust að á undanförnum árum er ríkissjóður hefur blásið út hafi þessu ekki verið breytt en í verðbólgubálinu sem nú geisar skerðast námslánin um 20% vegna þessa. Auk þess hefur þetta kennt ungu fólki á Íslandi að það sé í góðu lagi að lifa á yfirdrætti og halda því nýútskrifaðir námsmenn gjarnan áfram þeim ósið að námi loknu. Nú má kalla þessa kynslóð sem varð fórnarlamb þessarar breytingar gjaldþrotakynslóðina og mun hún á næstu árum eflaust flýja land í auknum mæli og getur Sjálfstæðisflokkurinn eignað sér að miklu leyti heiðurinn af því.

Peningamálastefnan

Sjálfstæðisflokkurinn ber meginábyrgð af setningu laga um Seðlabanka Íslands frá 2001 þar sem peningamálastefnan gengur út á að viðhalda verðbólgumarkmiði. Með verðbólgumarkmiðið að vopni hefur Seðlabankinn rekið hér hávaxtastefnu sem hefur það að meginmarkmiði að draga að skammtíma erlent fjármagn til að berjast gegn verðbólgu og þar með falsa lífskjörin í landinu tímabundið. Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og prófessor við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, hefur sýnt okkur Íslendingum þann heiður að skrifa greinar í hérlend blöð um efnahagsmál. Joseph sá strax árið 2001 í hvað stefndi og kom fram með fjölmargar ráðleggingar sem Guðmundur Örn Jónsson verkfræðingur birti í grein í Morgunblaðinu þann 10. janúar 2009, sem meðal annars snerust um gegnsæi í skuldastöðu þjóðarinnar og að komið væri í veg fyrir fasteignabólur, sem stjórnvöld hefðu betur tekið alvarlega. Aftur skrifaði hann fyrir daufum eyrum stjórnvalda í maí í fyrra um að notkun verðbólgumarkmiðs við stjórn peningamála væri dauðadæmd og myndi leiða miklar hörmungar yfir almenning á Íslandi sem nú er komið á daginn. Sjálfstæðisflokkurinn sá ekki þörf á að breyta þessari stefnu þrátt fyrir hrunið eftir því sem ég best veit.

Stjórn Seðlabankans – í orði og á borði

Ég held að flestir landsmenn hafi orðið fyrir miklu áfalli þegar í ljós komu hinar gífurlegu lánveitingar Seðlabankans til fjármálastofnanna hér á landi. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi í veraldarsögunni að Seðlabanki, sem í orði kveðnu er að berjast gegn þenslu og hefur því himinháa stýrivexti, lánar á sama tíma fleiri hundruð milljarða króna til fjármálafyrirtækja sem hann er að hvetja til að draga úr útlánum!  Ég veit ekki hvort upplýsingar um þessar lánveitingar séu birtar einhvers staðar opinberlega en svo virðist sem Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri hafi ekki vitað um stöðu þessara lánveitinga því þann 22. nóvember fullyrti hann í grein í Fréttablaðinu að Seðlabankinn væri ekki gjaldþrota sem er sérkennileg yfirlýsing í ljósi þess að eigið fé bankans var um 90 milljarðar króna í lok nóvember en töp vegna veðlánanna eru um 220 milljarðar og á bilinu 40-80 milljarðar króna vegna yfirtöku á FIH bankanum. Þá eru veðlánin til fjármálafyrirtækjanna enn sérkennilegri í ljósi yfirlýsinga Davíðs Oddsonar um að hann hafi greint stjórnvöldum frá því í fyrra sumar að það væru 0% líkur á að bankarnir myndu lifa af. Í ljósi fyrri vinnubragða Davíðs skilur maður að hann skuli hafa setið sem fastast í hinum gjaldþrota Seðlabanka þrátt fyrir að óreiðumennirnir í hinum gjaldþrota bönkunum væru á brott, en hvað þeir stjórnmálamenn voru að hugsa að styðja hann áfram í embætti er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja.

