Það stenst enga skoðun að fákeppni sé á íslenskum eldsneytismarkaði. Samkeppni hér er meiri en annars staðar á Norðurlöndunum. Nýlega þurfti N1 að skipta út öllum hleðslustöðvum sínum vegna þess að þær stóðust ekki kröfur hér á landi. Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins.
Markadurinn - Magnus Haflidason - 4
Tryggð viðskiptavina við olíufélögin fer minnkandi og liðin sú tíð er menn létu stjórnmálaskoðanir ráða því hvar þeir fylltu bílinn og sumir gengu svo langt að segjast frekar keyra bensínlausir en að taka bensín hjá öðru félagi en „þeirra“.
„Við vitum sem er að það er mjög vinsælt að keyra sumarviku afslætti og svona og við heyrum bara af því. Fólk er með öll kortin, alla lyklana og já, raða svo bara upp vikunum þannig að þau séu á lægsta verðinu allt sumarið. Og það er bara alveg eðlilegt. En við lítum hins vegar svo á að ef að einungis væri alltaf verslað við þann sem er með lægsta verðið, óháð staðsetningu, óháð gæðum, óháð þjónustu og svo framvegis, þá væri hér auðvitað algjör fákeppni, það væri bara eitt félag. En það er ekki raunin. Við erum með mikla samkeppni á þessum markaði,“ segir Magnús.
Hann segir það ekki standast neina skoðun að það sé fákeppni á íslenskum eldsneytismarkaði. „Það stenst enga skoðun því að við auðvitað erum algert örsamfélag og raunverulega má segja það sem svo að við séum með óeðlilega mikla samkeppni í samanburði við Norðurlöndin, því að þarna horfum við á að það eru færri íbúar per dælu og per olíufélag heldur en annars staðar á Norðurlöndunum sem dæmi.“
Magnús bendir á að í Danmörku séu einhver tíu vörumerki á þessum markaði, sjö í Noregi. „Eftir athugun hvernig þú flokkar þetta hér á landi, þá erum við með fjögur til sex vörumerki.“
Þessi orkuskipti kalla náttúrlega á breytt viðskiptamódel eins og við nefndum. Þið þurfið að breyta ykkar stöðvum. Þið eruð að setja upp hleðslustöðvar, er það ekki?
„Við erum vissulega að gera það og kannski fyrsta skrefið var að búa bara til nýja deild innan félagsins, N1 Rafmagn, með yfirtökunni á Íslenskri orkumiðlun fyrir ekki svo löngu. Við erum að selja rafmagn til fyrirtækja og einstaklinga, eða sem sagt heimila og fyrirtækja um allt land. En þau halda einnig utan um uppbygginguna, hleðslustöðvum. Við höfum horft svolítið á þetta þannig að við erum líka í góðu samstarfi við Tesla um uppbyggingu á þeirra svona Supercharger neti og erum á ófáum stöðum hjá okkur í samstarfi við þá.“
Er það eitthvað sem nýtist bara Tesla?
„Nei, það er reyndar opið öllum en það er svona smá krókaleið. Það mætti alveg vera, hvað á að segja, auðveldara aðgengi. En það er alveg hægt og ég hef sjálfur notað það á mínum rafmagnsbíl þó að það hafi ekki verið Tesla. En það er gríðarlega gott fyrir Tesluhópinn, mjög einfalt, og sá hópur er auðvitað bara gríðarlega stór á Íslandi. Þannig að þar erum við að horfa á samstarf þar sem að við erum að búa til traffík inn á stöðvar þar sem við erum auðvitað að veita ýmiss konar aðra þjónustu. Og svo þurfa þessir aðilar auðvitað annars konar þjónustu, dekkjaskipti eða hvað annað. Nú, svo erum við að keyra uppbyggingu á eigin hleðsluneti líka og okkar markmið er bara einfaldlega að þú getir keyrt um landið, hringinn í kringum landið og getir bara stoppað á N1. Þetta er markmiðið en þetta er vandasamt og þetta er kostnaðarsamt og þarna erum við að horfa á, það er sem sagt dæmið núna bara á dögunum, endurnýjuðum við eiginlega allar lykilstaðsetningarnar okkar. Þetta var ekkert gamall búnaður sem við vorum að endurnýja. Framþróunin og hvað eigum við að segja, svona, þetta er svona, þetta er svona „early days“ í þessum rafbílum og þessum hleðslubúnaði. Við lentum í því að vera, við lentum í því að vera með óheppilegan framleiðanda á búnaði sem, sem bara, sem einfaldlega stóðst ekki kröfur og stóðst ekki íslenskar kröfur þannig að þá þurftum við að fara í útskipti.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.