

Upp er runninn janúar 2027. Söngurinn í herþotunum er orðinn eins og hljóðið í ísskápnum, eitthvað sem maður tekur bara eftir þegar það dettur út í smá stund. Borgarbúar hafa aðlagast þessu vel og það er erfitt að muna hvernig borgin var áður en hún varð svona lifandi. Hvað er Ísland án þessarar taktföstu hrynjandi úr lofthelginni?
Herinn var ekki lengi að kaupa upp tómu íbúðirnar sem höfðu staðið rykfallnar í áratugi. Íslenskir auðmenn fögnuðu, öryrkjar önduðu léttar og stjórnendur brostu út í annað. Við þekkjum taktinn: dansinn í pyngjunni. Svo kemur maturinn. Þetta blessaða fólk borðar ótrúlega mikið. Eftirspurnin eftir kjöti rýkur upp, Costco þrefaldast og borgin þarf fleiri akreinar bara til að hleypa öllu þessu öryggi, skilvirkni og framtíð borgarhluta á milli.
Íslensk stjórnvöld eru þakklát; það er heiður að fá að samræma sig svona flottum og vel skipulögðum aðgerðum. Í nafni frelsisins, eins og sagt er í ræðu sem verður hálfgerður þjóðsöngur í nokkra mánuði. Okkar sameiginlegi söngur. Börnin kunna öll ensku og ráðherrar herveldisins dást að menntunarstiginu.
Framtíðin er björt; þetta er hagnýt alþjóðavæðing, samstarf um völd en ekki væl. Háskólarnir skrifa undir samninga við nýja vini sína og námsmenn fá loksins alvöru styrki og geta þotið í smá herþjónustu í skiptum fyrir skuldafen. Hjól atvinnulífsins verða keðjur, bílarnir verða drekar.
Ísland er orðið að stórkostlegum þyrlupalli og hálendið að æfingasvæði sem býður upp á þetta líka útsýni: víðerni, þögn og mark sem beðið er eftir að hitta. Þarna uppi er enginn nema íslenska kindin, þessi trausti áhorfandi sem mótmælir engu og skilur allt. Íslensk sveitarómantík, að vera hérna aðeins í augnablik, í nafni friðar og í nafni öryggis, með könguló í berjamó, á meðan skynsamir karlar teikna upp ný heimskort.
Kannski snýst fullveldi bara um tilfinningu. Og tilfinningar þarf að stilla.