Viðbrögð Davíðs við krísunni

Það bendir því allt til þess að stjórn Seðlabankans hafi ákveðið að redda fjármálakerfinu upp á eigin spýtur án þess að láta kóng eða prest vita. Seðlabankinn hafði fram að árinu 2006 aukið gríðarlega peningamagn í umferð eða úr um 350 milljörðum króna árið 2001 í um 740 milljarða árið 2006 er Seðlabankinn missti algjörlega tökin og var peningamagnið komið upp í um 1400 milljarða um mitt ár 2008. Á mynd 2 má glöggt sjá að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið sig vel í að prenta peninga.

sjalfstadisflokkurinn_mynd2.gif

Ætli við þurfum ekki að leita til Zimbabve til að finna land þar sem vöxtur peningamagns hefur verið hraðari, en aukið peningamagn endar ávallt með verðbólgu og lækkun á gengi gjaldmiðilsins. Það er svo afleit staða að sigla inn í kreppu með svo mikið peningamagn í umferð því þá er það vart valkostur að auka það enn frekar sem hefði þó mildað höggið. Þá bendir úrsögn Höllu Tómasdóttur úr stjórn Seðlabankans til þess að það hafi ekki átt upp á pallborðið hjá Davíð Oddsyni að ræða alla möguleika við lausn gjaldeyris- og bankakreppunnar.

Útlánaþenslan

Allt frá árinu 1991 hafa skuldir einstaklinga og fyrirtækja farið ört vaxandi hér á Íslandi en botnin hefur virkilega tekið úr frá árinu 2003 en árlegt meðaltal erlendrar skuldaaukningar frá 2003-2007 var 214 milljarðar kr! Ljóst er að stjórnvöld höfðu fjölmargar leiðir til að hefta útlánaþensluna og má þar meðal annars nefna:

1.    Gera fjármálastofnunum óheimilt að veita lán til kaupum í sjálfum sér
2.    Setja lög um að ekki mætti lána meira en sem nemur 50% af markaðsvirði hlutabréfa og girt með þeim einnig fyrir ofurskuldsetningu gegnum eignarhaldsfélög.
3.    Setja lög sem takmarka skuldsetningarmöguleika sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra.
4.    Setja mörk á hversu háar vaxtagreiðslur fyrirtæki gætu talið fram sem gjöld sem hlutfall af veltu í anda þess sem Danir veltu fyrir sér til að koma böndum á skuldsettar yfirtökur.
5.    Lækka hámarks veðhlutfall við kaup á íbúðarhúsnæði og bifreiðum.
6.    Þá hefði líklega eitthvað dregið úr útlánagleði bankanna hefðu verið sett lög sem takmarka ábyrgð lántakanda við eignina sem veðið er tekið í.

Það er því hjákátlegt að hlusta á Sjálfstæðismenn tala um það í dag að vandamál fjármálakerfins væri einvörðungu vegna gallaðra evrópskra regla um fjármálafyrirtæki og að ekkert hefði verið unnt að gera.

Aðvörunarorðum frá 2006 var í engu sinnt

Nú er vel þekkt að stjórnmálamenn eru aðallega áreitisdrifnir – þ.e.a.s. að þeir vinna helst ekki í neinum málum nema að eitthvað utanaðkomandi kalli á breytingar. Það sem er einna sorglegast við núverandi ástand er að stjórnvöld fengu mjög alvarlega áminningu um að uppbygging fjármálakerfins væri komin í ógöngur á árinu 2006 með skrifum danskra bankamanna og fleiri aðila. En í stað þess að bregðast við var gripið til hefðbundinna aðgerða um að gera boðberann tortryggilegan en ekki farið í neina vinnu að því er virðist til að bregðast við ástandinu. Ljóst er að Seðlabanki og ríkisstjórn höfðu öll þau tæki og tól sem til þurfti og gátu þau beitt bindiskyldu, lausafjárkröfum, kröfum um gjaldeyrisjöfnuð og skattlagningu til að hafa stjórn á vexti bankanna. Auk þess var einfalt mál með breytingu á lögum að setja hemil á skuldasöfnum sveitarfélaga, heimila og fyrirtækja eins og rakið er hér að ofan. Davíð Oddsson lýsti því hins vegar skilmerkilega í viðtali þann 30.11.2008 við Danska blaðið Fyens Stiftstidende (www.fyens.dk) að Seðlabankinn og ríkisstjórn bæru enga ábyrgð á því hvernig komið væri:

„Ef við hefðum haft frjálsa fjölmiðla, sem hefðu getað og viljað veita hinum raunverulegu valdamönnum aðhald, þá hefðum við ekki leiðst út í ofviðrið sem nú ríkir.”

