N1 gengur út á að veita góða og viðamikla þjónustu á miklum fjölda stöðva víðs vegar um land. Taka verður Costco út fyrir sviga þegar eldsneytisverð er borið saman vegna þess að Costco notar eldsneytið til að laða að viðskiptavini í verslun sína en veitir enga þjónustu. Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins.
Markadurinn - Magnus Haflidason - 3
„Við höfum líka breytt aðeins nálguninni okkar. Það hefur verið ákveðinn vani hérna á þessum markaði – þú heyrir útvarpsauglýsingar þar sem að er listað upp lægsta verðið sem sé sko hér, þar og þarna og fólk var að keyra jafnvel bæjarhluta á milli, jafnvel sveitarfélaga á milli til að fá lægsta verðið. Við höfum ákveðið að snúa þessu við. Við segjum bara við viðskiptavininn: Heyrðu, þú velur bara stöðina þína. Við setjum eiginlega valdið í hendur á viðskiptavinum og brjótum aðeins þetta verðmódel þannig að þú átt sem viðskiptavinur N1 færð sama verð á Ísafirði, Eskifirði, Vík í Mýrdal eða í Reykjavík,“ segir Magnús.
„Þarna erum við líka aðeins að reyna að koma með i útspil þar sem neytandinn getur bara mátað sig við sitt umhverfi og séð bara, ókei, þarna er ég með lægsta verðið sem mér hentar. Svo er það nú bara einu sinni þannig að í þessum rekstri eins og mörgum öðrum að það kostar heilmikla peninga að halda úti eldsneytisinnviðum á Íslandi og tryggja að þú getir einmitt fengið eldsneytið þitt um allt land, svo til má segja í hverjum einasta þéttbýlisstað á Íslandi, oft af fleiri en einu fyrirtæki.“
Magnúsi finnst eðlilegt að fólk hafi skoðun á verðinu en bendir á að olíufélögin hafi takmarkað um verðmyndunina að segja. Hann nefnir að N1 sé með N1-kortið, sem er líka komið inn í appið hjá þeim. Með því fæst afsláttur á veitingum, gasi, dekkjaþjónustu og hverri annarri þjónustu sem fyrirtækið veitir.
„Þetta er eiginlega aukaafsláttur sem að, sem tínist svona inn hægt og rólega eftir því sem að tímanum vindur fram og tikkar inn kannski í minna mæli heldur en þessir stóru eldsneytisafslættir sem mikið er talað um og er mikið í umræðunni.“
Costco kom inn á markaðinn fyrir nokkrum árum og eru með lægsta verð á eldsneyti. Þar er engin þjónusta, þú bara gerir þetta sjálfur. Það hefur áhrif, ef ég skil þig rétt, þetta þjónustustig sem þið veitið. Það verður einhvern veginn að fá fyrir því.
„Já, en auðvitað hangir þetta allt saman og Costco, þegar við horfum á markaðinn og tökum við Costco dálítið út fyrir sviga, þeir eru með eina staðsetningu, þeir rukka í árgjald og eflaust fara flestir einnig inn í verslunina þeirra líka og nýta þannig árgjaldið, en til þess er auðvitað leikurinn gerður, bara svo það sé á hreinu. Þeir eru auðvitað að búa til traffík og nýta til þess eldsneytisverð. Nú, við horfum á þetta öðruvísi, við trúum því að við höfum þarna net af staðsetningum og úrval af þjónustu sem við getum boðið og okkar markmið er náttúrulega að búa þannig um hnútana að svona hefðbundinn viðskiptavinur okkar sjái sér bara hag í því að vera með fleiri en einn hlut hjá okkur og vera í okkar svona, við getum kallað þetta okkar ecosystem, smá sletta, að þá sé einfaldlega sameiginlegur hagur af því að fara með meira en minna til okkar og þar teljum við að okkar sérstaða sé og það er einfaldlega fullt af fólki sem vill enn þá þjónustu og við erum að veita hana enn þá á fjölda stöðva. Ég held ég fari alveg rétt með að við séum með flestar stöðvar þar sem að enn þá er veitt þjónusta.“