Ekkert er nýtt undir sólinni í mannlegum samskiptum. Fólk notar sömu aðferðir til að ráðskast með umhverfi sítt á öllum tímum.
Ein algengasta aðferðin er fýlustjórnun. Einn frægasti fýlustjórnandi Íslendingasagna er Gunnar á Hlíðarenda. Hann stjórnaði konu sinni og nánasta umhverfi með fýluköstum og ofbeldi. Á banastund Gunnars mundi hún eftir þessu og neitaði honum um streng í bogann. Góður fýlustjórnandi eins og Vladimir Putin heldur heimsbyggðinni í heljargreipum með svipbrigðum, vopnaskaki og eitruðum athugasemdum. Fýlupokinn nýtur þess þegar allir reyna að sleikja úr honum fýluna í trylltri meðvirkni.
Margir beita sektarkenndarstjórnun eða fórnarlambsstjórnun með góðum árangri. Samband Guðrúnar Ósvífursdóttur og Bolla í Laxdælu er dæmi um slík samskipti. Guðrún kenndi Bolla um alla sína ógæfu í lífinu og hvatti hann til glæpaverka með samviskubitið að vopni. Hún var leiksoppur örlaganna og allt var Bolla að kenna. Andrúmsloftið á heimilinu var rafmagnað enda bugaðist Bolli og koðnaði niður í viljalaust verkfæri konu sinnar. Selenski Úkraínuforseti er ríkjandi Evrópumeistari í sektarkenndar- og fórnarlambsstjórnun.
Önnur algeng stjórnunartækni er frekjustjórnun. Í Njálu eru þær Bergþóra á Bergþórshvoli og Hildigunnur Starkaðardóttir afbragð annarra frekjustjórnenda. Með geðvonsku og heimtufrekju komu þær af stað mannvígum og alls konar hremmingum. Góður frekjustjórnandi heldur sínum nánustu í gíslingu með frekjuköstum. Hann er sjálfmiðaður og setur sjálfan sig alltaf í forgang. „Minn vilji er lög,“ segir lítil frekjudós eins og Makron Frakklandsforseti hvössum rómi og allir hrökkva í kút.
Mörgum öðrum stjórnunarháttum er beitt í samskiptum hjóna. Ég nota mikið sjúkdómastjórnun á Jóhönnu konu mína. Hún felst í því að flagga veikindum mínum í tíma og ótíma og verða smám saman undanþeginn öllum skylduverkum á heimilinu. Öflugur sjúkdómastjórnandi krefst þess að veikindi hans séu stöðugt til umræðu. Smám saman verður sjúkdómurinn eins og einn af fjölskyldunni og lifir sjálfstæðu lífi. Sá halti og skapvondi skratti, Þórólfur bægifótur í Eyrbyggju er dæmi um slíkan meistara. Hann beitti allt sitt umhverfi ógnarstjórn með því að halda örkumlum sínum sífellt á lofti. Ég finn oft fyrir skyldleika með Þórólfi þegar ég geng um stynjandi og hálf-ósjálfbjarga til að halda völdum á heimilinu með samblandi af fýlu- frekju- fórnarlambs- og sjúkdómastjórnun.