Icesave

Í litlu kreppunni 2006 munaði víst aðeins hársbreidd að hér skylli á alvarleg gjaldeyriskreppa sökum þess að í raun lokaðist á skuldabréfaútgáfu bankanna þegar skuldatryggingarálagið fór í hæstu hæðir. Mjög líklegt má telja að ef Icesave reikningar Landsbankans hefðu ekki komið til hefði reynst erfitt fyrir þjóðarbúið að fjármagna hinn gríðarlega viðskiptahalla sem var á árunum 2006 og 2007 en hann var ríflega 500 milljarðar. Stofnun þessara reikninga var því stjórnvöldum mjög þóknanleg. Þá var það athyglivert að íslenskar lausafjárkröfur voru ákaflega veikar og því sóttist Landsbankinn eftir að fá að fara eftir íslenskum lausafjárreglum í stað þeirra bresku sem voru mun strangari. Bankinn fékk þessa undanþágu og því gat hann haldið áfram ótrauður að auka útlán sín. Eftir að Northern Rock bankinn hrundi í Bretlandi fór svo Landsbankinn að huga að því hvort tryggingarmálum Icesave reikninganna væri ekki betur komið undir breskri stjórn og eins og komið hefur fram í fjölmiðlum náði bankinn ekki að ljúka samningagerð varðandi flutning á ábyrgðum fyrir hrunið. Það sem er hins vegar athyglisvert er að íslensk stjórnvöld virtust ekkert vera að spá í þessi mál en maður hefði talið eðlilegra að Fjármálaeftirlitið íslenska hefði brugðist við þegar ljóst var að íslenska ríkið hafði enga burði til að tryggja innistæðurnar. Davíð Oddsson sannaði svo með afgerandi hætti að hann taldi sig í mars 2008 Seðlabankann geta tryggt framtíð stóru bankanna er hann svaraði spurningunni um hvort innlán í Íslensku bönkunum á erlendri grund væru tryggð ef bankarnir myndu falla á Channel 4 stöðinni í Bretlandi í lok mars 2008 með eftirfarandi orðum:

„Þessir bankar eru svo traustir að ekkert slíkt er líklegt til að gerast, og ef það myndi gerast værum við aldrei að tala um alla upphæðina, því það er aldrei þannig. En jafnvel þá, með íslenskan efnahag og íslenska ríkið skuldlaust, yrði þetta ekki of mikið fyrir ríkið til að ráða við.“

Á þessari stundu hefði ríkisstjórninni átt að vera orðið ljóst að skipta þurfti út fullkomlega veruleikafirrtri stjórn Seðlabankans.

Enn frekari hnignun siðferðis

Það er grundvallaratriði í nútíma siðfræði að menn séu fjárhagslega ábyrgir gerða sinna og borgi sínar skuldir, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða þjóðir sem stofna til skuldanna. Með þetta í huga var athyglivert að Davíð Oddson fullyrti í frægum Kastljóssþætti í miðju hruninu að við Íslendingar værum alls ekki í svo vondum málum því við ætluðum ekki að borga hinar gríðarlegu skuldir sem bankarnir höfðu stofnað til. Það skyldi þó ekki vera að hann sé að túlka almenna skoðun manna í stjórnkerfinu og því skapaðist ekki nein þörf að þeirra mati fyrir að hefta útþenslu bankanna eða koma með yfirlýsingu um að Seðlabankinn væri þess ekki megnugur að vera lánveitandi til þrautavara. Með þessu sendu stjórnvöld auk þess þau skilaboð út að það væri allt í lagi að hlaupa frá skuldum sínum og hafa allmargir einstaklingar og fulltrúar fyrirtækja talið eðlilegt að hætta að borga sína skuldir í þeirri von um að þær verði felldar niður án frekari málalenginga.

Vilji til breytinga var enginn

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var svo þess ekki megnug að breyta nokkru þá rúmu 100 daga sem hún starfaði eftir hrunið. Enginn var látinn víkja, engum lögum var breytt og hin sérkennilega peningamálastefna hélt áfram með himinháum vöxtum og svo einnig með gjaldeyrishöftum. Það er svo afar sérkennilegt að eftir að Geir H. Haarde og Þorgerður K. Gunnarsdóttir höfðu lýst því yfir eftir stjórnarslitin að Sjálfstæðiflokkurinn hefði verið tilbúinn til að skipta um stjórn í Seðlabankanum sprettur nú hver þingmaður Sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum fram á Alþingi, s.s. Björn Bjarnason og Pétur Blöndal, og ver seðlabankastjórana með kjafti og klóm.

