N1 kappkostar að láta breytingar vegna heimsmarkaðsverðs á olíu eða gengis gjaldmiðla koma hratt fram í eldsneytisverði hér á landi, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. N1 hefur verið fyrst til að lækka verðið 13 sinnum á þessu ári og er verðið nú 13-14 krónum lægra en í ársbyrjun. Þetta segir Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1, sem er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins.
Markadurinn - Magnus Haflidason - 2
Orkuskiptin munu óumflýjanlega hafa áhrif á N1. Þegar er verið að breyta bensínstöðvum félagsins, setja upp hleðslustöðvar og fleira. Magnús segir fyrirtækið horfa fram á frekari breytingar því að óháð því hvort fólk þurfi rafmagn eða jarðefnaeldsneyti, eða jafnvel ekkert eldsneyti, þá séu staðsetningar stöðva N1 góðar og bjóði upp á ýmiss konar nýtingu, hvort heldur sem er innan lóðar eða innan húsnæðisins eins og það er í dag. „Við sjáum fram á mikil tækifæri að nýta þessar staðsetningar í breyttu umhverfi.“
Það var núna í vikunni lagt fram fjárlagafrumvarp. Þar er meðal annars birtist breytt gjaldtaka af bílum, ökutækjum, vegna þess að tekjur ríkisins af sölu eldsneytis hafa dregist saman. Þið finnið fyrir þessum samdrætti?
Já, við sjáum á markaðnum að markaðurinn er að dragast saman. Breytingin í okkur er ef til vill eitthvað minni heldur en á markaðnum, sem betur fer, við höfum verið að sækja fram og breytingin mun eiga sér hraðar stað bensínmegin heldur en díselmegin. Það er meira af atvinnutækjum sem eru knúin af dísel, bara sem dæmi. En jú, við tökum eftir þessu en ríkið hefur verið að aukaálögur á eldsneytið, síðast um síðustu áramót á dísel, og nemur auðvitað einhvers staðar á bilinu 51-55 prósent af útsöluverði eldsneytis í dag. Þannig að okkur þykir nú gjaldtakan alveg nægileg fyrir þrátt fyrir einhvern smá samdrátt.“
Magnús bendir á að nýtt fyrirkomulag gjaldtöku hafi verið lengi í umræðunni og til hafi staðið að það kæmi til framkvæmda fyrr en raunin er. „Þetta mun auðvitað breyta töluvert miklu. Þetta mun breyta einhverju fyrir neytendur. Þetta mun breyta því fyrir okkur að við erum að innheimta þá minna af gjöldum fyrir ríkið.“
Talandi um þetta, gjöldin og svona. Í mörg ár, og ekki kannski síst á þessu ári, hafa olíufélögin fengið gagnrýni fyrir það að krónan hefur styrkst, dollarinn hefur lækkað, olían, olíuverð hefur lækkað. Það er kvartað undan því að þetta komi ekki fram á dælunni hér.
„Já. Og þessi umræða, það hafa sjálfsagt margir tekið eftir henni víða svona upp á síðkastið. Það sem okkur finnst mikilvægt að komi fram í þessu er að við höfum lagt kapp á það að láta breytingarnar, hvort sem þær eru upp eða niður, koma tiltölulega hratt fram. Og við höfum núna samhliða lækkun, til að mynda frá þessu ári, frá því í lok febrúar, lækkað þrettán sinnum verð á bæði dísel og bensíni. Og að jafnaði hefur verðið verið að lækka um bilinu 13-14 krónur á lítrann …“
Meinarðu ef við horfum bara aftur til áramóta eða eitthvað svoleiðis þá hafi verðið lækkað um 13-14 krónur?
„Já, þetta hefur eiginlega verið samfellt lækkunarskeið frá því frá átjánda febrúar. Það var aðeins upp og niður þarna í byrjun ársins en síðan þá hefur þetta verið að lækka. Ég held að kannski þessar stöðugu minni lækkanir séu mögulega að valda því að fólk er ekki eins næmt fyrir breytingunni. Ef til vill væri betra svona út á við að við tækjum stærri breytingar þá með lengra millibili. En við teljum að það sé rétt að gera þetta með þessum hætti. Og við höfum verið að skila þessu, styrkingu krónunnar fyrst og fremst, út í verðlag. Nú, olíuverðið hefur verið að sveiflast og ef við horfum aftur á bak um tvö ár, þá erum við að tala um mjög svipað heimsmarkaðsverð núna í dag eins og var á svipuðu tímabili í fyrra.“
Gagnrýnin hefur beinst að því að þið séuð fljótari að hækka en lækka. Og að þið lækkið minna, sem sagt, þegar ég segi þið, þá er ég bara að tala um olíufélögin. Þannig að eldsneytisverð lækki minna en breytingar á heimsmarkaðsverði gefi tilefni til. Hverju svararðu þessu?
„Ég svara því bara einfaldlega þannig að, og ég get auðvitað bara svarað fyrir N1, við erum bara búin að móta okkur ákveðna verðstefnu. Við vitum að það þarf afkomu af þessum rekstri eins og öllum öðrum rekstri til þess að viðhalda, tengdum kostnaði sem fylgir þessu því að ef við horfum á bensínlítrann og hvernig hann er samansettur, þá er í rauninni bara um það bil 35 prósent sem eru bæði álagning og annar kostnaður. Allt annað eru gjöld sem á einhvern hátt eru ekki undir okkar stjórn og heimsmarkaðsverð að vega þarna kannski 24 prósent í myndinni. Við höfum bara okkar verðstefnu. Við höfum verið fyrst í 13 skipti á þessu ári að lækka verð. Það er svo bara undir hverju og einu félagi komið að meta það hvernig þau ætla að haga sínum verðmálum.“