Ekki var þess lengi að bíða að framhald yrði á hernaði stórútgerðarinnar í veiðigjaldamálum gegn ríkisstjórninni og þjóðarhagsmunum. Fyrir helgi tilkynnti Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson (Binni), forstjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, að fiskvinnslunni Leo Seafood yrði lokað og 50 manns sagt upp.
Binni kenndi hækkun veiðigjalda um og sagði orðrétt í viðtali við RÚV: „Þeim skal ekki detta til hugar að þvo hendur sínar af þessu sem að er það að þarna var 50 saklausum einstaklingum sagt upp sem liður í hagræðingaraðgerðum sem voru kallaðar fram vegna veiðigjalda.“
Orðið á götunni er að þarna hafi Binni orðið uppvís að hræsni og hroka sem jafnvel taki fram þeirri hræsni sem samtök sægreifa og sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar sýndu af sér í málþófinu og tafaleikjum í veiðigjaldamálinu í vor og sumar.
Fyrir það fyrsta hafa engar breytingar orðið á veiðigjöldum. Þær taka gildi í áföngum á næstu árum og fyrsta skref verður stigið á næsta ári. Þá hafa Vinnslustöðin og Leo Seafood verið rekin með tapi undanfarin tvö ár, en tvö ár eru liðin síðan Vinnslustöðin festi kaup á Leo Seafood og útgerðinni ÓS ehf. af fyrri eigendum. ÓS ehf. er eigandi togarans Þórunnar Sveinsdóttur, sem á kvóta sem bókfærður er upp á 2,7 milljarða króna.
Í sumar var Þórunn Sveinsdóttir sett á sölu en kvótinn, nálægt einu prósenti af aflaheimildum þjóðarinnar í þorskígildum, fylgir ekki með. Orðið á götunni er að aldrei hafi annað staðið til af hálfu Vinnslustöðvarinnar en að loka fiskvinnslu Leo Seafood og losa sig við togarann. Svona gerist hlutirnir á Eyrinni í þessum bransa. Stóru fyrirtækin kaupa þau minni upp til að hagræða. Á kaupdegi er öllu fögru lofað; starfsemin verður óbreytt, Guggan verður alltaf gul og gerð út frá Ísafirði og allt það, og enginn missir vinnuna.
Svo líða einhver misseri og þá breytast alltaf einhverjar aðstæður þannig að nauðsynlegt verður að loka vinnslunni og fara með togarann úr plássinu. Enda á stórútgerðin nóg af togurum sem geta veitt þennan kvóta og vinnslugetan í aðalvinnslunni er yfirdrifin og því ekki þörf á þeirri minni sem keypt var.
Orðið á götunni er að sú athugasemd atvinnuvegaráðherra að nær væri að líta til reksturs og þess sem hefur gengið á fremur en framtíðarveiðigjöld í tengslum við þessar uppsagnir og hagræðingu Vinnslustöðvarinnar hitti beint í mark. Vinnslustöðinni hefur tekist að reka sig með tapi þrátt fyrir að engin breyting hafi verið gerð á veiðigjöldunum. Binni kennir krónunni um það tap. Væntanlega er hann þá hlynntur því að krónunni verði skipt út fyrir alvöru gjaldmiðil.
Þrátt fyrir sterka krónu og taprekstur hefur Vinnslustöðin haft svigrúm til að greiða eigendum sínum fjóra milljarða í arð á örfáum árum. Orðið á götunni er að hernaðurinn gegn ríkisstjórninni og þjóðarhagsmunum og tilfinningaklámið hjá stórútgerðinni sé rétt að byrja – Binni í Vinnslustöðinni sé bara sá fyrsti sem stígur fram með þessum hætti og spinnur fantasíu.
Orðið á götunni er að enginn fótur sé fyrir þeim grátsögum sem bornar eru og verða á borð um að vegna veiðigjalda þurfi að segja upp fólki og hagræða. Þetta hefur stórútgerðin alltaf gert og mun alltaf gera. Og alltaf mun hún reyna að spinna einhverjar fantasíur í kringum hagræðinguna og uppsagnirnar í stað þess að horfa beint framan í fólkið með uppsagnarbréfin og viðurkenna að allt er þetta gert í þeim eina tilgangi að græða meira og borga meiri arð til eigenda.
Orðið á götunni er að Binna í Vinnslustöðinni væri nær á líta á eigin lófa en að saka aðra um að reyna að þvo hendur sínar af uppsögnum saklauss fiskvinnslufólks í Eyjum.