Uppgjörið við hrunið

Almenningur í þessu landi á skýra kröfu á svörum um aðdraganda og örsök hrunsins og því þarf að opinbera öll gögn í tengslum við hrunið sem ætti að vera einfalt mál því væntanlega fær rannsóknarnefndin um bankahrunið þessi gögn í hendur. Svo sem:

1.    Nákvæma stöðu ríkissjóðs.
2.    Nákvæma stöðu Seðlabankans.
3.    Öll samskipti bankanna við Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann árin fyrir hrunið.
4.    Gögn um hvenær Seðlabankinn fékk heimildir til að skuldsetja sig langt umfram eigið fé og hverjir tóku ákvarðanir um að veita þær heimildir.
5.    Hvaða stefnumótun lá til grundvallar þegar Seðlabankinn og síðar fjármálaráðuneytið stöðvaði bankana í að geta gert upp í erlendri mynt?
6.    Rökstuddar skýringar Seðlabankans á því hvers vegna hann felldi niður bindiskyldu af erlendri starfssemi bankanna í upphafi árs 2008 þegar hann var að sögn kominn á þá skoðun að 0% líkur væri á því að þeir myndu lifa.
7.    Skýrslur sem endurskoðendur unnu fyrir Fjármálaeftirlitið um fjármunahreyfingar í bönkunum fyrir hrunið.
8.    Niðurstöður úr álagsprófum sem Fjármálaeftirlitið gerði um bankana og stjórnmálamenn notuðu óspart til að sannfæra þjóðina að bankarnir væru traustir.
9.    Gögn um viðbrögð stjórnvalda við hinni s.k. litlu bankakreppu sem hófst í ársbyrjun 2006 með skrifum danskra bankamanna.

Það var sorglegt að fylgjast með stjórnvöldum í kjölfar hrunsins skammta upplýsingum eftir hentugleikum í almenning í þeirri von að reiðin beindist að þeim aðilum í nokkra daga í kjölfarið.

Afraksturinn

Hin fjárhagslega niðurstaða er sú að ríkissjóður virðist skulda a.m.k. 600 – 1000 milljarða – 1.000.000.000.000 kr, – sem er allt að 20 milljónum kr. á mína 6 manna fjölskyldu. Afar sársaukafullt verður fyrir þjóðina að standa skil á þessum fjármunum, einkum nú þegar allt stefnir í landflótta unga fólksins sem eflaust verður erfitt að koma í veg fyrir.

Hvert vorum við að fara?

Ég vona að þessi dæmi sýni með skýrum hætti fram á þær ógöngur sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa leitt þjóðina alla í. Það er hins vegar ekki okkar óbreyttra borgara í þessu landi að sýna fram á að þeir áttu að vita betur heldur miklu frekar þeirra að sannfæra okkur með skýrum hætti hvernig þeirra stefna gat gengið upp og hvers vegna þeir voru tilbúnir að taka þá gríðarlegu áhættu sem í henni fólst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Spá því að 1,2 milljónir ferðamanna sæki landið heim á árinu

Spá því að 1,2 milljónir ferðamanna sæki landið heim á árinu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Aukin hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli

Aukin hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Heimir skrifar: Allir vinna, nema þeir sem tapa – Raunasaga skattpínds fasteignaeiganda

Heimir skrifar: Allir vinna, nema þeir sem tapa – Raunasaga skattpínds fasteignaeiganda
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðlaugur Þór með Covid

Guðlaugur Þór með Covid
Eyjan
Fyrir 5 dögum

SÞ segja að Íranar smygli vopnum til uppreisnarmanna í Jemen

SÞ segja að Íranar smygli vopnum til uppreisnarmanna í Jemen
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Björn Ingi harðorður í Silfrinu – „Guð forði okkur svo frá því að það komi ný afbrigði um páskana“

Björn Ingi harðorður í Silfrinu – „Guð forði okkur svo frá því að það komi ný afbrigði um páskana“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Norðmenn og Svíar efla viðbúnað sinn vegna aukinnar ógnar frá Rússlandi

Norðmenn og Svíar efla viðbúnað sinn vegna aukinnar ógnar frá Rússlandi
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bretar sendu vopn til Úkraínu

Bretar sendu vopn til Úkraínu