
Óhætt er að segja að Þórhallur Gunnarsson almannatengill og fyrrum fjölmiðlamaður hafi varpað fram stuttri en hnitmiðaðri og skarpri greiningu á íslenskum stjórnmálum. Tveir landsþekktir liðsmenn Samfylkingarinnar andmæla greiningunni að einhverju leyti og finnst að minnsta kosti einum þeirra Þórhallur viðhafa full harkalega gagnrýni í garð flokksins. Þessir tveir aðilar virðast hins vegar hafa eilítið blendnar tilfinningar í garð þeirrar stefnu sem flokkurinn hefur tekið upp undir forystu Kristrúnar Frostadóttur.
Greining Þórhalls, sem hann birtir á Facebook, er eftirfarandi:
„Íslensk stjórnmál í sinni einföldustu mynd: Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjarlægst eigin hugmyndafræði. Viðreisn ætlaði að fylla í gatið en vita varla hvort þau eru til hægri eða vinstri. Samfylkingin sem áður var vinstri flokkur er hægri sinnaðri en nokkurn tíma áður. Framsóknarflokkurinn sem var landsbyggðarflokkur missti áhugann á landsbyggðinni og langar helst að vera stór í Reykjavík. Flokkur fólksins er fyrst og fremst flokkur fólksins í flokknum. Miðflokkurinn er að reyna að vera eitthvað sem hann sjálfur hefur ekki trú á.“
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar leggur fram, í athugasemd, sína eigin greiningu og virðist hafa nokkuð blendnar tilfinningar í garð þeirrar stefnu sem flokkurinn hefur tekið upp undir núverandi forystu:
„Einu sinni voru til Frjálslyndir og vinstri menn. Eiginlega er Viðreisn Frjálslyndir og hægri menn, og hefur reynt, með góðum árangri, að höfða til svokallaðra hægrikrata. Vg reyndi að taka stöðu Samfó á hinu breiða miðvinstrisvæði og ratar ekki alveg til baka á sinn gamla vinstri stað; þar sem nú heyrist ekki mannsins mál fyrir sósíalistum að garga hver á annan. Miðflokkurinn er flokkur sem segir ekki einu sinni satt í nafninu sínu, aukinheldur um annað; byrjaði sem hægriarmur Framsóknar, búralegt íhald en hefur verið yfirtekinn af ungum trumpistum og sléttgreiddum lærisveinum amerískra nýrasista. Samfó, minn flokkur, er kominn i gamla virkjanagírinn, og er ekki alveg ósvipuð flokknum eins og hann var upp úr aldamótum …“
Þórhallur tekur að hluta undir greiningu Guðmundar Andra en andmælir henni að öðru leyti:
„Já,sammála að mestu en er þessi skilgreining orðin svolítið flókin fyrir venjulega manneskju sem þarf að takast á við lífið og skilur ekki þessar flækjur… og allrar síst stjórnmál… sem eru orðin líkari stuðningi við íþróttafélög.“
Hallgrímur Helgason rithöfundur sem lengi hefur verið virkur í starfi Samfylkingarinnar leggur einnig orð í belg og leitast við að bera blak af sínum flokki:
„XS er hinn nýji meirihlutaflokkur, tekur við af XD sem hefur kvittað sig út. Fyrir vikið þarf hann að taka ábyrgð pg taka að sér ýmis “óvinsæl” og “erfið” mál sem þarf samt að ganga í, svosem stórframkvæmdir, virkjanir, fangelsisstækkanir, Natóþjónkun og landamæravarsla. Þessu fylgja ásakanir um hægrimennsku. Kristrún axlar þó ábyrgð af léttleik og festu. Einhver þarf að ganga í óvinsælu verkin fyrst XD er horfinn. Um leið mæta til leiks í XS allir aukaleikararnir sem láta sig dreyma um sæti við borðið, stóri flokkur hvers tíma laðar alltaf að sér tækifærissinna, fólk sem eygir sér betri tíð. Gamlir kratar harma þetta en stækkun fylgja vaxtaverkir, og er ekki skárra að Samfylkingin sé aðalflokkurinn á Íslandi frekar en gamla sérhagsmunaveldið?“
Þórhalli líst ekki vel á þessa lýsingu Hallgríms:
„Er þetta ekki bara dæmigerð réttlæting á flokki sem þú studdir áður en „þarft“ að styðja núna? Er gagnrýnin farin af því „flokkurinn“ fékk valdið?“
Hallgrímur virðist þá gefa til kynna að eitthvað sé til í þessum orðum Þórhalls:
„I’m getting old I guess.“
Þórhallur virðist enn vantrúaður á að Hallgrímur sé fyllilega sáttur við flokkinn sinn:
„Ef þú upplifir þig þannig þá ætla ég ekki að agnúast við þig… en trúi varla að þetta sé uppskeran sem þú vonaðist eftir.“
Lýkur Hallgrímur þá umræðunni með stuðningsyfirlýsingu:
„Auðvitað vonaðist maður eftir xs í ríkisstjórn og muninn finna vonandi allir.“