

Birgir Örn Guðjónsson, deildarstjóri hjá Barna- og fjölskyldustofu og betur sem Biggi lögga þegar hann starfaði í lögreglunni hefur ákveðið að bjóða sig fram til að leiða Viðreisn í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningum í vor.
„Ég hef lengi haft áhuga og metnað fyrir því að reyna að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Störf mín síðustu áratugi hafa til dæmis alfarið snúið að þeim áhuga og ég er ótrúlega þakklátur fyrir það. Nú er komið að næsta skrefi í þessari spennandi vegferð. Það skref verður krefjandi en um leið ótrúlega spennandi.“
Segir Birgir Örn Kópavog vera frábær, en það er samt fjölmargt sem þarf að gera betur.
„Samsetning okkar Kópavogsbúa er sem betur fer fjölbreytt og þjónustuþörfin því eðlilega misjöfn. Bærinn verður að gera betur í að mæta þessum ólíku þörfum. Kópavogur er einnig miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og því allar samgöngutengingar mikilvægar sem og aðrir innviðir. Ég fer inn í þennan nýja kafla með mikla reynslu og víða sýn af samfélaginu, meðal annars úr störfum mínum til margra ára í lögreglunni, úr sveitastjórnarmálum, innan Barna og fjölskyldustofu og ekki síst sem faðir með stórt og fjölbreytt heimili.“
Birgir Örn segir það mikilvægt verk kjörinna fulltrúa að kunna að hlusta. Þegar unnið er að lausnum í stóru sveitarfélagi verði að hafa almannahagsmuni í huga og vinna saman að lausnum.
„Ég býð mig fram sem fulltrúa Viðreisnar til þess eins að vinna fyrir Kópavogsbúa en ekki til að berjast á móti fulltrúum annarra flokka. Að skiptast á skoðunum er nauðsynlegur partur af því að komast í sameiningu að bestu mögulegu niðurstöðunni en ég hef engan áhuga á sundrungar pólitík upphrópanna og útilokunnar.
Rekstur Kópavogs á að vera gagnsær og sjálfbær þar sem almannahagsmunir eru alltaf settir í forgang. Kópavogur á að vera lifandi bær með iðandi og fjölbreyttu mannlífi þar sem allir fá sitt pláss og þá þjónustu sem þeir þurfa á skilvirkan hátt. Ég vona að ég fái þann stuðning sem ég þarf til að leiða lista Viðreisnar í því mikilvæga verkefni að gera Kópavog að enn betra og framsæknara sveitarfélagi fyrir alla Kópavogsbúa.“