

Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur. Enn annar janúar. Fjölmiðlar af öllum toga fyllast af uppgjörum. Tónlist, bíómyndir, sjónvarpsþættir ársins. Hvernig fannst okkur skaupið, var verið að kýla upp eða niður? Flestir með grunndvallar menningarlæsi myndu viðurkenna að þetta hafi verið svokallað vonda-fólks skaup. Í höfundateyminu fólk sem hefur snúið til baka úr slufun. Stærstu sleggjurnar í brandaravopnabúrinu kýla niður. Ekkert er heilagt. Þetta fólk fer ekki í kirkju. Stungið er á heilögum kýlum. Forsetamakar fá á baukinn. Ráðist er á mann með hækju. Svo kemur lag í lokin sem undirstrikar hversu ægilega vondir höfundarnir eru: Lagið fjallar um að þeir sem gagnrýna skaupið eða fatta ekki húmorinn séu bara leiðinlegir og með vesen. Bótoxuð Sylvía Nótt er svo reist upp frá dauðum til að hamra inn skilaboðin með öllum sínum Fokkjú-um.
Á sínum tíma var endalaust talað um að Sylvía Nótt væri gjörningur langt á undan sinni samtíð. Loksins gefst tækifæri til að sanna þá kenningu. Þjóðfræðingar hljóta að anda í poka yfir þessum tímamótum.
Eitt stærsta vandamál samtímans er offramboð, sérstaklega offramboð á skoðunum. Þessi pistlaröð er meira að segja hluti af vandamálinu. Innlit inn í þankagang konu úti í bæ verður brot af degi saklausra Íslendinga sem ætluðu bara að taka rúnt inn á dévaff púnktur is. Kannski er lesandinn sammála pistlinum, kannski ekki. Kannski verður uppskeran ónotaleg tilfinning, reiði og önugheit sem fylgja viðkomandi út í daginn eins og leiðinleg lykt í peysu. Mögulega fylgir pistlinum friður, eins og morgunbæn sem hittir beint í hjartastað og slær á einmannaleikann. Það líður fleirum eins og mér.
En hvers virði er þessi samlíðan?
Samkvæmt gögnum frá bandarísku rannsóknarstofnuninni Morning Consult hefur traustið til áhrifavalda gersamlega hrapað og það i fyrsta sinn síðan mælingar hófust og þá sérstaklega meðal ungs fólks sem áður var helsti markhópurinn. Þá sést að 67% þúsaldarkynslóðar og hinna yngri Gen Z (fædd 1997-2012) treysta frekar óháðum umsögnum en áhrifavöldum og 68% notenda upplifa þreytu gagnvart duldum auglýsingum. Markaðsfræðin tala um áhrifavaldaþreytu.
Flest áttum við okkur á því að þessi stöðuga neysla er ekki sjálfbær og jú, jörðin er að brenna. Við getum ekki haldið áfram að úða baneitruðum efnum út í umhverfið og búa til rusl á þessum hraða. Í raun ætti rusl ekki að vera til. Þessi neyslumynstur breyta börnunum okkar í kvíðna neysluþræla sem halda áfram að moka undir rassinn á sturluðum billjarðamæringum sem reyna að skjóta sjálfum sér út í geim og strekkja kinnarnar á sér sem lengst aftur á hnakka. Við sem tegund hljótum að geta gert betur.
Löggjafinn er að bregðast við þessari þróun og í júní samþykkti franska þingið lög sem banna auglýsingar fyrir hraðtískufyrirtæki á borð við Shein og Temu. Þá er áhrifavöldum í franskri lögsögu bannað að vera í samstarfi við þessi fyrirtæki. Framleiðendum er líka skylt að setja umhverfisviðvaranir á vörur og áhrifavaldar sæta persónulegri ábyrgð fyrir umhverfis og samfélagsleg áhrif þeirra vara sem þeir kjósa að kynna.
Það er von. Gögn frá Thredup sýna fram á að bandaríski „second hand“ markaðurinn hafi stækkað um 14% milli áranna 2024 og 2025 og hann vaxi fimmtánfalt hraðar en hefðbundin sala á tískuvöru.
Öld appelsínugula áhrifavaldsins í magabolnum með Stanley brúsann og sturlaða neysluglampann í augunum er að líða undir lok. Þess í stað hefur nútímaútgáfa af blogginu sprottið upp í formi pistlamiðilsins Substack. Þar greina höfundar menninguna, að megninu til á ensku, og tala um allt mögulegt. Pólitík fegurð, fjármál, foreldrahlutverkið. Dæmi um mest lesnu höfundana þessa stundina eru Heather Cox Richardson, Lenny Rachitsky, Robert Reich, Matt Taibbi og Noah Smith. Þá eru poppstjörnur og leikarar einnig á miðlinum og má þar nefna Dolly Parton, Rosalíu og Charli XCX. Í dag eru yfir 5 milljón áskrifenda að greiða fyrir áskrift að Substack en auk blaðamanna og rithöfunda eru fjöldi þeirra sem þar skrifa eru fyrrverandi áhrifavaldar sem hafa lagt frá sér andlitsmaskana og litið inn á við. Sama þróun virðist vera á TIktok þar sem lengri vídjó, heil mínúta eða jafnvel þrjár, eru að slá í gegn. Efni sem kennir okkur eitthvað og talar við okkur sem manneskjur, en nálgast okkur ekki sem neyslusjúk vélmenni.
Kannski verður árið 2026 bara algjörlega árið. Svo getum við vonandi farið að rífast um slæmar hugmyndir og óefnislegt rusl í menningunni árið 2027.