
Svarthöfði rak augun í að Morgunblaðið kynnti breytingar á ritstjórn blaðsins í gær. Þær eru skiljanlegar og líklega skynsamlegar. Viðskiptakálfur blaðsins var augljóslega ekki að draga auglýsingar að og helst að vinir og vandamenn blaðsins fylltu þar auglýsingapláss.
Hitt fannst Svarthöfða merkilegra að ástæða var talin til að skjóta inn auka stjórnunarlagi með starfi aðalfréttastjóra. Ekki var leitað langt heldur gripið til nepótismans og skyldmenni ritstjórans fengið til starfsins.
Svarthöfði hefur tekið eftir því að Morgunblaðið hefur verið óþreytandi að vekja athygli á flækjustigi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Sum sú gagnrýni er fullkomlega réttmæt, en Svarthöfði sér ekki betur en einmitt stjórnsýsla borgarinnar sé blaðinu leiðarljós í eigin skipulagi.
Nú mun svo komið að blaðinu er stýrt af ritstjóra og framkvæmdastjóra, sem er einn og sami maðurinn, svo er þar annar ritstjóri – nokkuð kominn við aldur. Þá kemur aðstoðarritstjóri, því næst tveir fulltrúar ritstjóra. Og svo kemur hinn nýi aðalfréttastjóri og lestina reka þrír fréttastjórar. Sé rétt talið eru þetta níu silkihúfur og allar af karlkyni og rúmlega miðaldra. Svarthöfði fagnar þessu síðastnefnda enda í þeim flokki sjálfur. Svo kvað vera á ritstjórninni ríflega handfylli blaðamanna, en þeim hefur heldur fækkað í seinni tíð, svo sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, til dæmis í lok síðasta árs.
Þá er ótalinn fjármálastjóri, sem reyndar er kona, og svo prentsmiðjustjóri, karlkyns.
Svarthöfði sér ekki betur en þarna sé kominn álitlegur hópur og til þess fallinn að endurspegla samfélagssamsetningu og líklegur til að flytja fréttir og fjalla um samfélagsleg málefni af sanngirni og hófsemi – svo sem raunin hefur verið.
Það verður altént vandræðalaust að gera fjölmiðlanefnd grein fyrir ráðstöfun fjölmiðlastyrks, eins og áskilið er á hverju ári. Það er hægt að gera með „one-liner“ eins og Bandaríkjamenn orða það.